Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:43:58 (4551)

1996-04-11 12:43:58# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:43]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á heiti þessa frv. Það er frv. til laga um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri. Nú er það svo að úr vöndu er að ráða. Ef nefnd eru almennum orðum dæmi um það að slíkir samningar leiði til óhagræðis fyrir ríkið þannig að ríkið þurfi að taka á sig skuldbindingar sem ella hefðu átt að vera þjónustuaðilans, þá er það ekki beinlínis í anda fyrirsagnarinnar eða yfirlýsts tilgangs. Að sjálfsögðu mun ég ganga eftir því að fá þessar upplýsingar í nefnd og er ekki við hæstv. ráðherra að sakast út af fyrir sig þó að hann geti ekki svarað þessu.

Hitt dæmið sem nefnt var að því er varðar launamálin, kjarasamninga, aðild að lífeyrissjóðum og ábyrgð á skuldbindingum, þá kom fram í máli hæstv. ráðherra að þessi mál væru nokkuð á floti og þá er komin ástæða til þess þegar málið kemur í nefnd að spyrja: Hvað er þá að segja um hina miklu hagræðingu?