Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 18:51:47 (4589)

1996-04-11 18:51:47# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:51]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra skoðanaskipti þessara ungu samstúdenta núna fyrir nokkrum mínútum um framlög til vegamála. Ég ætla ekki að blanda mér í það og ekki að bæta miklu við þá umræðu sem hér hefur farið fram. En mér finnst að það sé búið að halda því til haga sem mestu máli skiptir og ekki miklu við það að bæta.

Ég ætla að reyna að draga saman í nokkrum atriðum sem mér finnst standa upp úr þessari umræðu eftir að hafa lesið þau skjöl í gegn sem eru á borðum okkar í tilefni af þessu máli. Í fyrsta lag spyr ég: Hvað liggur á? Það er ljóst að hér er um að ræða yfirvofandi kærumál eða kærumál í gangi. Það er gert ráð fyrir því að breytingarnar taki gildi 1. júlí nk. samkvæmt frumvörpunum báðum, held ég. Og það er í sjálfu sér mjög umhugsunarvert hvort það er nokkur glóra í því að reyna að breyta reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts á byggingarstað á miðju framkvæmdaári eins og mundi gerast með þessum hætti. Ég dreg það því mjög í efa að það sé glóra að reyna þetta af tæknilegum ástæðum. Burt séð frá öllu öðru varðandi það mál, tel ég að ef menn ætla að gera þetta á annað borð, þá eigi kerfisbreytingin frekar að verða á ládeyðutíma en á háframkvæmdatíma eins og yrði með þessum hætti. Langflestir mundu verða með tvenns konar uppgjör á virðisaukaskatti af byggingarframkvæmdum eða viðhaldi íbúðarhúsnæðis vegna þess að framkvæmdatíminn hjá fólki er yfirleitt að sumrinu. Þeir sem eru t.d. að gera við gömul hús nota oft sumarið í það.

Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að ég skil ekki alveg af hverju þessi kerfisbreyting að því er vörugjaldið varðar og að því er tekjuöflunina þar á móti varðar taki ósköp einfaldlega ekki gildi um áramót. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. af hverju menn hafi ekki hugleitt það að þetta taki gildi á öðrum tíma, t.d. um áramót. Ég segi líka af því tilefni af því að mér finnst að fjmrn. hefði, ef það vill endilega að þetta taki gildi 1. júlí, átt að koma hingað fyrr með þetta mál. Satt að segja er það alveg ótrúlegt verkleysi sem virðist vera ríkjandi í fjmrn. þegar kemur að því að koma málum fyrir þingið. Þannig er að það er aldrei komið með mál fyrr en allt er komið í hnút. Og t.d. mál eins og þetta. Það hefur legið fyrir í marga mánuði að það þyrfti að taka á þessu máli. Ég tel alveg ótrúlegt hvað menn hafa verið lengi að gera upp hug sinn í þessum efnum, enda má segja að vinnubrögðin sem fjmrn. viðhafði í málinu hafi ekki stofnað til fljótlegrar niðurstöðu að ekki sé meira sagt. Þá er ég að hugsa um skipun nefndarinnar og ég mun koma að því síðar.

Í öðru lagi liggur það fyrir og hafa verið færðar afgerandi sönnur á það í umræðunum að aðferðin sem hér á að nota að því er varðar tekjuöflun á móti, eykur skattsvik. Þar með er hæstv. núv. fjmrh. að gera að engu það átak sem hann hefur í orði kveðnu viljað efna til og efnt til m.a. með því að efla skatteftirlitið. Við sem höfum verið í stjórnarandstöðu á undanförnum árum höfum stutt fjmrh. í þeim efnum og hælt honum fyrir að hafa tekið aðeins á þessum skattsvikavandamálum. En hann er að gera lítið úr því verki með því að fara þessa leið sem þýðir aukin skattsvik eins og fram kemur m.a. í ályktun bæði frá Samtökum iðnaðarins og líka frá Vinnuveitendasambandi Íslands sem menn hafa vitnað til í umræðunum í dag.

Í þriðja lagi er það ljóst eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir benti á áðan að þessi leið hækkar verð á íbúðarhúsnæði, það verður dýrara. 10 millj. kr. íbúð mun kosta 350 þús. kr. meira en áður eftir þessa hækkun. Það er kannski rétt að í verðlaginu, í þjóðfélaginu að jafnaði, þá geta hlutirnir legið þannig að hvað vegi annað upp. En þegar kemur að íbúðarhúsnæðinu sem er vissulega frumþörf, þá er augljóst mál að hér er um að ræða hækkun á þeim kostnaði. Það má segja að Sjálfstfl. gerir það ekki endasleppt þegar kemur að því að brjóta niður svokallaða eiginhúsnæðisstefnu sem hann var montnastur af fyrir nokkrum áratugum en er að engu orðin vegna þess að ungt fólk með venjulegar launatekjur getur ekki eignast íbúðir og það er verið að bæta gráu ofan á svart með þessum aðförum sem hér eru uppi.

Í fjórða lagi er ljóst að þessi aðferð við virðisaukaskattsmálin mun draga úr viðhaldi á eldra húsnæði og það er mjög slæmt mál. Það er þjóðhagslega mjög slæmt. Á næstsíðasta þingi flutti þáv. hæstv. iðnrh. svar við fyrirspurn frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich þar sem bent var á að í viðhaldi húsnæðis lægju veruleg atvinnutækifæri hér á landi og staðan væri auk þess þannig að íbúðarhúsnæði á Íslandi og húsnæði á Íslandi yfirleitt liggur undir skemmdum vegna þess að menn vanrækja að sinna eðlilegum viðgerðum. Hér er enn ýtt undir þetta trassakerfi sem við Íslendingar höfum komið okkur upp að því er varðar gamalt húsnæði og ég tel að það sé ein veigamikil ástæða til þess að vera andvígur þeirri uppsetningu mála sem hér er á blaði.

Í fimmta lagi hefur verið bent á það í þessum umræðum sem er örugglega rétt og vitnað líka til ályktana frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Samtökum iðnaðarins að þessi aðferð mun draga úr atvinnu. Hún mun fækka fólki sem hefur vinnu og það er síst þörf á því um þessar mundir að fækka fólki sem hefur vinnu.

Í sjötta lagi hefur verið bent á það að með þeim aðferðum sem hér eru uppi og ríkisstjórnin boðar að haldi áfram um næstu áramót, er gert ráð fyrir því að hækka enn þá tryggingagjaldið. Ég held að menn séu á dálítið varasömum brautum með þetta tryggingagjald. Ég man ekki betur en ég hafi tekið þátt í að koma því á á sínum tíma í einhverri bestu ríkisstjórn sem sögur fara af í þessu landi og er þá langt til jafnað. En það er eins og við manninn mælt að þegar mönnum dettur eitthvað í hug í sambandi við einföldun á skattkerfi, eins og tryggingagjaldið í sjálfu sér var, þá ganga þeir eiginlega aldrei frá fjárlagafrv., sérstaklega undir forustu núv. hæstv. fjmrh., án þess að hækka tryggingagjaldið. Það er orðinn fastur kækur hjá þessum hæstv. fjmrh. að hann má ekki sjá fjárlagafrv. án þess að skella sér um leið í það að hækka tryggingagjaldið. Hann er svo ótrúlega hugmyndalaus þegar kemur að því að leggja á skatta að hann fær einhver alveg sérstök köst þegar kemur að þessu tryggingagjaldi. Og nú á að hækka það um næstu áramót og það þýðir að það er meiri skattur á atvinnureksturinn í landinu. Ég held að það sé mál sem menn eigi að horfa til alvarlega eins og bent hefur verið á af talsmönnum stjórnarandstöðunnar á undan mér.

Í sjöunda lagi verð ég að segja alveg eins og er að þar hittir hæstv. núv. fjmrh. sig fyrir í öfugmælavísunum þegar hann er alltaf að tala um að einfalda. Hann er að vísu ekki eins harður í því og einn viss forveri hans sem var alltaf að tala um að einfalda og skilvirkni og ég veit ekki hvað. Það voru einhver þrjú orð sem hann hafði alltaf um skattkerfið. En það mistókst yfirleitt hjá honum. Þetta varð yfirleitt flóknara þegar hann var að gera það upp og sá maður stendur hér í dyrum ekki fjarri.

[19:00]

Núv. hæstv. fjmrh. tekur forvera sínum fram í þessu efni. Þegar hann fer að einfalda, þá er með leyfi forseta, fjandinn laus. Þegar núv. hæstv. fjmrh. fer að einfalda, flækist allt. Og hver er niðurstaðan hér? Hún er alveg ótrúleg. Hún er þannig að í staðinn fyrir sjö gjaldflokka í vörugjaldi eru teknir upp fjórir flokkar verðgjalda, 13 flokkar magngjalda og 17 gjaldflokkar í vörugjaldi. Þetta er alveg ótrúlegur árangur í einföldun. Ég held að þó að hæstv. núv. fjmrh. sé meistari í því að flækja alla hluti, þá hafi honum aldrei tekist betur en í þetta skipti. Það hefur auk þess verið sýnt fram á þetta í þessum umræðum.

Í áttunda lagi, hæstv. forseti, er það þannig að sú skattlagningarleið sem hér er farin og breytingarleið á skattkerfinu, vörugjaldskerfinu, er mjög skrýtin og tilviljunarkennd því að maður horfir upp á það að vörur eins og t.d. pípur og kveikjarar lækka um 20%. Það eru að minnsta kosti engin heilbrigðisrök fyrir því. Ég skil ekki alveg af hverju í ósköpunum menn þurfa endilega að lenda í svona pyttum, af hverju menn reyna ekki að horfa á þessa hluti í heildarsamhengi og skynsamlegu samhengi við málin.

Í níunda og síðasta lagi, herra forseti, er svo það að aðdragandi þessa máls af hálfu hæstv. fjmrh. er alveg ótrúlegur. Hann skipar nefnd. Hverjir eru í nefndinni? Það eru embættismenn úr ráðuneytinu eins og vera ber og það eru menn frá samtökum atvinnulífsins, atvinnurekendur í þessu máli. Þeir eru í nefndinni. Þeir setja saman álit og skila því í febrúar. Auðvitað kemur það svo á daginn að þó að þeir búi til eitthvert álit, þá er ekki orð að marka það úti í þjóðfélaginu vegna þess að þeir ráða sem betur fer ekki öllu. Þetta álit sem kemur frá þessum aðilum, m.a. vinum mínum í Samtökum iðnaðarins og fleirum, mætir náttúrlega mótbyr mjög víða, ekki bara í stjórnarflokkunum þar sem mér skilst að það hafi mætt verulegum mótbyr, heldur mætir það líka mótbyr að mér skilst hjá alþýðusamtökunum, en það hefur með einhverjum hætti borið þar á góma. Niðurstaðan verður svo sú að öll nefndarvinnan er tímasóun af því að hæstv. fjmrh. kallaði ekki til þá aðila sem helst eiga að véla um mál af þessu tagi. Þetta er eins og venjulega með núv. hæstv. ríkisstjórn að þegar kemur að svona málum, þá gleymir hún þeim sem helst ætti að kalla til, þ.e. þeim sem búa við þjónustuna, verðlagið og vörurnar í landinu og þurfa að hafa atvinnu. Þess vegna má segja, að hæstv. fjmrh. hitti sjálfan sig fyrir þegar sá veruleiki blasir við að það er engan veginn víst að þetta mál geti orðið að lögum á þessu þingi. Það er engan veginn víst. Eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson benti á, eru svo margir hlutir í frv. sem þarf að skoða að það er útilokað að samþykkja þessi mál nákvæmlega eins og þau eru. Þau þarfnast ítarlegrar skoðunar. Fyrir hv. efh.- og viðskn. liggja milli 10 og 20 mál og ríkisstjórnin virðist leggja í dag jafnmikla áherslu á þau öll og það er bersýnilegt að það verður mjög erfitt fyrir hv. efh.- og viðskn. að koma þeim öllum áfram og jafnvel þessu máli þó að sérstaklega sé rekið á eftir því. Þess vegna tel ég ástæðu til að ítreka það að lokum hæstv. forseti, að mér finnst að fjmrh. hafi ekki unnið vinnuna sína við að undirbúa mál og við að leggja það fram hérna í tæka tíð. Hæstv. fjmrh. hefði betur reynt að koma þessu máli inn fyrr með því að beita starfsliði sínu í þá átt frekar en vera með þetta á allra síðustu stundu þegar allir hlutir eru að verða allt of seinir í þessari virðulegu stofnun.