Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:54:35 (4681)

1996-04-12 18:54:35# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:54]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Svo virðist vera sem þetta litla mál, sem hér er tekið til umræðu mjög síðla dags, sé þess eðlis að ég leyfi mér að segja að hluti þess frv. stappar nærri hneyksli. Ég vek sérstaka eftirtekt á því, herra forseti, að samkvæmt athugasemdum við lagafrv. sem fjallar um fullvinnslu botnfiskafla í veiðiskipum kemur fram að frv. var samið af fimm þingmönnum. Þeir eru allir þingmenn stjórnarflokkanna og þrír af þeim hafa með einhverjum hætti tengst útgerð og eru þar af leiðandi í hagsmunatengslum við þetta mál sem fjallað er um. Það þarf því engan að undra að niðurstaðan er sú að þessir ágætu starfsfélagar okkar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Stefán Guðmundsson, Vilhjálmur Egilsson og Árni R. Árnason leggja til gjörbreytingar sem allar miða að því að draga úr kostnaði stórútgerðarinnar og heimila henni að fleygja hluta af aflanum. Þetta er í algjörri andstöðu við öll þau viðhorf sem eru að ryðja sér til rúms í greininni í dag. Þetta er í andstöðu við ágætt frv. sem hæstv. sjútvrh. lagði fram fyrr á þessu þingi og var samþykkt á síðasta ári og fjallaði um umgengni um auðlindir sjávar. Ég er því mjög undarandi á því að hæstv. sjútvrh. skuli flytja þetta mál inn í þingið. Ég er líka undrandi á því hvernig það er búið í hendur þingsins af nefnd fimm stjórnarþingmanna. Stjórnarandstaðan fær ekki að koma nálægt málinu og þrír þingmannanna hafa beinna hagsmuna að gæta með einum eða öðrum hætti í sjávarútvegi. Þetta eru ekki vinnubrögð sem eru bjóðandi þinginu, herra forseti.

Ég ætla ekki að segja mikið um þetta frv. að öðru leyti, herra forseti. Ég er algjörlega sammála þeirri ítarlegu gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni. Ég tel að það sé þinginu til vansa að samþykkja frv. sem þetta. Í orði kveðnu virðist sem hér sé verið að færa stöðu fullvinnsluskipa til sama stigs og sama umhverfis og annarra fiskiskipa en auðvitað hefði átt að fara hina leiðina. Það hefði átt að breyta yfir langan tíma kröfum sem gerðar eru til annarra skipa. Færa þær kröfur til jafns við kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögunum frá 1992 til fullvinnsluskipa.

Það er auðvitað alveg rétt að þetta hefur með vissum hætti sett fullvinnsluskipunum aðrar rekstrarforsendur og útgerðin hefur kvartað yfir því. Ég var í ríkisstjórninni sem lagði fram stjórnarfrumvarp sem varð að lögum sem nú á að breyta. En það var ekki liðinn mánuður frá því að það frv. var gert að lögum þegar vinir þessara ágætu nefndarmanna --- og ég segi vinir vegna þess að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, einn nefndarmanna, talaði fyrr í dag um þessa menn sem vini sína, ,,vinir mínir í LÍÚ`` --- ráku upp kvein sem að lokum urðu ramakvein út af þessum kröfum.

Ég tel að það væri út af fyrir sig allt í lagi að setja fullvinnsluskipunum skilyrði sem gerðu það að verkum að rekstrarforsendur þeirra væru svolítið öðruvísi að þessu leyti til en annarra skipa. Það má ekki gleyma því, herra forseti, að rekstrarforsendur þeirra eru nú þegar talsvert auðveldari eins og bent hefur verið á m.a. af Samtökum fiskvinnslustöðva en annarra skipa og fiskvinnslunnar í landi þannig að það er allt í lagi þó settar verði svolitlar kvaðir á þá þarna. Það má heldur ekki gleyma því að þetta er sá hluti útgerðarinnar sem hefur sogið til sín mestan kvóta og sem hefur góðu heilli skilað langmestum hagnaði. Ég tel það alveg sjálfsagt mál að útgerðin verði knúin til að hirða allan afla eins og gert var ráð fyrir í lögunum frá 1992. Ég harma þetta frv. Ég tel að auðvitað eigum við að stefna að því að nýta sem mest af aflanum og fá sem mest úr honum. Þetta er auðvitað ein röksemdin fyrir því að það eigi að reyna að styrkja smábátaútgerðina vegna þess að þar er allt saman hirt, þar búa menn jafnvel til milljónatugi á hverju ári úr sundmögum sem er hent eins og flestur annar afskurður og fiskpartar sem ekki eru beinlínis nýttir í maskínum stóru togaranna.

Herra forseti. Ég lýsi algerri andstöðu við þetta mál.