Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:16:55 (4543)

1996-04-11 12:16:55# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru skýr lagaákvæði um þetta í dag og reglugerðarákvæði frá 1992 um leigu. Við höfum verið að færa okkur í þá átt að leigan sé í eðlilegu samræmi við það sem gerist á markaðnum en höfum ekki tekið skrefið til fulls. Það hefur löngum verið ljóst að leiga embættisbústaða hefur verið mjög lág og stundum verið talin til tekna þeirra sem í þeim hafa búið.

Varðandi það að verið sé að hygla embættismönnum með sérstökum kjörum þá verður að taka fram að þetta eru oftast húseignir sem ríkið hefur byggt og ekki fengið til þess lán úr húsnæðislánasjóðum ríkisins. Það er ekkert óeðlilegt við að ríkið --- það var kannað með tilliti til þess --- sjái til þess að skuldir á þessum eignum séu svipaðar þeim sem gengur og gerist með jafngamlar eignir á markaðnum. Það er það sem verið er að gera með þessum hætti en alls ekki að hygla einhverjum á kostnað annarra, þvert á móti. Það veit ég að jafn vel gefinn maður skilur og prófessor Ágúst Einarsson alþingismaður er. Það er auðvitað verið að fara í þá átt að gera embættismenn jafnsetta öðrum þjóðfélagsborgurum með því að þeir þurfa að afla sér húsnæðis eins og aðrir menn en geta ekki búið á kostnað ríkisins í vissum tilvikum á lágri leigu og hér er fyrst og fremst verið að gera þá jafnsetta öðrum. Það er auðvitað stefna ríkisstjórnarinnar og hún er eðlileg. Ég veit að þegar hv. þm. hugsar sig um þá styður hann slíka stefnu.