Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 16:04:07 (4729)

1996-04-15 16:04:07# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[16:04]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ágreiningur um það hvort á að auka þorskkvótann á þessu fiskveiðiári eða ekki. Mikill fjöldi sjómanna telur að auka beri kvótann, ástandið í sjónum sé gott, fiskgengd með allra besta móti. Undir þetta taka margir stjórnmálamenn, Landssamband smábátaeigenda, Samtök fiskvinnslustöðva og Farmanna- og fiskimannasambandið.

Á hinn bóginn eru svo forsvarsmenn annarra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, talsmenn Hafró og fleiri, stjórnmálamenn og ýmsir aðrir, sem telja að halda beri sig við ráðgjöf Hafró og að sú mikla fiskgengd sem nú er allt í kringum landið sé fyrst og fremst að þakka því að við höfum að mestu farið eftir þessari ráðgjöf að undanförnu. Þeir sem halda þessu fram eru að blekkja sjálfa sig og aðra. Það er ekki farið eftir þessari ráðgjöf nema á pappírnum. Það vita allir og viðurkenna flestir að það er veitt miklu meira af þorski heldur en kemur að landi. Honum er einfaldlega hent í stórum stíl, enda er það svo að sjómenn eru víðast á flótta undan þorski vegna skorts á aflaheimildum. Menn eru að reyna fyrir sér með ýmis veiðarfæri vegna kvótaskorts. Þeir leggja rauðmaganet og þeir leggja kolanet svo eitthvað sé nefnt, en það er alls staðar sama sagan: Þorskur og aftur þorskur. Og til að geta stundað sjó neyðast menn til að leigja þorskkvóta til að mæta meðaflanum og leigan á kvótanum er oft svipuð eða hærri en fæst svo fyrir þorskinn á markaðnum. Það er einmitt þetta tvennt sem er að gera út af við okkar fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvatinn til að henda fiski og svo þetta óhefta framsal sem oft er kallað kvótabrask. Á síðasta fiskveiðiári voru hvorki meira né minna en 162.200 þorskígildi flutt á milli aðila.

Herra forseti. Það hefur náðst samkomulag um veiðar krókabáta. Stærstu skipin hafa bjargað sér á ýmsum utankvótaveiðum. Eftir standa aflamarksbátarnir sem hafa orðið fyrir gríðarlegri skerðingu á undanförnum árum. Eftir viðtöl við fjölda sjómanna að undanförnu er ég sannfærður um það, hvað sem hv. þm. Ágúst Einarsson segir um þekkingarleysi okkar þingmanna, að það er áhættulaust að auka þorskkvótann nokkuð, t.d. um 10%, þ.e. 15 þús. tonn, og ég hvet hæstv. sjútvrh. til að gera það, en þó þannig að þessi viðbót verði óframseljanleg og komi aðeins til þeirra sem sækja sjó í alvöru en verði ekki notuð sem verslunarvara.