Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:35:01 (4597)

1996-04-11 19:35:01# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, KÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð sem komu fram áðan í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar varðandi það hvernig umræður fara fram hér á hinu háa Alþingi. Í dag erum við búin að ræða hvorki meira né minna en sjö frv. frá hæstv. fjmrh. og klukkustundum saman hafa verið hér nokkrir stjórnarandstæðingar ásamt hæstv. fjmrh. en hér sést ekki einn einasti stjórnarþingmaður. Hér erum við að ræða mjög stór og viðamikil mál. Er það virkilega orðin staðan, hæstv. forseti, að umræður hér á Alþingi séu orðnar einn allsherjar ,,díalóg`` milli eins ráðherra annars vegar og nokkurra stjórnarandstæðinga hins vegar? Mér finnst þetta í hæsta máta óeðlilegt. Það hefur alveg keyrt um þverbak í vetur. Ég kannast ekki við þetta frá síðasta kjörtímabili, hvernig sem hlutirnir voru svo þar áður. Mér finnst þetta sannast að segja algjör hneisa að það skuli ekki einn einasti fulltrúi meiri hlutans í efh.- og viðskn. fylgjast með öllum þessum málum sem verið er að vísa til nefndarinnar og taka að einhverju leyti þátt í umræðunum. Mér finnst eiginlega vakna sú spurning hvort 1. umr. og það að mæla fyrir málum sé ekki orðið algjörlega óþarft. Á ekki bara að fara að senda mál beint til nefnda þegar þannig er komið að það verður engin verulega málefnaleg umræða? Það er bara ráðherrann og nokkrir stjórnarandstæðingar sem skiptast hér á skoðunum. Ég tel reyndar að það sé mjög gagnlegt, hér hefur margt komið fram í dag og ráðherrann hefur vísað því til nefndarinnar að athuga ýmsa hluti sem orka tvímælis. Málin hafa skýrst en það getur ekki talist eðlilegt að stjórnarþingmenn skuli ekki sjá sóma sinn í því að fylgjast með umræðum. Ekki síst þeir sem eiga að vinna að málunum í nefnd. Auðvitað ríkir hér ákveðin verkaskipting. Það vitum við öll og við ástundum hana sjálf í stjórnarandstöðunni. En það er auðvitað eitthvað að í þingstörfunum þegar vinnubrögðin eru orðin svona.