Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 12:11:12 (4620)

1996-04-12 12:11:12# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[12:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil segja það fyrst að ég er fylgjandi frv. í meginatriðum. Ég tel að í heild sé það til bóta og full ástæða sé til þess að styðja frv. þótt kannski megi sníða af því ýmsa skafanka í meðferð nefndarinnar. Ég get ekki séð það séu mörg atriði sem ekki er tekið á, a.m.k. út frá þeirri takmörkuðu þekkingu sem ég hef á málinu. Þó eru ýmis atriði sem ég vildi aðeins spyrja hæstv. dómsmrh. út í eða vekja athygli nefndarinnar á.

Í b-lið 2. mgr. er fjallað um hvað gerist þegar kæra berst á hendur lögreglumönnum vegna þess að þeir hafa gerst brotlegir í starfi. Þá er sérstök lögreglurannsóknardeild sett upp til þess að kanna það. Þótt ég viti að það sé tekið með svipuðum hætti á þessum málum víða erlendis er ég ekki alveg sannfærður um að þetta sé rétt aðferð. Er rétt að lögreglan rannsaki sín eigin brot með þessum hætti? Er ekki betra fyrir alla aðila, bæði þá sem lenda í því að fá slíka kæru á sig og fyrir lögregluliðið í heild að tekið verði með einhverjum hætti öðrum á þessu, t.d. að slík mál yrðu falin forsjá ríkissaksóknaraembættisins sem tæki þá ákvörðun um það hvernig ætti að vinda málunum fram og rannsaka þau til hlítar.

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur horfið úr salnum og það eru nokkrar spurningar sem ég vildi gjarnan víkja til hans en ég vænti þess þá að hans ágætu starfsmenn og fulltrúar komi þeim til hans. Ég sé að í 7. gr. frv. þar sem fjallað er um starfssvæði lögreglu er búin til heimild til þess að ríkislögreglustjóri geti vikið frá hefðbundnum starfssvæðum lögregluliðsins. Í 4. tölul. a segir, með leyfi forseta: ,,Ríkislögreglustjóri getur ákveðið að höfðu samraði við lögreglustjóra að lögreglulið í einu umdæmi skuli tímabundið gegna lögreglustörfum í öðru umdæmi og ákveður þá jafnframt hver skuli fara með stjórn þess.``

Ég velti því fyrir mér hvað hér er átt við, herra forseti, og hversu víðtæk heimildin er sem hér er verið að skapa. Er með þessum hætti verið að fara fjallabaksleið að því að sameina lögreglusvæði? Eru menn að gefast upp í þeirri jákvæðu viðleitni sem hefur borið á hjá hæstv. dómsmrh. á síðustu 6--7 árum að fækka sýslumannsumdæmum og stækka þar með umdæmi þeirra og lögregluumdæmin líka? Eru menn að fara þarna krókaleið að því marki eða hvað er það nákvæmlega sem átt er við með þessu. Ég vildi gjarnan að hæstv. dómsmrh. skýrði það út fyrir þeim fákunnandi þingmanni sem hér stendur hvers konar tilvik gætu leitt til þess að nauðsynlegt væri að virkja þessa heimild ríkislögreglustjóra.

Mér finnst líka merkilegt að sjá í 9. gr. fjarskylt mál til umræðu þar sem því eru gerðir skórnir að í undantekningartilvikum geti dómsmrh. falið öðrum starfsmönnum lögreglunnar lögregluvald tímabundið eða látið aðra aðila utan lögreglunnar fara með handhöfn lögregluvaldsins. Ég get ekki skilið 2. tölul. 9. gr. sem fjallar um handhafa lögregluvaldsins öðruvísi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Dómsmrh. er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum lögreglu lögregluvaldið tímabundið`` og svo kemur: ,,eða til að sinna sérstökum verkefnum.``

Mér finnst þetta loðið og vil gjarnan fá frekari útskýringu á þessu, herra forseti.

[12:15]

Í 11. gr. er fjallað um mál sem hefur verið mjög ofarlega á baugi á þessum vetri. Þar er verið að ræða með hvaða hætti lögregluliðið getur komið að forvörnum. Nú vitum við að þetta er málaflokkur sem lögregluliðið sjálft og fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu leggja mikla áherslu á. Það hefur verið lofsvert að sjá hvernig lögregluliðið hefur haft ákveðið frumkvæði til þess að efla forvarnir gegn fíkniefnum, hvernig hluti lögregluliðsins hefur t.d. tekið upp hjá sjálfum sér að fara í aðgerðir til þess að efla andúð unglinga og ungs fólks á fíkniefnum. Ég bendi t.d. á hið víðkunna Lögguband, hljómsveit lögreglumanna sem hefur gert garðinn frægan í mörgum félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er allt saman mjög jákvætt. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að taka fastar á þessu. Það segir í 11. gr. að lögreglan skuli sérstaklega vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefast. Ég held að það hefði verið ástæða til þess að færa sig neðar í kerfið og í staðinn fyrir að segja; menntamálayfirvöldum, að segja hreinlega; vinna með skólastjórnum, vinna með skólayfirvöldum. Sú skylda yrði þá nánast lögð á herðar lögregluliðinu að það ætti að vinna með þessum grunneiningum í menntakerfinu eftir því sem föng gefast til þess að efla forvarnir.

Tengt þessu er síðan það í 18. gr. sem varðar afskipti af börnum. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af börnum yngri en 16 ára sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra eða velferð er alvarleg hætta búin ...`` Mér þykir vera veruleg brotalöm í þessari litlu grein. Þarna er um að ræða heimild til lögreglunnar til þess að hafa afskipti af börnum sem eru stödd þar sem heilsu þeirra eða velferð er hætta búin. Ég legg þann skilning í það öryggi sem borgurum á að vera tryggt með starfsemi lögregluliðsins að þarna eigi ekki að vera heimild heldur skylda. Ég tel að í 18. gr. eigi að standa: ,,lögreglu er skylt``. Ég tel að við borgarar þessa lands eigum að geta treyst því að ef sú staða kemur upp að lögreglulið verður þess áskynja að börnin okkar eru stödd á einhverjum þeim stöðum eða í aðstöðu þar sem velferð þeirra er hætta búin þá á lögreglan ekki að hafa heimild til þess að grípa í taumana heldur á henni að vera skylt að gera það. Ég er sannfærður um að þegar hæstv. ráðherra kannar þetta mál þá er hann mér sammála um það.

Í 20. gr. er reifuð skylda okkar borgaranna til þess að veita lögreglu aðstoð við sérstakar aðstæður. Ég kann þessu ákvæði vel. Ég tel að það eigi að vera skylda borgaranna að hlýða kvaðningu lögreglu ef það koma upp sérstakar aðstæður, þegar lögreglulið þarf á aðstoð borgaranna að halda til þess að leysa úr skyndilegum vanda. Þar segir hins vegar, með leyfi forseta: ,,Maður er skyldur til að hlýða kvaðningu lögreglu ef hann getur veitt aðstoð án þess að stofna lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu.`` Í fljótu bragði virðast þetta vera fullkomlega eðlilegar forsendur en ég velti fyrir mér hver eigi að meta þetta. Er það mannsins sjálfs að meta það hvort hann stofnar lífi eða heilbrigði sínu í hættu? Gefum okkur síðan að við þessa kvaðningu lögreglunnar gerist það að viðkomandi borgari verður fyrir lemstrun, hlýtur áverka, kannski varanlega örorku. Þýðir þá þetta ákvæði að hann hefur ekki bótarétt vegna þess að það var hans að meta hvort hættan sem hann stofnaði sér í var slík að það kynni að leiða til þessarar lemstrunar? Ég held að þarna sé nauðsynlegt að málið verði skoðað betur og byttur settar undir þennan leka sem mér sýnist þarna vera vegna þess að ákvæðið verður að vera þannig að það fæli ekki fólk frá því að bregðast vel og jákvætt við slíkri kvaðningu lögregluyfirvalda.

Þetta er í 1. mgr. 20. gr. en ég held líka að 2. mgr. 20. gr. sé ekki nægilega skýr. Það er talað um að þeir sem eru kvaddir lögreglunni til aðstoðar og fara þá með lögregluvald meðan þeir gegna viðkomandi verki njóti sömu verndar og aðrir lögreglumenn. Þetta er að mínu viti ekki nægjanlega skýrt í greinargerðinni, að því er tekur til bótaskyldu og líka til bótaréttar þeirra. Það er eitt enn sem við þurfum líka að velta fyrir okkur. Lögreglumenn sem kveðja til almenna borgara til að fara með lögregluvald við tilteknar aðstæður hafa engar forsendur til að meta hvers konar menn þeir eru að kveðja sér til liðsinnis. Hvað ef aðili sem kvaddur er á þennan hátt til að inna af hendi lögregluskyldur er boli? Hvað ef hann veldur alvarlegum áverka? Hver er þá bótaskyldur? Er það viðkomandi borgari sem gegnir tímabundnu lögreglustarfi eða er það lögregluliðið og þar með ríkið? Það er nauðsynlegt að þetta sé á hreinu til þess að lögin hafi skilgreint að hverju við borgararnir erum að ganga þegar við bregðumst jákvætt við tilmælum lögreglu á þennan hátt.

Ég bendi á að í V. kafla, 30. gr. er einmitt gerð sú krafa til ríkissjóðs að hann bæti lögreglumönnum líkamstjón og munatjón eftir því sem þeir sæta því vegna starfsins. Þetta gildir væntanlega líka um okkur borgarana sem gegnum tímabundnum lögreglustörfum. En hvar, herra forseti, er í frv. að finna ákvæði um bótaskyldu ríkissjóðs eða viðkomandi einstaklings sem kann að verða valdur að áverka og skaða þegar svona aðstæður koma upp?

Ég held líka, herra forseti, að í 31. gr. þar sem fjallað er um bann við verkföllum sé nauðsynlegt að skoða orðalag málsgreinarinnar til hlítar. Nú er mér að vísu ljóst að lögreglumenn sjálfir gerðu samning um að afsala sér verkfallsrétti. Ég vænti þess að þeim hafi einhvern veginn verið bætt það upp en þeir eru auðvitað aðilar að heildarsamtökum. Hvað þýðir 31. gr.? Þýðir hún það að þeir verði að draga sína fulltrúa út úr stjórnum heildarsamtakanna þegar verið er að ræða þvingunarúrræði sem verkalýðshreyfingin hefur lögmætan rétt til að grípa til við sérstakar aðstæður?

Síðan, herra forseti, kem ég að 32. gr. sem er verulegur agnúi á lögunum að mínu viti. Af því að hæstv. dómsmrh. er kominn í salinn vildi ég gjarnan eiga við hann nokkurn orðastað um hana. Þar er lagt bann við því að lögreglumönnum sé heimilt að vinna hlutastörf eða önnur launuð störf í þágu opinberra stofnana, einkafyrirtækja eða innan þeirra eigin sjálfstæðra fyrirtækja. Þetta er kannski allt gott og blessað. En veltum því fyrir okkur af hverju sú staða kemur upp að menn taka sér slík störf fyrir hendur. Það er væntanlega vegna þess að kjörin sem við höfum tryggt þeim í gegnum samninga eru það óburðug að þeir verða með einhverjum öðrum hætti að afla fjár til að sjá sjálfum sér og sínum farðborða. Því miður hefur það verið lenska í þjóðfélagi okkar að menn hafa þurft að hafa með höndum önnur störf til þess að koma sér upp þaki yfir fjölskyldur sínar. Og hverjir eru það, herra forseti, sem lögreglunni er mestur akkur í að fá til starfa? Ég rakst á það í einhverjum af þessum plöggum sem frv. tengjast að yfirmenn liðsins vilja helst fá ungt fólk sem er komið með fjölskylduábyrgð. Það er þetta unga fólk sem þarf peninga til að koma sér fyrir í samfélaginu. Það er þess vegna sem þetta fólk tekur að sér önnur störf. Ég er á móti þessu ákvæði. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Hvaða rök liggja að því að þetta er tekið upp? Forsendurnar fyrir spurningu minni eru þessar: Mér þykir lögregluliðið standa sig bærilega og meira en það, inna vel af höndum sín störf. En ég veit líka að könnun hefur verið gerð á störfum þeirra utan lögreglunnar og það kemur í ljós að helmingurinn, a.m.k. í Reykjavík, hefur með höndum einhvers konar störf sem ekki tengjast lögregluliðinu. Og ég held að það sé hjá talsverðum hluta þar sem jafnvel meiri hluti teknanna kemur úr öðrum aukastörfum. Þannig að þetta þarf að skoða. Ég spyr líka hinn vísa lagaref í stóli hæstv. dómsmrh.: Er ekki með því að lögbinda þetta svona verið að svipta lögreglumenn sem nú eru í starfi þeim rétti sem þeir nú hafa til þessara aukastarfa og þar með verið að taka frá þeim réttindi sem er hægt að segja að séu fémæti? Verður ekki að bæta þeim það upp ef þetta verður gert að lögum? Má ekki segja kannski með grófri túlkun að þetta jaðri við það að vera upptaka á réttindum sem eru ígildi eignar? Þetta þurfum við að skoða.

Herra forseti. Ég er náttúrlega einn af þeim mönnum sem telja að allir eigi að vera jafnir burt séð frá því hvernig þeir eru vaxnir, þótt ég yfirleitt dragi taum þeirra digru. En ég tek eftir því að fyrir utan það að sú krafa sé gerð sem ég tel að yfirveguðu máli að sé skiljanleg, að lögreglumenn séu andlega heilbrigðir og líkamlega, að það á að setja í reglugerð ákvæði um lágmarkshæð lögreglumannsefna. Napóleon hefði aldrei orðið lögreglumaður á Íslandi en hann hafði líka frægan lögreglustjóra sem bækur voru skrifaðar um. Af hverju þarf að setja lágmarkshæð lögreglumannsefna í reglugerð? Af hverju þarf þess? Það vill svo til að þegar ég var undir handleiðslu Sjálfstfl. í líkamsrækt, m.a. hv. þm. Tómasar Inga Olrich, bar það oft við að við sáum afar smávaxna menn afrenda að afli sem hefðu getað jafnhattað jafnvel þann þingmann sem hér stendur og sennilega hæstv. dómsmrh. með annarri hendi. Eru þessir menn ekki hæfir til þess að vera í lögregluliðinu af því þeir eru svo smávaxnir? Hver á að vera lágmarkshæðin? Verður t.d. ekki að vera alveg tryggt að hæstv. dómsmrh. sé þeirrar hæðar að hann geti orðið lögreglumaður? Eigum við kannski að setja í lögin að lágmarkshæð lögregluefna skuli hverju sinni vera hin sama og hæð dómsmrh. hæstv. svo tryggt sé að hann uppfylli eigin hæðarkröfur?

Herra forseti. Að því er varðar einn af þessum síðustu köflum sem tengist Lögregluskóla ríkisins verð ég að segja að það kemur mér á óvart hvað gerðar eru strangar kröfur til þeirra sem eiga að vera teknir í þennan skóla. Ég sé að samkvæmt frv. þurfa lögreglumenn t.d. fyrir utan að hafa gott vald á íslensku að hafa gott vald á einu Norðurlandamáli auk ensku eða þýsku. Ég tel að það útiloki nú þegar a.m.k. helming þingheims þegar kemur að því að verða lögreglumaður. Ég er ekki að lasta þetta. Mér þykir þetta hið ágætasta mál. Það sem ég vildi segja hins vegar varðandi Lögregluskólann að lögregluliðið hefur, þ.e. lögreglumennirnir sjálfir, jafnan haft nokkurt frumkvæði þar. Ég man ekki betur, þori þó ekki að fullyrða það, en að Lögregluskólanum hafi upprunalega verið komið á laggirnar m.a. vegna frumkvæðis og þrýstings úr röðum lögreglumannanna sjálfra. Þess vegna sakna ég þess, herra forseti, að samkvæmt þessu ákvæði sem fjallar um stjórn Lögregluskólans, það er 37. gr., er ekki gert ráð fyrir því að lögreglumenn eða lögreglumannafélagið hafi fulltrúa í stjórninni. Mér finnst það ekki alveg rétt. Ég tel að samtök lögreglumanna eigi að hafa fulltrúa í skólanefndinni vegna þess að þeir hafa verið sá corpus sem hefur sennilega fyrst og fremst ýtt á um framfarir í starfsmenntun lögreglumanna.

[12:30]

Það er sitthvað fleira sem ég vildi ræða um Lögregluskólann. Þó að ég lasti ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem eiga að fá inngöngu í skólann velti ég því fyrir mér hvort þetta sé rétt aðferð til þess að tryggja það að inntaka nýrra manna sé nægilega trygg. Þegar ég segi inntaka nýrra manna á ég við inntöku nýrra góðra manna. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti, en ég segi það að þetta frv. er að mínu viti ágætt frv. og ég tel að það eigi að vinda bug að því að breyta þeim örfáu atriðum sem ég nefndi hérna og síðan eigi þingið að reyna að samþykkja þetta á þessu vori.