Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:45:14 (4531)

1996-04-11 11:45:14# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:45]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir langa ræðu hæstv. fjmrh. tókst honum ekki að skýra til hvers þessi breyting á lögunum er borin hér fram. Hann svaraði ekki þeirri spurningu sem ég spurði hér: Á grundvelli hvers hafa innheimtumenn ríkissjóðs og fjmrn. þá í framhaldi af því talið sér fært að taka þátt í nauðasamningum þegar um fyrirtæki er að ræða? Er einhvers staðar annars staðar í lögunum um tekju- og eignarskatt að finna heimild til þess? Í 111. gr. laganna eins og þau eru núna er talað um alla gjaldendur. Og þar er talað um að það megi með samningi um greiðslu koma til móts til alla gjaldendur. Það er síðan túlkun ráðuneytisins á hverjum tíma hvernig það lítur á þetta.

En af því að ráðherrann rifjaði upp hvernig þessum málum var háttað meðan ég vann í fjmrn. held ég að það sé miklu betra að ég geri það sjálf. Ég minnist þess þegar þau mál voru til umræðu þar og það var knúið á um þátttöku í samningum voru svörin jafnan þau að samninga væri hægt að gera innan réttar enda væri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkum samningum. Ég kannast ekki við þá túlkun sem ráðherrann kemur með núna enda kemur fram í grg. þess frv. sem hann mælir fyrir að á undanförnum árum hafi verið um stórhertar aðgerðir ríkissjóðs að ræða og þar er játað að vegna þess hafi gjaldþrotum fjölgað.