Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:46:15 (4721)

1996-04-15 15:46:15# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ekki er liðið ár frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað 25% aflaregluna, þó með gólf upp á 155 þús. tonn sem við njótum í ár vegna þess að aflareglan hefði í upphafi fiskveiðiársins ekki gefið okkur svo mikið miðað við niðurstöðu vísindamanna.

Sú niðurstaða sem vísindamenn kynna okkur nú segir að miðað við 25% aflaregluna, stefnu ríkisstjórnarinnar, þá sé í lagi að taka þessi sömu 155 þús. tonn og það liggur fyrir, m.a. vegna umframveiði smábáta og vegna geymslu aflaheimilda milli ára að veiðin muni nálgast 170 þús. tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Samt er verið að tala um, aðallega af hálfu stjórnarliða, að hætta að fara eftir reglunni áður en hún hefur verið í gildi í eitt ár, svo að segja áður en á hana hefur reynt.

Sama á við varðandi Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þar breyttum við lögum fyrir síðustu jól til að örva úreldingu smábáta, en ekki líða nema þrír mánuðir og þá er öllum forsendum kollvarpað með því lagafrv. um stjórn fiskveiða, smábátafrv., sem ráðherra mælti fyrir á föstudaginn. Eru þetta þau vinnubrögð við stjórnun fiskveiða sem stjórnarliðar ýmsir telja líklegust til að skapa festu í umgjörð greinarinnar?

Hvað varðar það mál sem hér er nú í brennidepli, þá byggjum við, og við tókum ákvörðun um það fyrir löngu síðan, ákvarðanir um aflamark á tilteknum vísindalegum niðurstöðum. Í þeim vísindum eru sannarlega ýmis vafaatriði og menn greinir á um og menn geta tekist á um. En niðurstaða okkar í þingflokki Þjóðvaka er sú að það eigi að láta framtíðina og náttúruna njóta þess vafa sem nú er.

Það eru stórkostleg tíðindi að þorskstofninn skuli vera að styrkjast, að bæði vísindamenn og sjómenn geti verið sammála um þá niðurstöðu. En það er langt liðið á þetta fiskveiðiár. Það eru einungis fjórir og hálfur mánuður þar til nýtt fiskveiðiár hefst. Þá skulum við taka nýja ákvörðun. Þá gæti ríkisstjórnin, ef stuðningsmenn hennar hvetja til þess, breytt þeirri aflareglu sem hún hefur komið sér upp.