Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:33:51 (4695)

1996-04-12 19:33:51# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er með eindæmum merkilegur ræðumaður. Enda þótt ég hafi ekki mikið vit á fimleikum þá minnir mig að þar sé eitt stökk sem heitir að hoppa í gegnum sjálfan sig. Það bragð lék hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hérna áðan. Hann kemur hingað og segir: Ég hef haldið miklu fleiri ræður en Össur Skarphéðinsson um það hvað það er mikil sóun fólgin í fiskveiðikerfinu en svo kemur hann og leggur fram tillögur sem leiða til enn meiri sóunar. Hvers konar málflutningur er þetta? Þessi málflutningur er ekki bjóðandi Sjálfstfl., hann er allra síst bjóðandi hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og hann á ekki að kveðja sér hljóðs aftur vegna þess að hann talar ekki af viti hér í kvöld. Það skilur hann enginn nema hinir framliðnu. En svo vill til, herra forseti, að ég er núna að fara á fund hjá Sálarrannsóknafélaginu þar sem ég á að halda ræðu og ég býð hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að koma þar. Þá getur hann reynt að spjalla þar um þessar röksemdir sínar við draugana.