Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:41:43 (4550)

1996-04-11 12:41:43# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki klókt af mér að reyna að svara þessum fyrirspurnum mjög nákvæmlega í 1. umr. Það kemur fram í athugasemdunum að stundum hafi verið áfátt vegna þessara þjónustusamninga. Þótt ég gæti nefnt eitt eða tvö dæmi ætla ég ekki að nefna þau einfaldlega vegna þess að mér finnst það ekki vera viðeigandi. Það væri þá frekar að hv. þm. beitti sér fyrir því í nefndinni sem fær málið til meðferðar að kalla fram alla þá aðila þannig að ég sé ekki látinn nefna eitt eða tvö tilvik ef um miklu fleiri tilvik er að ræða þannig að ég eiginlega biðst undan því að þurfa að svara þeirri spurningu.

Vegna síðan þjónustusamninga, og þá er náttúrlega átt við þjónustusamninga ríkisins og aðila sem fara með rekstur sem ríkið greiðir, þá hefur satt að segja ýmislegt verið á floti í þeim efnum og þeir gerðir með mjög misjöfnum hætti. Í sumum tilvikum eru engir beinir a.m.k. skriflegir samningar til. Þetta er algengt í heilbrigðisgeiranum. Ég man eftir að í tíð síðustu ríkisstjórnar var gerður samningur við Náttúrulækningafélag Íslands til að mynda. Það er gamall samningur við Landakot sem var í gildi og það er einhvers konar samningur gerður við SÁÁ sem líka er tiltölulega nýlegur en hafði ekki verið gerður áður.

Það fer eftir eðli máls hvort kalla ber þessa starfsmenn opinbera starfsmenn. Það er sjálfsagt í fæstum tilvikum, en síðan er það sjálfstæð ákvörðun og hefur stundum verið samningsatriði hvort þessir starfsmenn eigi aðild að lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna þannig að þegar ég hef lítils háttar kannað þetta sýnist mér að flóran sé mjög margvísleg í þessum efnum og full ástæða sé a.m.k. til þess að setja um þetta reglur og það er ein meginástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt.

Öðruvísi get ég því miður ekki á þessari stundu svarað þessum fyrirspurnum en ég vísa til þess að hv. þm. á aðild að nefndinni sem fær málið til meðferðar.