Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:43:18 (4564)

1996-04-11 15:43:18# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. verður tíðrætt um Nýja-Sjáland og það er rétt sem fram kom í hans máli að margir aðrir beina nú sjónum sínum þangað einmitt vegna þess að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin öll hefur gert Nýja-Sjáland að sérstakri fyrirmynd sinni. Hún hefur flutt þaðan inn ráðgjafa til að ráðleggja sér um stjórnarstefnuna. Hins vegar er það umhugsunarefni að hæstv. fjmrh. finnist hafa tekist sérlega vel til þar í landi. Okkur hinum finnst ástæða til að skoða árangurinn í öðru ljósi. Nýsjálendingum hefur ekki tekist að lækka opinberar skuldir. Þeim hefur ekki tekist að ná niður atvinnuleysi en á sama tíma hafa þeir nánast eyðilagt stóran hluta velferðarþjónustunnar. Þannig hafa biðraðir í heilsugæslukerfinu aukist og þannig mætti áfram telja.

Annað atriði sem mig langaði til að víkja að er atvinnuleysisstefnan sem felst í einkavæðingar- og þjónustusamningshugsun ríkisstjórnarinnar. Það er rétt að ég lít svo á að þarna sé innbyggð ákveðin atvinnuleysisstefna. Ég tel það eitt mikilvægasta viðfangsefni samfélagsins að finna leiðir til að skipta vinnunni í stað þess að reyna að færa hana á færri hendur. En hæstv. fjmrh. ítrekar hér fylgispekt sína við svokallaða brauðmolahagfræði Reagans sem ríkisstjórn hans hefur fylgt undanfarin ár og byggir á því að gefa hinum stóru svigrúm til að baka sín stóru brauð í þeirri von að molarnir hrjóti niður til annarra. Smám saman muni fyrirtækjunum vaxa fiskur um hrygg, þau muni færa út kvíarnar og þannig muni skapast ný atvinnutækifæri. Þessi stefna er algjörlega gjaldþrota. Hún er gjaldþrota í Bandaríkjunum. Hún er gjaldþrota í Bretlandi og hvarvetna þar sem hún hefur verið reynd. Engu að síður skal hún tekin upp hér á landi.

Að lokum vil ég nefna það atriði sem hæstv. fjmrh. vék að í lok máls síns, þ.e. að hann væri að reyna að koma á launakerfi með frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem gerði launakerfið gagnsærra. Þetta er rangt. Það er ekki verið að gera launakerfið gagnsærra. Það er verið að fara með það niður í jörðina. Ég lýsi eftir þeim reglum og þeirri reglugerð sem hæstv. fjmrh. hefur boðað og segir að eigi að tryggja að launakerfið verði gagnsætt. Nú óska ég eftir umræðu um það efni fyrst hæstv. fjmrh. hefur vakið sérstaklega máls á þessu.