Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 11:58:13 (4619)

1996-04-12 11:58:13# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[11:58]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til lögreglulaga sem er um margt mjög athyglisvert að mínu mati en mjög umfangsmikið. Mér mun gefast tækifæri til þess að fylgjast með vinnu þess í hv. allshn. þannig að ég mun á þessari stundu ekki tjá mig um öll atriði frv. Ég tel mjög mikilvægt að frv. fái mjög vandaða vinnu í nefnd því að þarna er um að ræða mjög umfangsmiklar skipulagsbreytingar á lögreglumálum í landinu, ekki síst yfirstjórn lögreglunnar.

Helstu nýmæli frv. hafa verið talin upp bæði af hæstv. ráðherra og einnig koma þau skýrt fram á bls. 18 í greinargerð og því mun ég ekki fara mjög nákvæmlega út í þau í ræðu minni. Ég tel að langflest þessara nýmæla séu til bóta þó að það sé ekki alveg ljóst hvort þeim markmiðum verður náð sem hæstv. dómsmrh. útskýrði í ræðu sinni, nefnilega því að gera störf lögreglumanna skilvirkari og starfssvið þeirra skýrara.

[12:00]

Það atriði sem ég hjó eftir í ræðu ráðherra er að hann telur að frv. muni bæta stöðu kvenna innan lögreglunnar. Ég er ekki svo sannfærð um að svo sé og vil því sérstaklega gera það að umræðuefni því að ekkert í upptalningunni á bls. 18 um nýmæli kemur sérstaklega inn á það mál. Þó er í greinargerð í sérstökum kafla um bætta stöðu kvenna í lögreglunni bent á nokkrar sláandi staðreyndir eins og þá að um síðustu áramót voru eingöngu fimm konur starfandi hjá lögreglu ríkisins eða um 4% af heildarfjöldanum. Til samanburðar má benda á að t.d. í Svíþjóð eru um 15% lögreglumanna konur eftir þeim heimildum sem ég hef aflað mér. Þetta mun vera eitthvað minna annars staðar á Norðurlöndunum. Að mínu mati er mjög stórt verkefni fram undan og mjög mikilvægt. Markvisst er unnið að því að fjölga lögreglukonum í löndunum í kringum okkar og það er augljóst mál að við eigum mjög langt í land. En ég tek undir með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur áðan að það er ekki alveg ljóst í frv. eða í greinargerðinni hvernig á að fara að því að breyta þessu ástandi.

Á bls. 19 í greinargerðinni er bent á að ýmislegt í sambandi við starf lögreglunnar skýri að konur eru þar fáar. Þar er bent á að vinnutími sé ósveigjanlegur og hlutastörf séu fá og má í því sambandi benda á að algengt er að vaktir séu frá 7 á morgnana til 7 á kvöldin. Þetta er mjög óþægilegt fyrirkomulag fyrir fólk með börn þar sem skóli eða vinna hefst yfirleitt um kl. 8 eða kl. 9.

Í öðru lagi er bent á í greinargerðinni að reglur um lágmarkshæð hafi hindrað konur til þess að ganga í lögregluna og bent er á að í frv. sé hugmyndin að breyta reglum um inngöngu í Lögregluskólann þannig að lágmarkshæð kvenna verði færð niður. Í þessu sambandi má benda á að það mun vera staðreynd að það sé um 12 sm munur á meðalhæð kvenna og karla og að núgildandi reglur eru þannig að karlar geta farið í Lögregluskólann þó að þeir séu fyrir neðan meðalhæð en konur þurfi að vera töluvert fyrir ofan meðalhæð til þess að geta komist þar inn.

Í Svíþjóð hafa reglur um lágmarkshæð kvenna verið felldar niður og ég tel mikilvægt að það verði gert hér eða að reglur verði a.m.k. réttlátar miðað við þann mun sem er á meðalhæð kvenna og karla.

Ég tók eftir í sambandi við inntökuskilyrði í Lögregluskólann í 38. gr. frv. að áherslan í inntökuprófinu er á íslensku og þrek. Ákvæði um hæð og þrek lögreglumanna minna á rit Platóns um fyrirmyndarríkið í fornöld. Platón gekk fram fyrir skjöldu með það viðhorf að öll störf í fyrirmyndarríkinu ættu að henta bæði konum og körlum. Það var meginhugmynd hans og að allar stéttir í fyrirmyndarríkinu ættu að vera opnar fyrir bæði konur og karla og þar voru efstu stéttirnar verndarar ríkisins. Þeir skiptust í stjórnmálamenn og hermenn. Formlega áttu konur að geta orðið stjórnmálamenn og hermenn í fyrirmyndarríki Platóns. En þegar betur var að gáð hvernig hann skilgreindi þessi störf kom í ljós að t.d. kvenstjórnmálamaður gat ekki alið upp börnin sín, þau voru tekin frá honum ef hann eignaðist börn. Og hermaður varð að hafa mjög mikla líkamsburði þannig að það hefði eiginlega verið ómögulegt ef þetta hefði verið raunverulegt að vera kona og hermaður. Þetta var saga um fyrirmyndarríki. Það er vonandi ekki hugsunin hér að áfram verði kröfur um þrek og hæð þannig að það fæli frá. Með þessu er ég alls ekki að segja að konur þurfi ekki og geti ekki uppfyllt kröfur um þrek því að mér skilst að fáar konur sem hafi sótt um Lögregluskólann hafi fallið á því prófi.

Í greinargerðinni á bls. 19 segir að dómsmrh. hafi nýlega komið á fót starfshópi til að kanna stöðu kvenna innan lögreglunnar og þessi starfshópur eigi að koma með úrbætur sem muni væntanlega hafa áhrif á framkvæmd þessara laga og setningu reglugerða á grundvelli þeirra. Mér er kunnugt um það að þessi starfshópur hefur aldrei verið kallaður saman enda skipaður nýlega. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvernig standi á því og hvort ekki hefði verið æskilegra að þessi starfshópur hefði lokið störfum áður en frv. var lagt fram þannig að gera mætti lagalegar úrbætur með hliðsjón af störfum hópsins. Ég vil í þessu sambandi minna á þetta með vinnutímann frá 7 til 7 og atriði eins og möguleika á hlutastörfum. Það má vel vera að þetta séu reglugerðaratriði eða starfsregluatriði. Þó er spurning hvort ekki hefði þurft að koma eitthvað inn í lögin um að stefnt sé að því að auka hlutfall kvenna innan lögreglunnar. Það er þannig nú að það er komið undir vilja yfirmanna hvort eitthvað gerist í þeim efnum.

Að öðru leyti tel ég ástæðu til að skoða nánar í allshn. stöðu Lögregluskólans. Er eðlilegt að þessi skóli sé aðeins eitt ár? Er eðlilegt að þessi skóli sé ekki í neinum tengslum við skólakerfið í landinu? Nú er verið að vinna í menntmn. að framhaldsskólafrv. þar sem verið er að vinna að sem heildstæðustu skólakerfi og þar kemur þessi skóli ekkert inn í. Hann er alger eyja. Ég spyr einnig: Er eðlilegt að ríkislögreglustjóri stjórni því hve margir fari í gegnum skólann á hverju ári? Ég tel að það geti verið til bóta að hann sjái um inngöngu eða komi nálægt því hvort það eigi að koma skýr ákvæði í lögunum um það en ég er ekki sannfærð um það að þetta sé besta tryggingin fyrir eðlilega nýliðun í lögreglustarfinu og í Lögregluskólanum. Benda má á að nú er nýliðun lítil og yfirleitt er hlaðið yfirvinnu á þá lögreglumenn sem starfa fyrir. Það er auðvitað kærkomið að fá mikla yfirvinnu vegna þess að launin eru ekki of há en þessi yfirvinna getur einnig verið mjög bagaleg fyrir fjölskyldufólk ef um það er að ræða.

Það vekur athygli að lögreglumenn eiga að fá að starfa til 70 ára aldurs og ég tel það umhugsunarvert hvort það sé rétt stefna fyrir þetta starf, ekki síst nú á tímum vaxandi atvinnuleysis sem virðist vera allt að því viðvarandi.

Aðalvandinn í þessu máli um stöðu kvenna innan lögreglunnar er auðvitað sá að þær eru ekki í valdastöðum. Það er engin kona yfirlögregluþjónn og engar konur eru háttsettar deildarstjórar og þetta er auðvitað bara eins og eitt nýtt sviðið í viðbót. Ef konur eru ekki í stjórnunarstörfum er ekki hugað að breytingum á starfsfyrirkomulagi þannig að það henti konum. Mér er kunnugt um að það mun vera einn lögreglustjóri á landinu sem er kona sem hefur sýnt allt önnur viðhorf t.d. um það hvort möguleiki sé að breyta vaktafyrirkomulagi og öðru slíku innan lögreglunnar. Ég vil því hvetja hæstv. dómsmrh. til þess að koma áðurnefndum starfshópi í gang og helst að leyfa honum að koma með tillögur sínar áður en afgreiðslu frv. er lokið þannig að það verði hægt að gera eitthvað til að tryggja betur að störf kvenna og staða kvenna innan lögreglunar lagist og að konum innan lögreglunnar fjölgi.