Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:05:33 (4577)

1996-04-11 17:05:33# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:05]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég fagna sérstaklega lokaorðum hæstv. fjmrh. í framsöguræðu hans áðan þar sem hann hvatti til þess að þær nefndir sem fjölluðu um frv. í þinginu leituðu álits allra þeirra sem hlut ættu að máli. Hann tók þar sérstaklega fram starfsmenn og þeirra samtök þannig að menn gætu ígrundað þau sjónarmið sem þar kynnu að koma fram. Þar með finnst mér opnað á þá hugsun að því frv. sem við höfum hér fyrir okkur verði breytt í ýmsum atriðum. Ég fagna því að menn skuli ætla að hafa þennan háttinn á og væri óskandi að það ætti við um fleiri frumvörp sem eru nú á vinnsluborði ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að víkja lítillega að þremur atriðum og ég ætla ég að halda mig við meginmál eins og hæstv. fjmrh. hvatti til áðan. Í fyrsta lagi langar mig til að fara örfáum orðum um þær skipulagsbreytingar almennt sem verið er að gera og á hvern hátt þær kunna að stangast á við lög.

Í annan stað langar mig til að fara nokkrum orðum um framsal tollgæsluvaldsins til óskilgreindra aðila, svokallaðra umboðsmanna og einkaaðila, velta vöngum yfir því hvað kunni að felast í þessu og til hvers þetta gæti leitt.

Í þriðja lagi vil ég víkja örfáum orðum að menntunarmálum tollvarða og þeirra sem starfa við þessa þjónustu og á hvern hátt breytingar, sem eru fyrirhugaðar samkvæmt frv., kunni að blandast inn í kjarasamninga.

Ég vík að fyrsta efnisatriðinu, skipulagsbreytingunum almennt. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að embætti tollgæslustjóra verði lagt niður og allt vald og umsvif á vegum þess embættis verði fært undir ríkistollstjóra. Það er einmitt þetta sem kann að stangast á við lög samkvæmt hæstaréttardómum sem hafa verið kveðnir upp. Í álitsgerð um þetta frv. sem lögfræðingur ríkistollstjóraembættisins, Hermann Guðmundsson, hefur sent þinginu og ýmsum aðilum segir m.a. um þetta efni, með leyfi forseta:

,,Við úrlausn tiltekins máls 14. sept. 1992 benti Hæstiréttur Íslands á að ríkisskattstjóraembættið hefði bæði með höndum rannsókn máls og uppkvaðningu úrskurðar á grundvelli rannsóknar. Var þessi athugasemd túlkuð sem ábending eða aðvörun Hæstaréttar um að breyta yrði þessu fyrirkomulagi í skattamálum og var það gert með stofnun embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins sem færi m.a. með skattrannsóknir en ríkisskattstjóri og skattstjórar færu með almennt skatteftirlit. Samkvæmt 6. mgr. 102. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með breytingum, annast ríkisskattstjóri endurákvörðun gjalda sem reynist nauðsynleg í framhaldi af rannsóknaraðgerðum skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Fyrrnefnd athugasemd Hæstaréttar virðist ekki síður eiga við í tollamálum en í skattamálum. Við embætti ríkistollstjóra starfar endurskoðunardeild sem hefur með höndum endurskoðun á tollafgreiðslum tollstjóraembættanna og rannsóknir deildarinnar geta leitt til þess að ríkistollstjóri endurákvarði aðflutningsgjöld. Endurákvarðanir ríkistollstjóra hafa til þessa ekki verið ómerktar af þeirri ástæðu að þær hafa farið fram á grundvelli rannsóknar embættisins, en mér er ekki kunnugt um að slík krafa hafi hingað til verið höfð uppi í málflutningi.

Í ljósi fyrrnefndrar athugasemdar Hæstaréttar og réttarþróunar síðustu ára ætti að endurskoða skipulag yfirstjórnar tollamála þannig að ríkistollstjóraembættið fari ekki bæði með rannsóknir og endurákvarðanir gjalda á grundvelli slíkra rannsókna.``

Hæstv. fjmrh. vék að þessu í framsögu sinni og sagði, ef ég skildi hann rétt, að þetta kynni að orka tvímælis og það kynni að þurfa að taka þetta til endurskoðunar en engu að síður skyldu menn láta á þetta reyna um stund. Ég legg til að menn dragi örlítið dýpra andann og fari rækilega í saumana á þessu máli áður en farið er að samþykkja lög sem kunna að brjóta gegn lögum og kunna að vera dæmd ómerk þegar á reynir. Með öðrum orðum kunna lögin að stangast á við það sjónarmið að ekki skuli fara saman rannsóknarvald og úrskurðarvald. Þetta var fyrsta atriðið sem ég vildi vekja athygli á.

Annað atriðið sem ég vek athygli á lýtur að framsali tollgæsluvaldsins til óskilgreindra umboðsmanna og einkaaðila. Hér segir í 17. gr. b-lið, með leyfi forseta:

,,Ríkistollstjóri skal auk annarra starfa sem honum eru falin lögum samkvæmt hafa eftirlit með störfum tollstjóra og umboðsmanna þeirra og gæta þess að tollframkvæmdin sé í samræmi við lög og reglur og önnur fyrirmæli varðandi tollamálefni og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.`` Síðan segir í c-lið, með leyfi forseta: ,,Ríkistollstjóri setur tollstjórum og umboðsmönnum þeirra starfsreglur og fyrirmæli varðandi tollframkvæmd. Hann skal veita þeim leiðbeiningar um tollframkvæmdina og kynna þeim dóma ...``

Þarna eru umboðsmenn hins vegar ekki skilgreindir og það er heldur ekki gert í greinargerð. Í 25. gr. frv. er aftur vikið að umboðsmönnum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að innflytjandi eða umboðsmaður hans skuli reikna út tolla og önnur gjöld í aðflutningsskýrslu.`` Enn er þetta ekki skilgreint en ef við síðan förum aftar í frv., í 30. gr., fer að verða ljóst hvað hér er verið að opna á en þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Tollstjóri getur heimilað aðilum, sem annast vörslu vara eða skipaðir eru sérstakir umboðsmenn tollstjóra, að annast með sama hætti og um ræðir í 1. mgr. tollheimtu og tollmeðferð vara eða veita greiðslu aðflutningsgjalda viðtöku og standa ríkissjóði skil á þeim. Binda má leyfi því skilyrði að leyfishafi setji ríkissjóði tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og annarra gjalda sem leiða kann af tollmeðferð vöru hjá leyfishafa.

Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um tollheimtu og tolleftirlit samkvæmt þessari grein og má þar kveða svo á um að ákvæði laganna skuli, eftir því sem við getur átt, gilda um þá aðila sem grein þessi tekur til, svo og starfsmenn þeirra.``

Í greinargerðinni með þessari lagaklásúlu er ekki fjallað um þennan hluta greinarinnar, ekki þann hluta greinarinnar sem hér er sérstaklega vikið að. Hins vegar kemur fram í álitsgerð Hermanns Guðmundssonar lögfræðings hjá ríkistollstjóraembættinu sem ég vitnaði í áðan eftirfarandi, með leyfi forseta:

[17:15]

,,Það hefði verið æskilegt að fá skýringar í greinargerð með 2. og 3. mgr. [30. gr.] frv.`` --- þar er átt við þá klásúlu sem ég vitnaði til áðan --- ,,enda eru þar nýmæli sem geta leitt til verulegra breytinga á tollframkvæmdinni. Einkaaðilum hefur ekki til þessa verið falið að annast tollheimtu og tolleftirlit. Að frátöldum svonefndum ,,umboðsmönnum`` tollstjóra, sem ekki liggur fyrir hverjir gætu orðið, virðast ákvæðin einkum geta tekið til skipa- og flugfélaga, svonefndra hraðflutningsfyrirtækja, fyrirtækja sem reka almennar tollvörugeymslur og enn fremur fyrirtækja sem reka frísvæði, auk starfsmanna þessara fyrirtækja.

Fyrir setningu núgildandi tollalaga árið 1987 voru tollalög um áratuga skeið kennd við tollheimtu- og tolleftirlit; hið tvíþætta eðli starfa tollyfirvalda. Í tollheimtu felst m.a. framkvæmd tollafgreiðslna og innheimta gjalda en í tolleftirliti eða tollgæslu felst að meginstefnu til eftirlit með að tollheimtan og tollframkvæmdin sé í samræmi við settar reglur. Í eðli sínu er tollgæsluvald opinbert vald sem er hliðstætt lögregluvaldi og raunar hluti lögregluvalds í víðari merkingu. Tollverðir teljast til lögreglumanna ríkisins, sbr. 4. gr. laga um lögreglumenn, nr. 56/1972. Í tollgæsluvaldi felst, sem fyrr segir, eftirlit með því að tollareglur séu virtar og réttur og skylda til nauðsynlegra viðbragða, m.a. valdbeitingar, samkvæmt því sem lög heimila til að knýja fram að eftir reglum sé farið. Þetta fyrirkomulag hefur verið talið nauðsynlegt til að tryggja almannahagsmuni og það liggur í hlutarins eðli að þjóðfélagið hefur ríka hagsmuni af því hverjir fari með slíkt vald. Almennt hefur verið óumdeilt að þeir skuli vera starfsmenn stjórnsýslunnar, enda starfið í eðli sínu í almannaþágu. Tekið skal fram að auk tollvarða fara lögreglumenn með tollgæsluvald á þeim stöðum landsins þar sem hentugt hefur þótt að hafa það fyrirkomulag.``

Enn segir í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Ég leyfi mér að halda því fram að það sé nauðsynlegt að gera faglegar kröfur til þeirra aðila sem fara með tollheimtu og tolleftirlit ef ætlunin er að starfsemin skili þeim árangri sem væntanlega er sóst eftir. Þá efast ég um að það sé vænlegt til árangurs ef umræddir aðilar hafi, vegna starfsemi sinnar, hagsmuna að gæta sem kunna að vera ósamrýmanlegir gæslu almannahagsmuna. Finnst mér því vafasamt að það verði réttarbót að þeim tillögum sem fram koma í frv. um að fela megi einkaaðilum að annast tollheimtu og tolleftirlit.

Að síðustu þetta varðandi tillögur um breytingar í 107. gr. tollalaga: Eins og kunnugt er eru tollyfirvöld og tollstarfsmenn bundnir þagnarskyldu um þau atriði sem þeir komast að í starfi sínu og varða einkahagi innflytjenda og annarra og leynt eiga að fara. Hvernig verður unnt að tryggja að sams konar þagnarskylda gildi um einkaaðila sem tillögugreinin mun, ef samþykkt verður, heimila að falið verði að annast tollheimtu og tolleftirlit.``

Hér með lýkur tilvitnun í þessa greinargerð lögfræðings hjá ríkistollstjóraembættinu. Í þeim tilvitnunum sem ég las hér upp sagði m.a.: ,,Ég leyfi mér að halda því fram að það sé nauðsynlegt að gera faglegar kröfur til þeirra aðila sem fara með tollheimtu og tolleftirlit ef ætlunin er að starfsemin skili þeim árangri sem væntanlega er sóst eftir.`` Hver skyldi vera grundvöllurinn að þessum faglegu kröfum? Það er væntanlega sú menntun sem tollverðir öðlast og þar er ég kominn að síðasta atriðinu sem ég vildi víkja að hér í máli mínu að þessu sinni. Í 17. gr. frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Enn fremur skal hann`` --- og er þar vísað til ríkistollstjóra --- ,,sjá tollstarfsmönnum fyrir nauðsynlegri fræðslu um tollamál. Ríkistollstjóri skal gefa út leiðbeiningar, úrskurði og önnur gögn sem hann metur að rétt sé að kynnt verði fyrirtækjum og almenningi.``

Í greinargerð með þessari lagagrein kemur fram að lagt er til að núgildandi ákvæði um sérstakan tollskóla verði fellt brott sé það í samræmi við þá almennu stefnumörkun að ekki skuli reknir sérstakir skólar innan embætta. Eftir sem áður verði haldið uppi fræðslu um tollamál innan embættis ríkistollstjóra og er kveðið á um það í 33. gr. Nú er það svo að eftir því sem ég hef fréttir af er verið t.d. að stórefla Lögregluskólann, efla menntun lögreglumanna. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir ef það er rétt að það sé sérstök stefna ríkisstjórnarinnar að daga úr starfsmenntun sem fram fer innan opinberra stofnana. Ég hélt að markmiðið væri að efla hana. Menn væru hins vegar ekki að binda sig í einhverja eina lausn. Menn væru að stuðla að sem fjölbreyttastri menntun starfsfólks innan stofnana og utan þannig að það kemur mér undarlega fyrir sjónir ef það er rétt að það sé eitthvert sérstakt keppikefli ríkisstjórnarinnar að draga úr fræðslu og starfsmenntun innan opinberra stofnana.

Einnig er á það að líta að í kjarasamningi Tollvarðafélags Íslands og fjmrh. er byggt á því að tollverðir stundi nám í Tollskólanum og tveir námsáfangar skólans veita tollvörðum rétt til launaflokkahækkana. Hér er þess vegna um að ræða hluta af kjaramálum tollvarða og spurningin er hvort hæstv. fjmrh. hefur hugleitt þetta eða hvort honum finnst ráðlegt að breyta lögum varðandi skólann nema áður hafi farið fram ítarlegar kjaraviðræður milli starfsmanna um þetta efni.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni. Þetta voru þau þrjú meginsjónarmið sem ég vildi ræða. Í fyrsta lagi um þessar skipulagsbreytingar og á hvern hátt þær kunni að stangast á við lög. Í öðru lagi þá opnun sem hér er greinilega að eiga sér stað varðandi einkavæðingu á tollgæslunni. Það er talað um umboðsaðila án þess að það sé skilgreint rækilega hvað þar er átt við og í þriðja lagi lokun Tollskólans. Ég vil leyfa mér að enda þetta á því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh. hvort viðræður hafi farið fram við tollverði um nákvæmlega þetta atriði. En að lokum vil ég enda á því sem ég hóf mál mitt á. Ég fagna því að fjmrh. lýsi eftir sjónarmiðum allra þeirra sem hlut eiga að máli og ég fagna því ef það stendur raunverulega til að taka tillit til ábendinga um það sem betur mætti fara.