Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:35:33 (4548)

1996-04-11 12:35:33# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri sem lagt hefur verið fyrir Alþingi á þskj. 752.

Lagt er til að einstökum ráðherrum verði heimilt að fela einni ríkisstofnun að annast framkvæmd þjónustuverkefna annarrar ríkisstofnunar, og að semja við sveitarfélög og einkaaðila um að veita lögboðna þjónustu sem ríkissjóði ber að greiða fyrir. Um þetta skuli gerðir skriflegir samningar til ákveðins tíma milli hlutaðeigandi ráðherra og veitanda þjónustunnar.

Tilgangur frumvarpsins er að auka hagkvæmni og sveigjanleika í ríkisrekstri og tryggja gerð samninga um þá þjónustu sem ríkið kostar.

Með auknu aðhaldi í fjármálum ríkisins er gerð sú krafa til ráðuneyta og stofnana að verkefni þeirra séu leyst af hendi á eins hagkvæman og skilvirkan hátt og frekast er kostur. Ætlast er til að ráðuneyti og stofnanir geri betur grein fyrir því hverju rekstur þeirra skilar og hvað hann kostar. Verkefnavísar sem fjmrn. gaf út í fyrsta sinn á sl. hausti er liður í því starfi. Þeim er ætlað að beina athyglinni að þeirri þjónustu sem almenningi og fyrirtækjum er látin í té á kostnað ríkisins en ekki einungis umfangi mældu í fjármunum.

Þjónusta ríkisstofnana er í stöðugri þróun eftir því sem þarfir fyrir hana breytast og möguleikar á að veita hana verða fjölbreyttari. Þess vegna þarf að auka sveigjanleika og standa þannig að því að þjónustan sé ávallt veitt á sem hagkvæmastan hátt. Í því augnamiði þarf að vera unnt með einföldum hætti að færa til reynslu lögbundin verkefni milli ríkisstofnana. Á sama hátt þarf að vera unnt að fela aðilum utan ríkisins að annast tiltekna þjónustu.

Í frv. er lagt til að ráðherra geri skriflegan samning við veitanda þjónustu sem kveði á um magn og gæði þjónustunnar, greiðslur ríkisins, eftirlit með samningi og meðferð ágreiningsmála. Lagt er til að samningstími verði að hámarki 10 ár og fari hann að öðru leyti eftir því hve forsendur samningsins eru traustar og þeim kröfum sem gerðar eru til þjónustuaðilans. Frv. felur í sér að slík samningsgerð verði forsenda þess að þeim sem lögum samkvæmt ber að tryggja ákveðna þjónustu verði heimilt að fela öðrum að veita hana. Nauðsynlegt er að samningar sem gerðir eru við þá sem veita þjónustu á kostnað ríkisins uppfylli ákveðin lágmarksskilyrði um efnisinnihald, m.a. til að takmarka fjárhagsábyrgð ríkisins.

Þjónustusamningar við aðila innan og utan ríkisins eiga margt sameiginlegt. Sá munur er þó á að ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á stofnunum ríkisins en ekki á starfsemi annarra aðila þó þeir veiti þjónustu sem kostuð er af ríkinu. Samningar þurfa að kveða á um ábyrgð hvors samningsaðila um sig, svo og samskipti þeirra að öðru leyti til þess að þau komist í fast form.

Ýmsir aðilar utan hins opinbera veita lögboðna þjónustu sem ríkissjóður greiðir fyrir án þess að fyrir liggi skriflegir samningar um magn og gæði þjónustunnar, ábyrgð hvors aðila eða aðra þætti sem máli skipta. Þetta getur ekki talist forsvaranlegt og í bráðabirgðaákvæði laganna er lagt til að samningum við þessa aðila verði lokið fyrir árslok 1996, enda veiti þeir aðilar þjónustuna áfram.

Þjónustusamningar eru liður í því að gera rekstrarumhverfi ríkisstofnana líkara því umhverfi sem ríkir á almennum markaði. Forsenda þess að stofnanir geti keppt um verkefni og fjárveitingar á jafnréttisgrundvelli er að þjónustan sé vel skilgreind og það útlistað til hvers er ætlast af þeim sem veitir hana. Í frv. er lagt til að samningar við einkaaðila séu að jafnaði gerðir að undangengnu útboði.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sæmileg samstaða náist um þetta efni á Alþingi. Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.