Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 11:15:34 (4616)

1996-04-12 11:15:34# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[11:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. sem felur í sér verulegar breytingar á núverandi skipan lögreglumála og þar er sumt til bóta en annað ekki. Viðamesta breytingin ef horft er til skipulags lögreglumála er án efa stofnun embættis ríkislögreglustjóra og þær breytingar sem meiningin er að gera í kjölfar þess. Eins og ráðherra rakti að nokkru leyti í framsöguræðu sinni felur frv. í sér verulegar breytingar. Ég mun ekki fara yfir þær allar efnislega heldur einungis nefna þær sem mér þykja sérstaklega athugunar verðar. Eins og komið hefur fram er frv. nokkuð viðamikið og í raun er annað frv., sem hér verður rætt á eftir, að mörgu leyti skylt þessu.

Ef horft er á núverandi skipan lögreglumála þá er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu dómsmálaráðherra og undir hann heyra embætti lögreglustjóra, þ.e. lögreglustjórar í umdæmum og rannsóknarlögreglustjóri ríkisins. Lögreglustjórar í umdæmum fara með almenna lögreglustjórn á hverjum stað en rannsóknarlögreglustjóri fer með rannsókn opinberra mála með þeim takmörkunum sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum.

Í frv. er lagt til að stofnað verði nýtt embætti ríkislögreglustjóra. Rannsóknarlögregla ríkisins í núverandi mynd lögð niður en í staðinn verði rannsóknir meginþorra mála fluttar út í héruð til lögreglustjóra þar. Síðan er gert ráð fyrir því, eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh., að sérstakar deildir verði stofnaðar hjá ríkislögreglustjóra og sérstakar deildir stofnaðar úti í umdæmum lögreglustjóranna.

Um rannsóknardeildirnar er það að segja að fram hafa komið um það athugasemdir frá Landssambandi lögreglumanna að með hliðsjón af starfssvæði rannsóknardeilda sé aðfinnsluvert að þeir lögreglumenn sem starfa innan þessara deilda muni starfa undir stjórn ýmissa yfirmanna og það sé mikilvægt í starfsemi lögreglu að röð fyrirmæla sé skýr og að lögreglumaðurinn þekki það skipulag sem hann heyrir undir. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hann telji að þetta sé nægilega tryggt með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til, að það sé nægilega skýrt hvert sé skipuritið og hver eigi að heyra undir hvern í því skipulagi sem hér er lagt til. Einhvers staðar í frv. sá ég að það eigi að gera nánari útfærslu á þessu í reglugerð og það væri athyglisvert að heyra hvaða hugmyndir eru um það í ráðuneytinu.

Í a- og b-lið 2. mgr. 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að starfrækt verði sérstök lögreglurannsóknardeild hjá ríkislögreglustjóra sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot. Eftir lestur þessa frv., og reyndar fylgifrv. um meðferð opinberra mála, tel ég að ekki sé nægilega skýrt kveðið á um það að rannsókn og ákæra í efnahagsbrotum sé á hendi eins og sama aðilans í öllum tilvikum til þess að tryggja þá sérhæfingu sem rannsókn og jafnframt ákæra efnahagsbrota krefst, en það er mjög víðtækur brotaflokkur og í stöðugri mótun, má segja, tekur stöðugum breytingum. Svo virðist sem það sé meiningin en ég er svolítið undrandi yfir því að ekki skuli vera tekið skýrar af skarið með þetta í frv., að það sé hreinlega sagt að í slíkum brotum skuli ákæra og rannsókn vera á einni hendi.

Ég bendi á í þessu samhengi að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og sú sem hér stendur fluttu till. til þál. fyrr í vetur um sérstakan ákæranda í efnahagsbrotum og var tillagan í þá veru að dómsmrh. væri falið að undirbúa frv. til laga um embætti sérstaks ákæranda í efnahagsbrotum sem væri sérhæfður í meðferð slíkra brota. Verkefni hans yrði að rannsaka meint efnahagsbrot ásamt því að fara með ákæruvald í slíkum málum.

Í umræðum um þessa tillögu á sínum tíma kom fram sú gagnrýni að þarna væri verið að stofna enn eitt báknið, enn eitt embættið, en flm. bentu á að það væri alls ekki ætlunin og ég benti t.d. á að ég teldi vel koma til greina að svona embætti heyrði undir ríkislögreglustjóra. Það sem liggur að baki þessari hugmynd er náttúrlega fyrst og fremst sú sérstaða sem efnahagsbrotin hafa. Viðhorf almennings til þeirra eru önnur en til annarra brota og þau skapa oft og tíðum mjög erfið siðræn vandamál. Má nefna sem dæmi að fólk lítur ekki endilega á skatta-, bókhalds- og tollalagabrot sem alvarleg brot, en þjófnaðir eða eignaspjöll eru litin mjög alvarlegum augum. Brot sem eru framin í atvinnurekstri eru gjarnan réttlætt með því að lögin séu gölluð eða fullnægi ekki þeim þörfum sem viðskiptalífið krefst, en einnig með því að þau hafi verið tilraun til þess að bjarga atvinnurekstrinum.

Á það var bent að oft er mjög erfitt að rekja eða mæla tjónið af efnahagsbrotunum og að þau viðskipti sem brotin varða eru óvenjuflókin og aðeins á valdi örfárra sérfræðinga oft og tíðum að þekkja þau. Þá var einnig bent á það hér í tengslum við flutning þessarar tillögu að baráttan við efnahagsbrotin hefur verið alþjóðleg hin síðari ár enda hefur það verið reyndin í öðrum löndum að hinar hefðbundnu leiðir refsivörslukerfisins hafa ekki dugað í tengslum við þessi brot og hefur víða verið talin þörf á sérstökum aðgerðum til að takast á við þau, svo sem virkri og sérhæfðri löggæslu, sérþjálfuðum löggæslumönnum og ákærendum, sérstakri þjálfun dómara, greiðum upplýsingum í samskiptum yfirvalda sem við málin fást, hraðari málsmeðferð og hertum refsingum. Flutningsmenn bentu á að það væri ekkert öðruvísi hér á landi en annars staðar að refsivörslukerfið í þeirri mynd sem það hefur verið hefði ekki dugað.

Á það var líka bent í tengslum við þessa tillögu að í Danmörku t.d. hefur sérstakt embætti með höndum rannsókn og ákæru slíkra brota. Undir embættið heyra umfangsmeiri efnahagsbrot, þau sem líklegt er að hafi mikla þýðingu og eru liður í skipulagðri glæpastarfsemi. Þá hefur líka verið bent á það að svipað kerfi hefur verið tekið upp í Noregi og það sem sérstaklega hefur verið hugað að þar er að það sé öruggt að á einhverjum einum stað sé sú sérhæfða þekking sem safnast saman um þessi erfiðu brot. Það sé á einum stað og þar sé haldin ákveðin skrá yfir þau og þeim upplýsingum sé safnað saman og jafnframt að þeim upplýsingum sé dreift út í umdæmi þannig að tryggt sé að sú sérþekking nýtist úti í umdæmunum líka ef slík brot koma upp. Mér sýnist frv. vera skref í rétta átt að þessu leyti. Það er sérstaklega talað um þessa rannsóknardeild og það lítur út fyrir að meiningin sé að það eigi að færa þetta undir einn og sama hatt, rannsókn og ákæru í þessum málum, en ég tel að það mætti kveða mun skýrar á um það og teldi það æskilegra.

Frv. felur í sér nokkrar breytingar á stöðu lögreglumanna og réttarstöðu þeirra eins og fram hefur komið. Og þar sem þessi ríkisstjórn er nú orðin fræg að endemum fyrir aðför sína að launafólki þá tel ég fulla ástæðu til að skoða frv. sérstaklega með tilliti til þessara þátta. Ég vil byrja á því að koma inn á atriði sem hæstv. ráðherra minntist á í framsögu sinni. Á bls. 19 í frv. er sérstakur kafli sem hefur yfirskriftina ,,Bætt staða kvenna í lögreglu``. Hæstv. ráðherra eyddi töluverðum tíma í að greina frá þessum kafla í ræðu sinni. Ég rak líka augun í þennan kafla og tel hann athyglisverðan fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi vegna þess að ég tel ánægjulegt að þessu sé gefinn gaumur í frv., að það sé hugað að stöðu kvenna í lögreglunni. Það er fyllilega orðið tímabært og fyrir löngu síðan. Hins vegar á ég erfiðara með að átta mig á þeim lausnum sem felast í frv. Þær kannski hjálpa eitthvað, það má vel vera, en ég tel hins vegar að þær taki á ekki því sem raunverulega skiptir máli fyrir konur í lögreglu.

Í frv. segir að um áramótin 1995/1996 hafi einungis 25 konur verið við störf sem lögreglumenn í lögreglu ríkisins eða rúm 4% af heildarfjölda lögreglumanna. Hlutfall kvenna í starfsliði lögreglustjóra var þó nokkru hærra. Nokkuð hefur verið gert til að bæta hér úr, segir í frv., en svo lágt hlutfall kvenna í lögreglu er óviðunandi og að sjálfsögðu geta margir tekið undir það. Þá segir einnig að lögreglustjórum hafi m.a. verið bent á að setja í auglýsingar um lausar stöður innan lögreglu sérstaka hvatningu til kvenna um að sækja um stöðurnar. Hlutastörf í lögreglu hafa verið fátíð og vinnutími oft á tíðum ósveigjanlegur. Þetta ásamt fleiru hefur ekki laðað konur að lögreglustörfum og eins hafa reglur um lágmarkshæð þrengt verulega þann hóp kvenna sem átt hefur þess kost að komast í Lögregluskóla ríkisins.

Það er sagt að í frv. séu nokkur nýmæli og það eru m.a. breytingar á ákvæðum um inntöku nema í Lögregluskólann og fyrirætlanir um að færa niður lágmarkshæð kvenna með nýrri reglugerð um skólann.

Ég held að líkamsbygging og hæð kvenfólks sé ekki það sem helst stendur í vegi fyrir því að þær komist áfram í lífinu. Þó að þær séu vel hávaxnar og fyllilega á við karlmenn að líkamsburðum, þá er ekki alltaf að gengur sem skyldi. Þegar ég sá þennan kafla í frv. var mér minnisstæð umfjöllun sem var í tímaritinu 19. júní frá 1994 eða 1995 um stöðu kvenna í lögreglunni þar sem talað var við þessar konur. Þar sýndust mér vera ýmsir aðrir þættir sem spila inn í og snúa m.a. að því hvernig þeim gengur að feta sig áfram þegar þær eru komnar í störfin. Það er m.a. nokkuð sem gerir starfið ekki aðlaðandi fyrir konur að þær voru jafnvel færðar til í starfi. Þess voru dæmi að þær væru færðar til í starfi sem var fulllangt fyrir neðan þá hæfni og þá getu sem þessar konur höfðu þá sýnt. Því hef ég grun um að til að ná árangri þurfi að gera meira en að beina einhverjum tilmælum til yfirmanna í lögreglunni um að reyna að laða konur að. Að það sé líka ástæða til þess hreinlega að kveða sterkar á um það, að setja reglur um að þeim sé skylt að hafa ákveðið hlutfall starfsmanna í lögreglunni konur eftir því sem hægt er að koma því við, þannig að á einhvern hátt sé tekin skýrari stefna og að lögregluembættin taki síðan við skýrari starfsmannastefnu að þessu leyti. Þar getur dómsmrn. að sjálfsögðu haft einhverja stefnu þó að það sé ekki beinlínis tekið fram í lagafrv. sem þessu.

Ég vildi geta þessara þátta vegna þess að mér finnst þessi kafli nánast benda til þess að ástæðan fyrir því að konur komi ekki inn í lögregluna séu þær að þær séu annaðhvort of lágvaxnar eða þá að þær vilji ekki sækja um störfin. Ég held að það sé ýmislegt annað sem þarna liggur að baki sem sé ástæða til að skoða.

Ég vil í þessu sambandi benda á það sem ég gái oft að þegar ég er að skoða lagafrumvörp þar sem nefndir eru starfandi, að það var ekki ein einasta kona, ef ég man rétt, í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. Það var fengin kona til að starfa með nefndinni. En það er eitt sem stjórnvöld geta gert, ef þau hafa áhuga á því að bæta stöðu kvenna, að tilnefna í auknum mæli konur í slíkar nefndir þannig að það sé þá öruggara að þeirra sjónarmiða sé gætt. Þrátt fyrir góðan vilja karlanna þá er það þannig að kannski konunum er betur fallið að fjalla um sín eigin málefni heldur en þeim þegar allt kemur til alls.

Varðandi réttarstöðu lögreglumanna vil ég benda á það sem hefur komið fram að lögreglumenn hafa mótmælt ýmsum atriðum í frv. Þeir hafa sent umsögn um frv. og hafa komið á framfæri ýmsum athugasemdum þar sem þeir hafa tjáð sig um þau mál. Þá er kannski fyrst til að nefna að Landssambandi lögreglumanna var gefinn mjög skammur umsagnarfrestur. Hér er um að ræða mjög viðamikil frumvarpsdrög sem verður varla gerð tæmandi skil með skömmum fyrirvara. Þau þurfa ítarlegrar umfjöllunar við. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fengið frá Landssambandi lögreglumanna þá fengu þeir erindið 1. febrúar og þeim var gefin rúm vika til þess að skila umsögnum um frv. Frumvarpsdrögin eru þá að koma fyrir augu margra stjórnarmanna í fyrsta skipti þannig að þeim gafst mjög lítill tími til að fjalla um þessi mál sem eru mjög mikilvæg og snúa mjög að réttarstöðu lögreglumanna eins og mjög víða kemur fram í frv.

[11:30]

Lögreglumenn hafa líka bent á að þeir hafi verið með mjög alvarlegar athugasemdir við 28. gr. frv. og telja að þar sé ráðist gróflega að starfsréttindum lögreglumanna. Þeir benda á að það sé líklega einsdæmi að fagráðuneyti komi fram með tillögur þess efnis að afnema hæfisskilyrði til þess að einstaklingar fái að gegna lögreglustarfi þrátt fyrir að í öðrum hlutum frumvarpsdraganna séu kröfur til þeirra auknar og þyngri skyldur lagðar þeim á herðar. Ef við skoðum 28. gr. þá er þar það einkum 4. tölul. sem mér sýnist athugunarverður. Þar segir að dómsmálaráðherra geti heimilað lögreglustjóra að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins enda fullnægi hann tilteknum skilyrðum laganna. Þarna er kannski það sem lögreglumenn benda á að í þessu tilviki mætti hafa skýrari undantekningar frá því hvenær megi skipa þá sem ekki hafa farið gegnum Lögregluskóla ríkisins í störf hjá lögreglunni. Það er mjög mikilvægt að þess sé gætt, ekki síst með tilliti til mikilvægis þeirra starfa sem lögreglumenn sinna, að þar sé fólk sem í öllum tilvikum hafi fyllilega þekkingu og getu á þeim störfum sem því er ætlað að sinna.

Það er líka annað sem ég vil gera athugasemdir við og það er 25. gr. þar sem eru reglur um störf lögreglumanna utan vinnutíma. Lögreglumenn hafa bent á að þarna sé verið að setja þeim þrengri skorður en öðrum opinberum starfsmönnum utan vinnutíma. Það sé nánast verið að leggja bann við aukastörfum lögreglumanna og þarna sé verið að bjóða upp á tiltekna mismunun gagnvart lögreglumönnum. Ég get tekið undir að þetta ákvæði kemur svolítið einkennilega fyrir sjónir. Þó að það sé í sjálfu sér eðlilegt að á einhvern hátt séu settar skorður við því að opinberir starfsmenn sinni aukastörfum, þá vekur þetta spurningar hvort þarna sé ekki gengið einum of langt og að þessum hópi sé þá markaður sérbás sem sé ósanngjarn að mörgu leyti ef mið er tekið af öðrum opinberum starfsmönnum.

Tími minn fer nú að styttast þannig að ég hef ekki tíma til að koma að öllum þeim athugasemdum sem ég vildi koma að, en það er eitt sem ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra nánar út í og mér fannst svolítið undarlegt ákvæði. Það er ákvæði 15. gr. um aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl. Það er sett pósitíft lagaákvæði um að lögreglu sé heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau. Þá er kveðið á um það að lögreglu sé heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum o.s.frv. Síðan segir að óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu skv. 2. mgr. geti hún gripið til nauðsynlegra ráðstafana á hans kostnað til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu. Lögreglu er heimilt að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar. Að lokum er kveðið á um það að lögreglu sé heimilt að hafa afskipti af málefnum sem samkvæmt lögum heyra undir önnur stjórnvöld ef það er talið nauðsynlegt til að stöðva eða koma í veg fyrir alvarlega röskun á almannafriði og allsherjarreglu og ekki næst til viðkomandi stjórnvalds eða aðgerðir af þess hálfu eru útilokaðar, þýðingarlausar eða fyrirsjáanlegt er að þær muni hefjast of seint.

Í athugasemdum með þessu ákvæði segir að greinin sé í fyrsta lagi nýmæli og að tilgangur ákvæðisins sé að treysta lagalegan grundvöll þessa réttar lögreglu til að hafa afskipti af borgurunum við nánar tilgreindar aðstæður og með hvaða hætti það sé heimilt. Jafnframt er tekið fram að talið hafi verið að heimildir lögreglu í þeim tilfellum sem getið er í greininni rúmist innan þess sem kallað hefur verið allsherjarumboð lögreglu. Þannig hafi verið í gildi óskráð regla, ef ég skil þetta rétt, um að þetta hafi verið heimilt og þannig að lögreglan hafi haft þessa heimild. Ég vil þá spyrja: Af hverju er sérstaklega ástæða til þess að vera að setja svona pósitíft ákvæði um þetta í lögin? Það truflar mig einhvern veginn. Mér finnst það líta frekar illa út. Ég hef litið svo á að það hafi verið efast um þessa heimild lögreglu og ég vil spyrja ráðherrann að því hvort þarna búi að baki einhver sérstök --- það er reyndar vitnað í lögmætisregluna, þá reglu að hið opinbera, lögreglan sem aðrir, þurfi að hafa heimild í lögum til afskipta af borgurunum gegn vilja þeirra. Við vitum að það er að sjálfsögðu ekki hægt að koma öllu slíku fyrir í lögum, en spurningin er þessi: Er eitthvað sérstakt sem gefur tilefni til að ætla þetta? Ég minnist þess ekki að það hafi mjög oft komið upp tilvik af þessu tagi þannig að það sé ástæða til þess að vera að setja ákvæði þessa efnis sérstaklega í lög núna í stað þess að hafa heimildina áfram óskráða, sérstaklega með tilliti til þess að það hefur ekkert verið um hana efast eftir því sem ég veit best. Ég mundi gjarnan vilja heyra það frá hæstv. ráðherra hvort þess séu einhver nýleg dæmi, í dómsmálum eða eitthvað annað sem gefi sérstaklega tilefni til að festa þessa reglu í sessi núna.