Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:50:03 (4680)

1996-04-12 18:50:03# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:50]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég ætla einnig að gera að umtalsefni það frv. sem hv. þm. Kristján Pálsson kom áðan inn á og gagnrýndi harðlega. Ég get í meginatriðum tekið undir ræðu hans. Mér finnst að verið sé að stíga skref aftur á bak vegna þess að ég hef staðið í þeirri trú að það væri ríkjandi skoðun og æ meir ríkjandi skoðun á síðari tímum að meðferð og nýting sjávarfangsins, þessarar sameignar þjóðarinnar, sé sem allra best. Þarna er verið að slaka á kröfunni um sem besta nýtingu auðlindarinnar sem ég get ekki séð annað en sé í andstöðu við þessa eðlilegu þróun, sem hefur komið til af ýmsum ástæðum, m.a. vegna umhverfissjónarmiða. Mér virðast rökin fyrir frv. vera mjög ósannfærandi. Í skýrslu sem fylgir frv. um fullvinnsluskip er bent á helstu ókostina við að hirða allan aflann. Þar er bent á að þeir eru þeir helstir að fullvinnsluskipin eru mörg illa undir það búin. Þau skip sem hafa til þess viðeigandi búnað hafa ekki náð að vinna nægilega verðmætar afurðir úr úrganginum til að geta staðið undir kostnaði vegna frystingar, pökkunar, geymslu, löndunar og flutnings. Bent er á að mörg skipanna hafi ekki búnað eins og frystitæki til að frysta hausa til viðbótar við annan afla, geymslurými sé takmarkað, auk þess sem meira umstang sé við að vinna frosna hausa sem skipin komi með að landi o.s.frv. Mér sýnist að hér sé fyrst og fremst verið að telja upp rök sem eru nánast efnahagsleg rök og þess eðlis að skipin séu ekki nægilega búin til að taka aflann. Ég sé ekki jafnsterk rök á hinn veginn að þetta þjóni á einhvern hátt öðrum hagsmunum.

Ég varð líka undrandi þegar ég las þetta frv. með umhverfissjónarmið í huga. Því er haldið fram í skýrslunni að öllum sem nefndin ræddi við hafi borið saman um að losun á hausum, hryggjum og slógi í hafið hefði að jafnaði enga mengun í för með sér. Ég hef ekki rekið mig á það í skýrslunni hverjir það eru sem nefndin talaði við. Burt séð frá því þá stóð ég í þeirri trú að þessu væri öfugt farið og þá rak mig minni til ráðstefnu sem ég var á fyrir nokkrum árum í Noregi um efnahagsbrot þar sem m.a. komu til umræðu brot á lögum um meðferð auðlindarinnar í sjónum. Þar voru að mér fannst leiddar að því sterkar líkur að þetta væri mengunarvaldur, þetta gæti eyðilagt lífríki sjávar þar sem þetta væri gert í miklum mæli. Nú má vera að það séu aðrar aðstæður við Noregsstrendur en hér sem valdi því að hættan sé ekki sú sama hér og þar. En mér þótti frv. öfugsnúið við það sem maður hefur álitið að væri almennt stefnan um meðferð auðlindarinnar. Af því að framsöguræða hæstv. ráðherra var í styttra lagi vildi ég gjarna að hann gerði nánar grein fyrir þeim rökum sem liggja að baki því að frv. er lagt fram og hvort það séu einhver önnur rök sem vega þyngra en þau sem snúa beinlínis að efnahagslegum aðstæðum og búnaði skipanna sem mér þykja fyrst og fremst vera fjárhagsleg rök þeirra sem gera þau út.