Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 16:58:58 (4573)

1996-04-11 16:58:58# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:58]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína að hæstv. fjmrh. beinir þeim tilmælum til efh.- og viðskn. að hún fari vandlega ofan í það mál sem hann var að mæla fyrir og þar kunni að vera margt sem orki tvímælis eða kalli á frekari skoðun. Spurning mín til hæstv. fjmrh. í ljósi allra þeirra mála sem eru til umræðu í dag og eiga að fara til efh.- og viðskn. ofan á gríðarlegt stórmál, sem þar er til umræðu, er þessi: Hversu mikið liggur á því að afgreiða þau frv. sem við erum að ræða og til hvers ætlast hæstv. fjmrh. eiginlega? Það væri ágætt að fá það fram í umræðunni. Hér er hvert stórmálið á fætur öðru og þau eru að koma fram þegar örfáar vikur lifa þings og erfitt er að sjá það hvernig eigi að afgreiða þessi mál. Hver er forgangsröðin hjá hæstv. fjmrh.?