Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:11:25 (4540)

1996-04-11 12:11:25# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. fjmrh. um þetta mál. Í frv. er getið um að það eigi að selja íbúðir á hagstæðum kjörum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvað er átt við með ,,hagstæðum kjörum``. Á að fara að niðurgreiða vexti eins og fram kemur í áliti fjmrn. um málið? Ég vil fá að vita hvaða rök eru fyrir því að fara að taka upp neikvæða vexti tæpum 15 árum eftir að það var aflagt.

Ég vil í öðru lagi spyrja út í þá svæðaskiptingu, viðmiðun við 1.000 íbúa, sem hér er. Af hverju að miða við 1.000? Hvers eiga minni sveitarfélög að gjalda þar sem það sama gæti gilt að markaður væri vel fyrir hendi? Ég spyr um rök hæstv. fjmrh. fyrir hækkun á húsaleigu um 35--50% sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég veit alveg hvað gildistala er, hæstv. fjmrh., þannig að það er ekki svo að þingmenn viti ekki neitt hvað það er. Hann vissi kannski ekki hvað hann var að tala um þegar hann talaði fyrir frv. en það er gert ráð fyrir að það verði hækkanir á húsaleigu með þessum hætti. Ég vil fá skýringar hæstv. fjmrh. á því.

Í fjórða lagi spyr ég hvort þetta er nýja stefna ríkisstjórnarinnar sem þarna kemur fram. Er búið að leysa greiðsluvanda heimilanna? Ætlar hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því að greiðsluvandi heimilanna verði leystur með sama hætti og hann ætlar að gera hér gagnvart útvöldum einstaklingum við kaup á íbúðarhúsnæði, þ.e. að niðurgreiða lán þeirra? Mega heimilin í landinu vænta sömu niðurgreiðslu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar eins og fram kemur í þessu frv.?