Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:38:40 (4561)

1996-04-11 15:38:40# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:38]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svaraði í engu spurningum sem bornar voru fram um hvaða breytingar væru fyrirhugaðar ef þetta frv. yrði að lögum. Í öðru lagi svaraði hann engu um það hvort svona víðtækar heimildir væru yfirleitt nauðsynlegar til að koma fram stefnumálum. Ég hlýt að ítreka þessar spurningar.

Ég vil benda á að hann sagði að þjónustusamningarnir væru hluti af fjárlagagerðinni. Það er ekki svo í þessu frv. Það eru bara tölurnar. Ef samningarnir eiga að vera hluti af fjárlögum þá kveða menn á um það. Það sem ég vakti athygli á í ræðu minni er að þetta þarf að vinnast betur þannig að það nái árangri. Ég vil benda á að það er hægt. Auðvitað er ekki hægt að leggja niður stofnanir en það er hægt að flysja utan af þeim verkefni og það er hægt að skilja þær eftir sem tóma skel með þessu frv. og það án þess að Alþingi komi að málinu. Það tel ég vera ámælisvert.

Hins vegar er mér ljúft að staðfesta að hagræðing sem felur í sér framleiðniaukningu skilar vitanlega meiri atvinnu til lengri tíma litið. Hún getur haft í för með sér tímabundið atvinnuleysi en til lengri tíma skilar hún meiri atvinnu, það er ekki spurning. Hins vegar erum við að tala um hvort þetta frv. sé líklegt til að ná fram hagræðingu í ríkisrekstri eða ekki. Til þess er frv. of meingallað. Það þarf að skýra betur ýmsa þætti í sambandi við það en það verður að bíða betri tíma.