Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:26:02 (4693)

1996-04-12 19:26:02# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls er skondinn og speglast í þeirri staðreynd að í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að í þessa nefnd sem við höfum rætt um hafi sjútvrh. skipað með bréfi 20. júlí 1990. Frv. er í stíl við þetta og hið efnislega innihald þess vegna þess er að öðrum þræði rugl alveg eins og þetta ártal í grg. sem er líka tómt rugl. Við vitum að þá var hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ekki einu sinni orðinn þingmaður þó að ljóst sé að hann eigi eftir að vera þingmaður afskaplega lengi. En ég verð samt sem áður að segja það að margar ræður hef ég hlýtt á frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Sumar hafa verið miðlungi góðar, sumar mjög góðar en sú sem hann flutti áðan var firnavond. Hann er hins vegar svo vel af guði gerður að hann kann að skammast sín og ég fann að það bólaði á djúpri iðrun einhvers staðar í sálarkimum hans vegna þess að hann veit að svona eiga menn ekki að starfa. Ef hæstv. ráðherra, Þorsteinn Pálsson, væri samgrh. og þyrfti að setja niður nefnd sem skipti verulega miklu máli fyrir flugmál og afkomu flugfélaga mundi þá nokkurn tímann þýða fyrir hann að reyna að setja niður fimm manna nefnd þar sem þrír fulltrúanna væri úr stjórn Flugleiða? Aldrei. Hann yrði kaghýddur og hrakinn úr embætti. En hérna er um að ræða nefnd sem er skyld slíkum hugarburði. Þar er fimm manna nefnd og þar eru þrír þingmenn í henni sem allir tengjast með einum eða öðrum hætti útgerð. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur lýst því hversu mikil vinátta ríkir með honum og stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna og sjálfur er hann útvegsmaður. Mér er ekki kunnugt um það hvort hann hefur beinna hagsmuna að gæta í tengslum við þetta en ef svo er segi ég hiklaust: Þá er hann fullkomlega óhæfur til þess að sitja í slíkri nefnd og gera tillögur um þetta mál. Ég held ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að tveir hv. þm., Vilhjálmur Egilsson og Stefán Guðmundsson, sitji í stjórnum stórra útgerðarfyrirtækja þar sem eru nokkuð mörg stór skip, sem fara á fjarlægð mið, og hefðu þurft að hirða allan afla samkvæmt lögunum frá 1992. Mér finnst ekki með nokkru móti hægt að bjóða fólki upp á, þingheim né þjóðinni, að verið sé að leggja fram frv. sem menn sem eru hreinir hagsmunaaðilar semja. Það bara gengur ekki. Slík vinnubrögð eru engum bjóðandi. Eitt er það þó að hæstv. ráðherra búi til nefnd sem er skipuð vinum hans úr stjórnarliðinu en auðvitað hefði niðurstaðan orðið öll önnur ef nefndin hefði ekki verið svona einlit. Það er engin spurning um að hún hefði verið talsvert frábrugðin þessari ef þarna hefði ekki verið meiri hluti hagsmunaaðila. Það gagnrýni ég harkalega og ræða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar var vond. Með svolítilli afbökun má draga hana saman í eftirfarandi fullyrðingu: Ég er kapítalisti, þess vegna fleygi ég fiski. Hv. þm. sagði auðvitað er ekki komið með neitt að landi nema sem við græðum almennilega á. Ef sú fullyrðing er rétt og sá andi hinn rétti sem birtist í ræðu þingmannsins. þá komum við fyrst og fremst með það að landi sem við græðum mest á. Hvað er það sem við viljum græða mest á í dag? Er það ekki stór þorskur? Eigum við þá ekki að henda smærri þorskinum? Hvernig er með þessi skip sem fullvinna aflann um borð fjarri ströndum landsins? Ja, vélarnar eru tiltölulega einhæfar, þær geta bara tekið ákveðið stærðarbil. Hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nokkru sinni heyrt sjómenn staðhæfa að það sé ekki bara hent litlum fiski heldur líka stórum fiski um borð í þessum togurum af því að vélarnar geta ekki tekið fisk nema á ákveðnu stærðarbili? Ég er alveg sannfærður um það að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur oft heyrt það. Ég man ekki betur en einhvern tímann hafi verið haft eftir honum þegar hann var að gagnrýna núverandi fiskveiðistefnu og útreikninga Hafrannsóknastofnunar að tugum þúsunda af þorski væri fleygt í hafið einmitt út af þessu.

[19:30]

Herra forseti. Mér þykir sem þessum glæsilega eldhuga að vestan, sem alla jafna er hér með skemmtilega rökfræðilega leikfimi, sé nú brugðið. Það er ekkert vit í þessu. Ég ætla ekki að halda því fram sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sagði áðan að af þessu stafaði mengun en athugasemdir hennar voru alveg lögmætar. Það er eðlilegt að menn spyrji sig þessarar spurningar. Ég tek fram að ég tel að svo sé ekki. Hins vegar þegar þingmenn líta yfir listann sem segir hvaða aðilar hafi komið á fund nefndarinnar þá eru þar ekki margir sem geta sagt eitthvað um það hvernig bakteríur éta upp fiskileifar. Benedikt Valsson hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands hefur ekki hundsvit á bakteríum og ekki heldur Sveinn Jónsson. Mér þykir þetta því ekki góður málstaður og ítreka það aftur að það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á það að hér kemur fram frv. sem hefur þrjár aðaltillögur og tvær þeirra miða alveg klárlega að því að draga úr rekstrarkostnaði stórútgerðarinnar og það eru fulltrúar útgerðarinnar sem skipa meiri hluta nefndarinnar sem leggur málið fram. Svona vinna menn ekki á Alþingi Íslendinga í dag. Þetta gekk kannski fyrir 25 árum en ekki í dag.