Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:24:38 (4578)

1996-04-11 17:24:38# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að það hafa farið fram viðræður á milli fulltrúa ráðuneytisins og fulltrúa Tollvarðafélags Íslands. Þær viðræður fóru fram eftir að frv. lá fyrir. Vegna skipulagsbreytingarinnar mun pappír Hermanns Guðmundssonar, sem hann hefur sent ýmsum aðilum og kemur þar fram hverjir það voru, að sjálfsögðu liggja á borði þeirra þingmanna sem í nefndinni starfa. Sé það rétt hjá honum, sem ég vék að ræðu minni, að breyta þurfi lögum vegna skipulagsins með samsvarandi hætti og gerðist í skattamálunum ýtir það enn frekar á nauðsyn þess að breyta lögunum í vor. Það gildir jafnt um gildandi lög og frv.

Varðandi framsal tollgæsluvaldsins finnst mér eðlilegt að á það mál verði litið. Um þetta hefur verið rætt á milli formanns Tollvarðafélagsins og fulltrúa ráðuneytisins og okkur er kunnugt um áhuga Tollvarðafélagsins á þessu máli. Ég get ekki hér og nú svarað því nákvæmlega, kæri mig heldur ekki um það vegna þess að ég var ekki á þessum fundi. Um þagnarskylduna gildir auðvitað að hana þarf að tryggja. Við höfum rætt fyrr á þessu þingi um þagnarskyldu tollvarða af öðru tilefni og ég er mikill áhugamaður um hana eins og hv. þm. veit.

Varðandi Tollskólann og menntunina vek ég athygli á því að það er sagt í frv. að menntunin eigi áfram að eiga sér stað. Þá kem ég að ákveðnu vandamáli, virðulegi forseti, og það er að störf tollvarðanna hafa verið að breytast og nú er í raun og veru lítill munur á störfum þeirra sem eru í Starfsmannafélagi ríkisstofnana og þeirra sem eru í Tollvarðafélaginu og það veldur ákveðnum vandræðum í starfsemi á tollstjóraskrifstofunni. Þetta veit ég að formaður BSRB þekkir mjög rækilega og það er m.a. af þeim ástæðum og öðrum þeim sem ég hef rætt hér að ég benti hv. nefnd á að ræða við fulltrúa starfsmanna. Og þá vænti ég þess að þeir tali við báða aðila.