Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:35:49 (4559)

1996-04-11 15:35:49# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra nokkurra spurninga og hann svaraði þeim nokkuð vel. Þó vil ég ítreka spurningu mína. Hann svaraði spurningu sem ég varpaði fram um röntgenskoðun nákvæmlega. En til þess að ég skýri mál mitt enn betur: Er það þannig að á grundvelli laga sem giltu ef frv. yrði samþykkt væri t.d. hægt að gera þjónustusamning við læknamiðstöð um bæklunarlækningar til að eyða biðlistum? Það væri í sjálfu sér ágætt. En samt sem áður, áður en hægt er að koma að því, verðum við að taka prinsippumræðu um það hvort við ætlum að einkavæða heilbrigðiskerfið, því slíkt mundi eðlilega ekki fela í sér annað en hreina einkavæðingu á því. Spurningin er því þessi: Gætum við að þessu frv. samþykktu gert samning við einkalæknastöð um að framkvæma bæklunaraðgerðir?