Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 14:51:49 (4555)

1996-04-11 14:51:49# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[14:51]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu lítur ósköp sakleysislega út, enda er það ekki með öllu illt. Þar er kveðið á um að gerðir skuli þjónustusamningar á milli ríkisins og einstakra stofnana og fyrirtækja sem taka að sér verkefni fyrir ríkið. Það er margt gott um það að segja eins og fram hefur komið í ræðum manna í dag. Á hitt ber að líta að það er ekkert sem kemur í veg fyrir það núna að slíkir samningar séu gerðir.

Í sumum tilvikum þarf engu að síður að afla sérstakra lagaheimilda til þess, eins og segir í athugasemdum með þessu lagafrv. Sú spurning vaknar, eins og fram kom í ágætri ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar áðan, að það sé fram hjá þeirri lagastoð sem menn eru að skjóta sér. Það alvarlega við þetta frv. er að hér er verið að leggja fram opinn víxil. Það er verið að veita einstökum ráðherrum heimild til að fara með þjónustuverkefni sem framkvæmd hafa verið á vegum opinberra aðila út í einkavæðinguna. Þetta frv. er með öðrum orðum angi af einkavæðingunni.

Þetta leiðir einnig hugann að þeirri hugmyndafræði sem ríkisstjórnin fylgir. Þótt ræða hv. þm. Ágústs Einarssonar hafi verið góð og ég taki undir allflest sem hann sagði, held ég að það sé ekki alveg rétt hjá honum að að baki þessu frv. búi ekki mjög rækilega útfærð hugsun. (ÁE: Ég sagði: Ég vil trúa því.) Vil trúa því, sagði hann. Ég held að þar sé um óskhyggju að ræða. Hér er verið að koma á gerbreyttu skipulagi í opinberum búskap og hugsunin gengur út á þetta: Ríkið á að setja almenn markmið. Ríkið á að setja markmið um hvaða þjónustu beri að veita þegnunum. Þessi markmiðssetning á að vera miðstýrð. Þegar hins vegar kemur að framkvæmdinni, þá á hún að vera valddreifð. Og svo langt á að ganga í þessari valddreifingu að það á að fela einstökum forstjórum, forstöðumönnum stofnana, vald til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem hið miðstýrða ríkisvald ákveður að veita viðkomandi stofnun. Þess vegna hafa menn sett fram frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem færir stjórnendum fyrirtækja eða stofnana á vegum ríkisins þetta vald í hendur. Þetta er hugsunin. Þessi hugsun hljómar mjög vel. Það hljómar mjög skynsamlega að það eigi að láta þá um framkvæmdina sem næst henni standa. Það væri vel ef það væri gert í raun vegna þess að það þýddi að hinn almenni starfsmaður sem veitir þjónustuna fengi aukin völd í hendur. Það er hins vegar ekki hugsunin. Það er verkstjórnandinn, það er forstjórinn í fyrirtækjunum sem á að fá völdin og á að fá peningana til ráðstöfunar.

Þótt þetta kunni að hljóma vel í fyrstu þarf líka að hyggja að framkvæmdinni. Það þarf að hyggja að þeirri reynslu sem er fengin á þessa hugsun alla. Þetta er í hnotskurn nýsjálenska hugsunin. Þannig hafa menn farið að í nýsjálenska skólakerfinu, í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu almennt. Þar er einstökum stofnunum skammtaðir fjármunir, forstjórunum fengin völd til að ráðstafa peningunum og hvað hefur síðan gerst? Það sem hefur gerst er þetta: Þeir hafa hækkað launin við sjálfa sig og þá sem standa næst þeim. Hinum hefur verið haldið áfram niðri. Þetta hefur með öðrum orðum valdið auknum launamun innan stofnananna.

En það er annað sem hefur gerst. Þeir hafa sagt við sína starfsmenn: Við getum hækkað við ykkur launin ef við fækkum þeim sem taka á móti laununum. Þetta hefur með öðrum orðum leitt til þess að fólki hefur verið sagt upp störfum. Því hefur fækkað í opinberum stofnunum. Þetta er þess vegna atvinnuleysisstefna í þokkabót, aukinn launamunur og líklegra til þess að valda atvinnuleysi.

Þá er komið að þriðja atriðinu. Það er þetta með þjónustuna. Til þess var leikurinn gerður að bæta þjónustuna við notandann. En þegar hugsunin gengur öll út á að ná peningum til sín og þeirra sem standa forstjórunm næst vill brenna við að þjónustan rýrni. Þótt lagt hafi verið upp með hagkvæmnissjónarmið, líka fyrir notandann, hefur þetta iðulega leitt til þess að launamunur hefur aukist. Þetta hefur stuðlað að auknu atvinnuleysi og þjónustan við notandann hefur rýrnað. Þess vegna segi ég að við þurfum að gera greinarmun á hugmyndafræði sem kann í eyrum einhverra að hljóma vel og hins vegar reynslunni, hver framkvæmdin hefur raunverulega orðið.

Með þessu frv. er svo aftur, og ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar, verið að opna á mjög víðtækar heimildir fyrir einstaka ráðherra til að gera umfangsmiklar skipulagsbreytingar í opinberum rekstri. Maður hlýtur að spyrja hvers vegna ríkisstjórnin vill skjóta sér fram hjá þeim lagaheimildum sem samkvæmt greinargerð með þessu frv. hefur hingað til þurft að beita í ákveðnum tilvikum. Áður en við hlaupum til og samþykkjum þetta frv. þurfum við að fá mjög rækilega og skilmerkilega fram sett af hálfu hæstv. fjmrh. hvað það er sem í raun og sann fyrir honum vakir með þessu frv.