Bætur frá Tryggingastofnun

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:25:47 (4716)

1996-04-15 15:25:47# 120. lþ. 118.2 fundur 245#B bætur frá Tryggingastofnun# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mér finnst mjög athyglisvert það sem hæstv. ráðherra segir að það sé að beiðni Öryrkjabandalagsins og hagsmunahópa lífeyrisþega að ekki skuli vera breytt þeim reglum sem hér um ræðir, þ.e. endurgreiðslureglum um læknis- og lyfjakostnað því að stór hópur lífeyrisþega hefur búið við skertar greiðslur í tvo mánuði og það er fólkið sem er með mikinn lyfja- og lækniskostnað. Því finnst mér þetta mjög sérkennilegt ef það eru hagsmunahópar sem koma í veg fyrir að þetta fólk fái uppbót á sinn skerta lífeyri.

Ég vil líka vekja athygli á því að þessi niðurskurður og skerðing hjá lífeyrisþegum sem eru undir framfærslumörkum er algjörlega í bága við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem nú situr, ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl., þar sem segir að í stefnu ríkisstjórnarinnar sé að sett verði lög um almannatryggingar þar sem réttur þeirra sem raunverulega þurfa á bótum að halda verði tryggari en nú er. En það er nákvæmlega þveröfugt sem er að gerast í þessum málum, þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar.