Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 14:32:44 (4554)

1996-04-11 14:32:44# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[14:32]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu, um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri, er vitaskuld mjög mikilvægt frv. Ég vil í upphafi beina máli mínu til hæstv. forseta og vekja athygli á því að hér í þingsal eru einungis þingmenn stjórnarandstöðunnar svo og eðlilega flutningsmaður, hæstv. fjmrh., auk forseta sem er úr Sjálfstfl.

Mér finnst satt best að segja, herra forseti, að sú málsmeðferð sé fyrir neðan virðingu þingsins að þegar verið er að ræða mikilvægt stjfrv. sem hæstv. fjmrh. gerir mikið úr og leggur upp með sem sína stefnu, skuli ekki fleiri stjórnarliðar sýna því athygli. Ég sé að hæstv. fjmrh. hverfur strax úr salnum, en hann er víst hér í hliðarherbergi. Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, líka upp á framhald umræðna almennt í þinginu, að við verðum vitaskuld að búa umræðunni einhverja þá umgjörð sem hæfir málum hverju sinni. Það er eðlileg krafa stjórnarandstöðunnar að hér séu til svara talsmenn beggja stjórnarflokka og ráðherrar vitaskuld, sem menn hafa jú alltaf tækifæri til að óska eftir. En vitaskuld er eðlilegt að þingmenn í viðkomandi þingnefnd sem kemur til með að fjalla um málið fylgist með 1. umr. Það hefur tíðkast nokkuð lengi í vetur að stjórnarandstaðan hefur meira haldið uppi málefnalegri umræðu frekar en að stjórnarliðar hafi sýnt hinu háa Alþingi þá virðingu sem er nauðsynleg varðandi faglega umfjöllun um mál hér.

Það er sagt að markmið málsins sjálfs sem er hér til umræðu sé að auka sveigjanleika og bæta ríkisrekstur. Vitaskuld geta allir tekið undir þau almennu markmið sem þessi orð lýsa. Hins vegar er spurningin vitaskuld sú: Er þetta frv. gott tæki til að ná þessum markmiðum? Því er lýst nokkuð í grg. hvað á að vinnast með þessu. Þetta frv. gengur ekki út á þjónustusamninga. Frv. gengur út á það að fela einni ríkisstofnun að annast framkvæmd þjónustuverkefna annarra ríkisstofnana. Þ.e. þetta fjallar um heimild fagráðherra til að fara með verkefni úr einni stofnun yfir í aðra ríkisstofnun eða semja við sveitarfélög og einkaaðila um að veita tímabundið lögbundna þjónustu sem ríkissjóði ber að greiða fyrir. Í 2. gr. frv. er síðan sagt að þessi tilfærsla á verkefnum hvort sem hún er til einkaaðila, sveitarfélaga eða annarra ráðuneyta, skuli vera háð samþykki fjmrn.

Við verðum að rifja upp forsögu þessa máls því það er ekki að koma fram í þinginu í fyrsta skipti. Efnisatriði þessa frv. voru inni í bandorminum svokallaða fyrir jól. Þá var það tekið út úr honum að kröfu stjórnarandstöðunnar vegna þess að það þótti bæði illa unnið og fól í sér raunverulega allt valdaafsal löggjafarvaldsins og gildandi laga á framkvæmd opinberrar þjónustu. Og ef hv. þm. rifja aðeins upp þá umræðu sem var um það mál, þá muna menn nú vel eftir því að hér er þessi gamli kunningi kominn í öðrum aðeins ítarlegri búningi.

Herra forseti. Ég er afskaplega þolinmóður við hæstv. fjmrh. en ég sé að hann hefur verið drykklanga stund í símanum. Ég vil vitaskuld gefa honum tækifæri á að ljúka samtalinu sem ég geri ráð fyrir að sé mjög áríðandi og mun því gera hlé á máli mínu þar til að hæstv. ráðherra sér ástæðu til að koma í salinn.

(Forseti (ÓE): Hv. þm. gerir hlé á máli sínu þar til hæstv. fjmrh. kemur í salinn og heldur þá áfram ræðu sinni.)

Sú forsaga sem ég nefndi, ákvæðin sem voru tekin út úr bandorminum fjölluðu um sama efni. Þau voru flutt síðan sem sérstakt frv. strax fyrir þinghlé í desember en fengu ekki meiri umræðu. Hér er þetta komið í ívið betri umgjörð. En öll þau gagnrýnisatriði sem þá voru uppi eiga við enn þann dag í dag vegna þess að frv. opnar allt of víðtækar heimildir þannig að það er engin skynsemi í því fyrir hið háa Alþingi að lögfesta það. Hér er gert ráð fyrir að ráðherra, telji hann hagkvæmt, geti falið einni ríkisstofnun að annast framkvæmd þjónustuverkefna annarra ríkisstofnana. Hér er ráðherra falið mjög mikið geðþóttavald um stofnanir sem heyra undir ráðuneyti hans til að færa til verkefni, ekki innan síns ráðuneytis endilega, heldur þannig að það sé gert samkomulag milli ráðherra í ríkisstjórninni um að færa verkefni milli ráðuneyta. Með þessu væri, ég nefni dæmi, hægt að fela t.d. Tryggingastofnun ríkisins að sjá t.d. um heilbrigðiseftirlit. Það væri þá hlutur sem Alþingi kæmi ekkert að. Það væri líklega hægt að fela Landsbanka Íslands að sjá um Húsnæðisstofnun ríkisins, bara til að nefna dæmi. Það kæmi í sjálfu sér Alþingi ekkert við. Það gilda að vísu sérstök lög um það. Ég er að vekja athygli á þessum víðtæku heimildum um tilfærslu á verkefnum ríkisins. Þetta sem hér er ætlast til að verði samþykkt kallast óútfyllt ávísun eða ,,blankó`` ávísun. Ég vil benda á að hér er ekki einungis um að ræða tilfærslur innan ríkisins. Við skulum nú láta það vera að menn finni hagkvæmara form á rekstri ýmissa þátta innan ríkisgeirans. Það á að vera hægt að semja við sveitarfélög og einkaaðila um að veita tímabundið lögbundna þjónustu sem ríkissjóði ber að greiða fyrir. Það er hins vegar opnað á eina allsherjareinkavæðingu ríkisumsvifa. Nú er það svo að ég hef ekkert á móti því að menn hagræði í ríkisrekstri og feli sveitarfélögum tiltekin verkefni eða einkaaðilum ef það sparar og þjónusta er veitt í þeim mæli sem lög kveða á um og menn eru sammála um að hið opinbera eigi að gera. Við eigum alls ekki að vera á móti slíku og hafna því að óathuguðu máli. Það á hins vegar að hafna því að fela framkvæmdarvaldinu allt þetta vald til útfærslu eins og gert er ráð fyrir í frv. Það er t.d. hægt í þessu að fela einkaaðilum tiltekna og margvíslega þætti innan heilbrigðiskerfisins eða innan menntakerfisins ef menn kjósa svo. Það er allt opið með samþykkt þessa frv.

Þetta er ekki góð aðferðafræði. Það má vel vera að menn vilji og geti orðið sammála um það að finna betri verkfæri til að hagræða í ríkisrekstri og vitaskuld eru þjónustusamningar eitt af þeim. En frv. fjallar ekki um þjónustusamninga. Það eru fjölmargir þjónustusamningar í gangi sem ráðuneyti gera við viðkomandi stofnanir og ég veit að hæstv. fjmrh. getur rakið dæmi um slíka þjónustusamninga sem hafa verið árangursríkir í stjórnsýslu ríkisins og eru til bóta. Ég tek undir þá aðferðafræði sem hv. þm. Svavar Gestsson lýsti ágætlega áðan, þ.e. að ríkið gerir samninga við hinar og þessar undirstofnanir sínar eða óskylda aðila og festi þannig umfang þjónustu sem veitt er og peningagreiðslur í skipulagt form. Þetta hefur rutt sér til rúms og fjölmargir komið að því og er skynsamleg aðferð við stjórnsýslu. Þetta frv. er hins vegar ekki um neinn af þeim þáttum. Þetta frv. er að opna heimild til ráðherra að færa á milli og færa þetta út fyrir ramma ríkisins án þess þó að það séu sett almenn skilyrði varðandi þann tilflutning.

Við eigum að skoða það að ef einkaaðilar eða sveitarfélög geta veitt góða þjónustu þá á það vitaskuld að koma til greina. Þá á það líka að vera almenn regla að bjóða þessa þætti út. Það er sagt í 3. gr. frv. að ef samningar eru gerðir við einkaaðila samkvæmt þessum lögum, þá skuli þeir að jafnaði gerðir að undangengnu útboði. Mér finnst að útboð eigi að vera regla í þessu tilviki en það er útfærsluatriði.

Mér finnst hins vegar miklu meira um vert að hæstv. ráðherra upplýsi hvaða breytingar eru fyrirhugaðar sem gera nauðsynlegt að leggja fram svona viðamikið heimildafrv. eins og þetta, þó það láti lítið yfir sér. Hvaða verkefni og stofnanir eru það sem hann vill núna færa á milli innan ríkiskerfisins? Hvaða verkefni eru það sem hann vill núna fela sveitarfélögum? Hvaða stór verkefni eru það nákvæmlega? Einhver hugsun hlýtur að vera á bak við það að afla sér þessara lagaheimilda. Það kemur ekkert fram í greinargerð og í framsögu hæstv. ráðherra um þetta. Það eina sem sagt er ef öðrum aðila er falið verk, að þá verði vitaskuld að gæta þess og það er nú bara sjálfsagt, að hann uppfylli lögbundið þjónustuhlutverk. En að öðru leyti er ekkert sem kveður á um þetta.

Ég bendi á að það væri sjálfsagt hægt með þessu að fela VÍB, þ.e. Verðbréfamarkaði Íslandsbanka að sjá um þá starfsemi sem Tryggingastofnun ríksins sér um. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta frv. mundi heimila það ef þess væri gætt að lögbundið hlutverk Tryggingastofnunar væri uppfyllt hjá hinum nýja aðila og þá kannski að undangengnu útboði. Það getur vel verið að menn ættu að gera það. Ég ætla ekkert að segja um það. En ég er að vekja athygli á hvers konar ákvarðanir framkvæmdarvaldið getur tekið með samþykkt frv. án þess að það þurfi að ræða þær á hinu háa Alþingi. Það er aðalatriðið í þessu máli.

Ég vil benda á annað mál sem dálítið hefur verið og er til umræðu í þingsölum, hlutafjárvæðingu Pósts og síma. Ef Póstur og sími væri með verkefni, væri hægt samkvæmt frv. að fela það öðrum aðilum, öðrum ríkisstofnunum. Ráðherra er í sjálfsvald sett hvernig þetta er gert. Nú er ég ekkert að gera hæstv. fjmrh. í sjálfu sér upp neinar slæmar hvatir varðandi framlagningu þessa frv. Ég trúi því að hæstv. fjmrh. gangi gott eitt til í þessu máli. Ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson brosir en ég er svo trúaður á samborgara mína, meira að segja hæstv. fjmrh., að ég vil trúa því að að hann telji sig vera að leggja fram frv. sem stuðli að hagræðingu í ríkisrekstri og hann ætli sér ekki að nota þetta á nokkurn máta öðruvísi en að hér verði betur rekin ríkisfjármál. Og við, vinir ríkissjóðs, getum sjálfsagt tekið undir þá almennu stefnumiðun.

[14:45]

Það er bara ekki það sem málið snýst um. Frv. snýst ekki um innræti hæstv. fjmrh. (Gripið fram í: Öðrum þræði.) Öðrum þræði. Við ættum a.m.k. ekki að lögbinda hvernig það eigi að vera í praxís. Hér er eina ferðina enn, herra forseti, á ferðinni illa undirbúið frv., vanhugsað frv., ekki hugsað til enda. Það er ekki unnin sú heimavinna sem er nauðsynleg þegar menn tala fyrir miklum breytingum á flóknum rekstri. Eina ferðina enn er kastað fram einhverjum hugmyndum illa unnum. Kannski er einhver grunnhugmynd á bak við þetta sem menn gætu fallist á með almennum hætti, en þá er útfærslan í slíku skötulíki að hún er beinlínis hættuleg ef þetta frv. yrði samþykkt óbreytt. Hér væri um þvílíkt valdaafsal að ræða varðandi starfsemi löggjafarvaldsins, umsvif ríkisins og þá þætti sem vitaskuld á að fjalla um á hinu háa Alþingi. Ef uppi eru hugmyndir af hálfu ríkisstjórnarinnar um að breyta ýmsum rekstrarþáttum í umfangsmiklum mæli, er sjálfsagt að koma með stefnumótun um það, ræða það og athuga hvort þurfi löggjöf til þess. Kannski þarf þingsályktunartillögur og umræður í viðkomandi fagnefndum. Ég tek sem dæmi ef menn teldu að færa ætti rekstur heilbrigðiskerfisins frekar til sveitarfélaga og fela hann einkaaðila eða öðrum ríkisstofnunum. Ég er sannfærður um að formaður heilbr.- og trn. í þinginu, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, væri fús til að halda fund í þeirri nefnd til að fjalla um áætlanir ríkisstjórnarinnar um breytt fyrirkomulag á þessum þætti. En hér er ekki gefinn neinn kostur á því. Það eina sem gefinn er kostur á er að samþykkja frv. sem opnar allar heimildir fyrir framkvæmdarvaldið að ráðskast með þessa hluti.

Ég vil líka benda á að fjölmargar opinberar stofnanir starfa eftir tilteknum sérlögum. Það er ekki svo einfalt að samþykkja svona heimildir með almennum hætti eins og lýst er í greinargerð frv. Þetta er miklu flóknara og erfiðara mál, herra forseti, en hæstv. fjmrh. hefur gert sér grein fyrir, þótt hann leggi það hér fram.

Öll þessi mál hanga auðvitað saman. Ég vil að vísu virða viljann fyrir verkið. Hér er reynt að koma á nútímastjórnarháttum í ríkisrekstri en það er bara illa gert. Við höfum séð önnur frumvörp um þetta þar sem menn tileinka sér ekki nýjustu kenningar og aðferðafræði á þeim sviðum. Skýrasta dæmið um þetta er kannski það frv. sem er í umfjöllun núna í þingnefnd um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er gamaldags boðvaldsfrv. og lýtur ekki að neinum nútímabreytingum í rekstri, þar með töldum opinberum rekstri. Þetta er hugmyndafræði sem var kannski góð og gild fyrir 10 árum. Menn hafa ekki fylgst betur með en það.

Sama máli gegnir með þetta. Hugsunin er sú að auka hagræðingu og sveigjanleika. Vitaskuld getur það verið af hinu góða en þá eiga menn að búa því skynsamlega lagaumgjörð, ekki kasta því fram í þremur óljósum greinum eins og hér er gert.

Ég vil vitaskuld fá að vita það frá hæstv. ráðherra hvaða nýir samningar eru fyrirhugaðir. Hvaða breytingar ætla ráðherrarnir að nota varðandi þennan þátt? Ég vil benda á að samkvæmt frv. eru það einstakir ráðherrar sem fá þetta vald. Ég vil fá að vita hvað landbrh. ætlar að gera með þetta nýja vald sitt. Hvað ætlar heilbrrh. að gera? Hvað ætlar menntmrh. að gera? Hvað á að færa þar á milli? Hvar er stefnumörkun? Hvar eru breytingarnar? Það er ekki hægt, herra forseti, að afgreiða á hinu háa Alþingi slík heimildarlög til hæstv. ríkisstjórnar án þess að nokkuð fylgi með um það hvað eigi að gera. Vitaskuld tengist þetta mál öðrum málum sem hér eru til umræðu eins og hv. þm. Svavar Gestsson benti á, m.a. frv. um fjárreiður ríkisins. Það má nefna frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þessi mál hanga öll saman og þannig verður að ræða þau. Þetta frv. er illa gert eins og mörg önnur frumvörp ríkisstjórnarinnar. Ég hefði kosið að menn settust yfir þessi mál. Ég er fús til að vinna að því að reyna að finna betri umgjörð um ríkisrekstur. Ég teldi það rétt. Það verður hins vegar ekki gert með þessum frumvörpum. Þau eru bara innlegg inn í þessa umræðu. Við í stjórnarandstöðunni, herra forseti, hugsum um það að auðvitað kemur að því að við komumst til valda. Hæstv. ríkisstjórn situr ekki til eilífðarnóns. Okkur er umhugað um að ríkisreksturinn sé í góðu formi. Við erum fús til þess, stjórnarandstaðan, að koma að lagasetningu og gera hana skynsamlega. En þá verða menn að rétta fram sáttarhönd. Það minnsta sem menn geta gert er að bera fram frumvörp sem eru boðleg til umræðu og afgreiðslu.