Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 18:11:01 (4583)

1996-04-11 18:11:01# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:11]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta frv. er ekki fram komið að frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar. Það er einfaldlega tilkomið vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA úrskurðaði að framkvæmd vörugjalda samræmdist ekki EES-samningnum, stæðist ekki. Ríkisstjórnin sá sig því knúna til að gera þar á breytingar og hefur síðan með einhverjum hætti náð samkomulagi um það sem hér birtist sem tekjuöflun í staðinn. Í frv. felst engin framtíðarstefna sem gæti t.d. verið í því fólgin að falla frá vörugjaldskerfinu og koma á samræmdu kerfi í neysluskattlagningu. Þvert á móti er gripið til þess ráðs að lækka endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna vinnu við nýsmíði og viðhald íbúðarhúsnæðis um 40% án þess að grípa til hliðarráðstafana í tekjuskattskerfinu í staðinn eins og starfshópur á vegum ráðuneytisins hafði lagt til. Eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði mun þessi aðgerð að öllum líkindum hækka byggingarvísitölu um 3--3,5%. Það hefur keðjuverkandi áhrif um allt hagkerfið sem menn þurfa að gera sér grein fyrir. Það er vafalaust rétt sem fram hefur komið af hálfu Samtaka iðnaðarins að þetta muni auka enn svarta atvinnustarfsemi og þar með draga úr skattskilum til ríkissjóðs. Lausn hæstv. fjmrh. er satt að segja undir þeim formerkjum að það er tæpast sæmandi fjmrh., sem stendur þegar frammi fyrir mjög umfangsmiklum skattsvikum, eins og var rifjað upp áðan að leggja til tillögur sem slík áhrif hafa. Fyrir nú utan það að skattbyrðin hvílir þá á hópi sem ber ærnar byrðar fyrir þannig að það verður ekki sagt að þetta sé heppileg eða skynsamleg eða réttlát ráðstöfun.

Yfirlýst markmið með þessum tillöguflutningi eru þau að þetta eigi að vera kerfi til einföldunar. En það er þvert á móti. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að í stað sjö gjaldflokka í núverandi vörugjaldskerfi komi 17 gjaldflokkar. Fjórir flokkar verðgjalda og magngjöld í hvorki meira né minna en 13 flokkum. Það er unnt að tíunda þó að ég geri það ekki hér við 1. umr. málsins að þar kennir margra grasa og vandfundin rök fyrir því hvaða tölur þar eru fengnar í hverju einstöku tilviki. Eitt af markmiðunum sem starfshópurinn mælti með var að tækifærið væri notað til þess að móta stefnu sem væri í samræmi við það sem menn kalla alþjóðlega þróun, þ.e. að verið er að draga úr neyslustýringu og mismunun milli framleiðenda og vörutegunda víðast hvar í löndunum í kringum okkar. Einnig er verið að minnka vægi launaskatta og annarra skatta á framleiðslukostnað í ljósi þess vandamáls sem við er að fást við atvinnusköpun og atvinnuleysi. Frv. gengur ekki í þá átt, það gengur reyndar í öfuga átt gegn þeim markmiðum að efla atvinnulífið og draga úr atvinnuleysi.

Það þarfnast sérstakra skýringa hvers vegna ríkisstjórnin velur þessa leið. Á vegum fjmrh. starfaði sérstakur starfshópur honum til ráðuneytis um þetta mál og skilaði síðan tillögum og komst að einróma niðurstöðum. Á þær var að vísu ekki fallist og gert eitthvert samkomulag þar sem gengið var skemmra en þeir mæltu með upphaflega en engu að síður varð um það samkomulag. Síðan gerist það skyndilega með ríkisstjórnarákvörðun 19. mars sl. að þeim tillögum er öllum sópað undir teppið og það starf ómerkt. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að ráðherrar Framsfl. eigna sér heiðurinn, ef ég á að orða það svo, af því að hafa kollvarpað þeim tillögum. Af því tilefni er sérstök ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. með hvaða rökum það var og með hvaða aðdraganda það var að þessum tillögum var hafnað. Nú tek ég það fram og tek undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni sem hér talaði áðan að þeim þætti tillagnanna sem varðaði hækkun á virðisaukaskatti, sérstaklega í efra þrepi um 0,5% er ég ekki sammála af þeirri einföldu ástæðu að það væri heldur ekki í samræmi við alþjóðlega þróun sem ég tel að við eigum að taka tillit til. En engu að síður er ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. hvaða skýringar eru á þessu.

[18:15]

Skýringin getur ekki verið sú að andmæli fulltrúa aðila vinnumarkaðarins gegn breytingum á virðisaukaskatti hafi ráðið þar úrslitum af þeirri einföldu ástæðu að hæstv. fjmrh. hefur í fjölmiðlum svarað því til að ríkisstjórnin hafi aldrei skuldbundið sig til þess að gera ekki breytingar á virðisaukaskatti og væri þess vegna ekki skuldbundin því. En meginatriðin eru þau að hér er um að ræða málamiðlun sem felur ekki í sér skýra stefnubreytingu sem leiðir til framtíðar. Það er gripið til skammtímaúrræða til að ná inn tekjum í staðinn fyrir vörugjöldin og það er leitað leiða til þess að gera það sennilega eftir lögmáli hinnar minnstu andstöðu. Afleiðingarnar bitna annars vegar á launþegum almennt með hækkun vísitölu og keðjuverkun að því leytinu og hins vegar á húsbyggjendum sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega samstarfsflokksins lýsa yfir að séu sérstök fórnarlömb þessa þjóðfélags og búi við harmkvæli.

Eins og fram hefur komið er frv. sem hér er sýnt ekki nema hluti af heildarniðurstöðunni því að því næst er boðað að ríkisstjórnin hafi þau áform að bæta við um 350 millj. í tekjuöflun í formi hækkunar á tryggingagjaldi, samræmingar á tryggingagjaldi sem fæli þá í sér að þeir atvinnuvegir sem bera lægra gjaldið bæru þá hærra gjald. Það er gömul saga í kerfinu að menn hafa oft og tíðum gert tilraunir til þess, þar á meðal sá sem hér stendur, að leggja tillögur fyrir Alþingi Íslendinga um samræmingu á slíku gjaldi. Niðurstaðan er sú að það hefur oftar en ekki tekist vegna harðrar andstöðu þeirra sem verja sérhagsmuni þessara aðila þannig að það er sýnd veiði en ekki gefin.

Það kann vel að vera að þau rök hæstv. fjmrh. sem fram hafa komið í málinu að tillögur starfshópsins um hækkun á virðisaukaskatti, annars vegar á efra þrepi og svo hins vegar það í tveggja þrepa virðisaukaskatti að færa öll matvæli í lægra þrepið en hækka það jafnframt um eitt prósent einnig séu gagnrýni verð og þá sérstaklega með hliðsjón af alþjóðlegum samanburði. Ég fellst á að hærra þrepið í virðisaukaskatti er þegar í hámarki þess sem þekkt er í löndunum í kringum okkur og það er ekki rétt leið að hækka það. Það vekur þá auðvitað upp spurninguna um hvort ekki hefði átt að mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs öðruvísi. Hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi einar fjórar hugmyndir um lækkun útgjalda í ríkisrekstri til að mæta þessu og nefndi einnig að flokkar okkar hafa á yfirstandandi þingi flutt tillögur um annars konar tekjuöflun. Hann nefndi þar til sögunnar bæði veiðileyfagjald og útfærslu á fjármagnstekjuskatti sem mundi skila þessum tekjum þannig að það er auðvelt að sýna fram á að ríkisstjórnina og hæstv. fjmrh. rak engin nauður til að fara þessa leið út. Þetta er pólitískt ákvörðunarefni ríkisstjórnarinnar og þarna virðist niðurstaðan hafa verið einhver málamiðlun. Og það er akkúrat þessi málamiðlun sem er sérstaklega gagnrýni verð vegna þess að hún bitnar á þeim sem ekki er ástæða til að beri þessar byrðar í framhaldi af úrskurði Eftirlitsstofnunar EFTA.

Að því er varðar alþjóðlegan samanburð um það að stór hluti af tekjuöflun ríkissjóðs kemur af neyslusköttum og við erum neðarlega í samanburði við ýmsar aðrar þjóðir að því er varðar skattlagningu á vinnu og launakostnað, þá er þess að geta að engu að síður verðum við í ljósi atvinnuástandsins í landinu og með hliðsjón af því sem aðrar þjóðir fyrirsjáanlega eru að gera til þess að breyta því, að fara varlega í að velta skattlagningunni yfir á vinnuþáttinn, launaþáttinn af svona tilefnum. Það er reyndar atriði sem vert er að vekja athygli á að hæstv. fjmrh. hefur sagt að hlutur tryggingagjaldsins í heildarskatttekjum hins opinbera sé lágur og hefur nefnt töluna 8,1% í þessu sambandi. Á móti benda t.d. fulltrúar samtaka byggingariðnaðarins og iðnaðarins á það að þegar litið er á önnur launatengd gjöld eins og lífeyrissjóðsiðgjöld, greidd laun í veikindum og fleira, þá er þessi gjaldtaka mun hærri þannig að frekari hækkun á henni getur haft mjög neikvæð áhrif á ákvörðun um nýfjárfestingar, um fjölgun starfa og það að vinna bug á atvinnuleysi. Þetta er því að öllu leyti óskynsamleg niðurstaða.

Herra forseti. Við höfum í dag rætt fjöldamörg mál frá hæstv. fjmrh. og áður hefur einn hv. þm., Kristín Ástgeirsdóttir, reynt að toga út úr hæstv. fjmrh. einhvers konar forgangslista frá honum um það hvaða mál það eru sem fjmrh. leggi sérstaka áherslu á. Hv. þm. fékk engin svör við því. En það á við um þetta mál að það er beinlínis þess eðlis að um það getur auðheyrilega ekki náðst samkomulag. Það þarf mjög rækilega skoðun þegar það kemur til efh.- og viðskn. Það á reyndar við um fleiri mál sem hæstv. fjmrh. hefur flutt í dag. Það er einfaldlega vegna þess að í grundvallaratriðum er þessi niðurstaða gagnrýni verð og hefur mjög varhugaverðar afleiðingar. Og sérstaklega í ljósi þess að við erum að tala um samkeppnisstöðu innan lands, starfsemi eins og byggingariðnaðinn, atvinnusköpun á tímum atvinnuleysis og verðhækkunaráhrif þessara aðgerða, er lítil von til þess að á þetta mál verði fallist sem tæknilega breytingu. Hæstv. fjmrh. hefði átt að mæta afleiðingunum af niðurfellingu vörugjaldsins annaðhvort með sparnaði í ríkisútgjöldum eða þá einhvers konar blöndu af sparnaði og tekjuöflun. Ýmsar aðrar leiðir eru farsælli til tekjuöflunar en sú sem valin var.