Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:27:10 (4579)

1996-04-11 17:27:10# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:27]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það athyglisverðasta við það frv. sem hér liggur fyrir sé sá sögulegi fróðleikur sem birtist efst á bls. 16 í greinargerðinni, nefnilega að upphaf þessa máls sé tilskipun handa Íslandi um gjald af brennivíni og öðrum áfengum drykkjum sem sett var 1872 og reyndist vera fyrsti fasti tekjustofn ríkisins og upphaf tollheimtu á Íslandi. Og verður sennilega seinasti fasti tekjustofn ríkisins enda hafa fjármálaráðherrar sem síðan hafa orðið til lengi þann steininn klappað.

Það er freistandi að segja að þessi lagatexti og greinargerð með honum muni ekki hafa verið settur fram til að skýra málið heldur miklu fremur til að reyna að torvelda mönnum skilning á því hvað fyrir mönnum vakir.

Mér virðist í fljótu bragði að þetta mál sé þrískipt. Í fyrsta lagi er að finna ákvæði um skipulag og yfirstjórn tollamála. Þar er verið að leggja til tilteknar breytingar á gildandi lögum frá 1987 og það er gert með þeim vandræðalegu formerkjum að sagt er að reynslan sýni fram á nauðsyn breytinga. Það eru settir upp tveir kostir um leiðir og vitnað einkum til Dana sem fyrirmynd en guggnað á því að fara þá leið sem kannski mörg rök standa þó til. Niðurstaðan er málamiðlun sem vekur upp ýmsar spurningar um það hvort sú leið sem hæstv. fjmrh. er að fara standist lög.

Í annan stað er þarna að finna ákvæði um málsmeðferðarreglur í tollamálum. Þau eru hins vegar öllu skiljanlegri. Þau eiga sér stoð í ágreiningsmálum sem upp hafa komið og umboðsmaður Alþingis hefur ályktað um og varða réttaröryggi viðskiptavina tollgæslunnar og réttarúrræði borgara, t.d. til þess að fá úrskurði í ágreiningsmálum.

Þriðja atriðið er sennilega skást í þessu en þar er verið að lýsa áframhaldandi þróun tölvuvæðingar til pappírslausra viðskipta þessa embættiskerfis og viðskiptaaðila.

Að því er varðar fyrsta atriðið er vísað til setningu tollalaganna árið 1987 þegar framkvæmd var heilmikil tollbylting. Þá var farin sú leið að heimila ráðherra að fela tollstjóranum í Reykjavík að hafa eftirlit með og boðvald yfir hliðsettu stjórnvaldi en yfirstjórn falin ríkistollstjóra. Síðan segir eins og áður sagði að reynslan hafi leitt í ljós ýmsa galla á þessu, valdmörk milli yfirstjórnunaraðila óljós og stjórnskipulega óæskileg. Því er lýst að ef yfirstjórn þessara mála eigi á annað borð að færast úr ráðuneyti sé æskilegt að fela hana sjálfstæðu embætti og kveða nánar á í lögum um verkefni og ábyrgð þess embættis.

Í raun og veru væri skýrasta niðurstaðan sú að fara þá leið að sameina yfirstjórn tollamála sköttum og hafa það eitt kerfi, þ.e. framkvæmd og innheimtu á opinberum gjöldum og þá hvort heldur er sköttum og aðflutningsgjöldum. En vegna margvíslegrar flækju í stjórnsýslunni í þessu fámenna landi er ljóst að það vefst fyrir höfundum þessa frv. að komast að niðurstöðu um það. Þess vegna er hætt við því og virðist við fyrstu sýn að niðurstaðan sé óbreytt.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði til þess að fyrir lægi hæstaréttardómur þar sem það er gagnrýnt að saman fari rannsókn og hins vegar úrskurðarvald í höndum sama embættisins. Ekki verður betur séð en því haldi áfram og það muni þess vegna þarfnast sérstakrar skoðunar þegar þetta mál kemur til nefndar hvort hér sé raunverulega byggt á nægilega traustum grundvelli eða fitja upp á einhverri tilraunastarfsemi sem væri ólíkleg til að standa lengi og geti jafnvel steytt á skerjum vegna þess að hún standist ekki.

[17:30]

Annar þátturinn er hins vegar eins og ég sagði áðan þess eðlis að treysta réttaröryggi borgaranna í samskiptum við yfirvöld tollamála og tilefnið er gefið vegna ábendinga umboðsmanns Alþingis. Það hefur lengi legið það orð á að samskipti innflytjenda og annarra sem eiga mikið í atvinnurekstri sínum undir tollyfirvöldum hafi verið erfið, flókin og seinvirk. Hér t.d. að því vikið að það hafi reynst ókleift að fá úrskurð um tollflokkun sem getur haft úrslitaáhrif um viðskipti. Að fá bindandi úrskurð um slíkt staðfestan. Jafnframt eru mikil takmörk á rétti til málskots til að leita úrskurða og endurákvörðunar ríkistollstjóra vegna takmarkana í gildandi lögum og reglum um það hvenær slíkt er gerlegt. Þannig að úrræði viðskiptaaðila hafa löngum verið þau beinlínis að flytja vörur til lands og leita síðan eftir úrskurðum tollstjóra sem síðan megi skjóta til ríkistollanefndar. Með öðrum orðum, kerfið er seinvirkt og takmarkar mjög þau réttarúrræði sem viðskiptaaðilar geta beitt. Hér eru gerðar tillögur um það að leysa þetta mál þannig að skjóta megi ákvörðun tollstjóra til ríkistollanefndar án þessara sérstöku takmarkana.

Þriðju kafli málsins er síðan einfaldlega að lýsa og draga ályktanir af tæknilegri þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og á einnig upphaf sitt til þess sem gerðist með nýjum tollalögum frá 1987 þegar tekin voru upp heimildarákvæði um að taka upp tölvuvædda afgreiðsluhætti. Þróunin á þessu sviði hefur verið hraðfleyg og það er ekki nema rétt sem hér segir að það er ástæða til að endurskoða þau ákvæði og skapa forsendur fyrir því og lagaramma utan um það að um aldamótin 2000 geti nútímalegir tollafgreiðsluhættir verið teknir upp, þ.e. að horfið verði frá hefðbundnum skriflegum tollskýrslum sem afhenda beri hjá tollstjóra og þá verði komin upp raunveruleg nettenging þjónustustofnana og pappírslausum tollviðskiptum komið á. Það er allt hið besta mál.

Mér sýnist við fljótlega athugun á þessu máli að erfiðasti þátturinn sé sá sem lýtur að fyrsta kaflanum, þ.e. skipulagi og yfirstjórn tollgæslunnar og erfiðum lagalegum spurningum um það hvort hér sé raunverulega um nokkra viðvarandi lausn að ræða, þ.e. hvort ástandið er ekki þannig að eftir sem áður sé um að ræða bort á þeirri grundvallarreglu að skilja að úrskurðaraðila, rannsóknaraðila og framkvæmdaraðila. Ef það reynist á rökum reist, eins og fram kom t.d. hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, þá er hætt við því að þetta mál þurfi mjög ítarlega og tímafreka skoðun í nefnd og þá er nú heldur lítil von til þess að málið verði útkljáð á þessu vorþingi.