Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:01:57 (4575)

1996-04-11 17:01:57# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:01]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gleðilegt að hæstv. fjmrh. skuli bera svo mikið traust til efh.- og viðskn. Ég tek fram að ég var ekki að ýja að því hér áðan að frv. væri illa unnið eða neitt slíkt. Hins vegar er alveg augljóst af ræðu hæstv. fjmrh. og því að lesa frv. að um býsna flókið mál er að ræða. Í slíkum málum þarf margt að skoða eins og hæstv. fjmrh. benti á. Einmitt í því samhengi að við erum núna að ræða þetta mál, á eftir verður væntanlega mælt fyrir frv. um vörugjald sem líka er mjög umdeilt mál, finnst mér eðlilegt að spyrja til hvers er eiginlega ætlast og hver er alvaran sem liggur að baki. Mér er alveg ljóst að þessi mál eru misjafnlega brýn. Vörugjaldsfrv. er t.d. komið til vegna kæru og eftir því sem ég best veit er mjög brýnt að ákveða það mál. Mér er ekki eins ljóst hversu brýnt þetta er. Ég tala í ljósi þeirrar reynslu sem ég hef af þingstörfum að það er lítill tími eftir nema menn lengi þingið og það jafnvel verulega. Hér er hvert stórmálið á fætur öðru og mjög umdeild mál sem eru til umræðu og meðferðar og þess vegna er mjög eðlilegt að reyna að átta sig á því hversu brýn þau mál eru. Sum mál eru til kynningar og til þess að koma þeim inn í umræðuna. Önnur eru hins vegar afar brýn af ýmsum ástæðum.