Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:53:02 (4535)

1996-04-11 11:53:02# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:53]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að kjarni þessa máls sé að þetta frv. er hluti af ákveðnum pakka og þau frv. sem honum tilheyra eru ákaflega veigalítil. Það má segja að þetta sé tilraun Sjálfstfl. til að efna kosningaloforð Framsfl. Framsfl. hefur kosið að gerast vinnumaður á þessu búi Sjálfstfl. og það var mjög athyglisvert hvernig hæstv. fjmrh. og varaformaður Sjálfstfl. flutti áðan ræðu fyrir hönd Framsfl. (SvanJ: Hjartnæma og hugljúfa.) Hjartnæma ræðu. Það er mjög sjaldgæft að ráðherrar úr öðrum flokkum telji ástæðu til þess að taka þannig upp hanskann fyrir samstarfsflokkinn. Framsfl. er orðinn svo illa farinn og afvelta að hann getur ekki talað lengur fyrir sig sjálfur og varaformaður Sjálfstfl. verður að tala fyrir hann. Ég hygg að það sé leitun að öðru eins í sögu Alþingis.

Hitt var líka merkilegt, hæstv. forseti, þegar fram kom að það hafi verið borið á hæstv. fjmrh. að hann væri með Framsfl. í vasanum. Hann neitaði því ekki, ráðherrann, hann neitaði því ekki. Hann sagði hins vegar að Framsfl. væri alveg í sömu stöðu og Alþfl. var á síðasta kjörtímabili. Með öðrum orðum hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að hann hafi haft Alþfl. í vasanum á síðasta kjörtímabili og hafi nú Framsfl. í vasanum. Hér eftir hlýtur hann að bera titilinn: Maðurinn með vasann. Enginn ráðherra hefur nokkru sinni verið með annan eins fjölda þingmanna í vasanum og hæstv. fjmrh. telur sig hafa og enginn hefur talað um samstarfsflokk sinn með annarri eins lítilsvirðingu, bæði fyrrv. og núv., og fjmrh. gerir um leið og hann heldur þessa hjartnæmu varnarræðu fyrir hönd Framsfl. Ég óska Framsfl. til hamingju með hinn nýja leiðtoga sinn, Friðrik Sophusson. (SvanJ: Ég er mjög ánægð með þessa ræðu.)