Fyrsti vaxtadagur húsbréfa

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:13:58 (4704)

1996-04-15 15:13:58# 120. lþ. 118.2 fundur 242#B fyrsti vaxtadagur húsbréfa# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:13]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. félmrh. með gagnrýni og fyrirspurn hvað varðar vinnureglu Húsnæðisstofnunar um upphafsvaxtadag húsbréfalána.

Þegar kaupandi gerir tilboð í húseign með húsbréfaláni sem byggir á greiðslumati hefur Húsnæðisstofnun ákveðið að upphafsvaxtadagur þess sé dagsetning tilboðs. Það hefur gerst að Húsnæðisstofnun hefur hafnað greiðslumati lánastofnunar og það hefur tekið mánuði, tvo og jafnvel þrjá að fá Húsnæðisstofnun til að viðurkenna greiðslumat. Þannig hefur stofnunin komið í veg fyrir viðskipti í umræddan tíma.

Telur hæstv. félmrh. eðlilegt að vextir í umræddu tilviki séu reiknaðir frá tilboðsdegi og kaupandi greiði þannig vexti af fjármunum sem hann hefur ekki haft afnot af? Í öðru lagi: Er hæstv. félmrh. tilbúinn að beita sér fyrir breytingu á þessari ómaklegu vinnureglu Húsnæðisstofnunar? Og í þriðja lagi: Er ekki eðlilegt að miðað sé við afgreiðsludag húsbréfaláns til kaupenda?