Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:50:38 (4770)

1996-04-16 13:50:38# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:50]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Á allra síðustu árum hafa komið fram með vaxandi þunga kröfur frá launþegum þessa lands um að jafna byrðar. Allir launamenn sem ég þekki eru meira en fúsir til að axla sinn hlut í að viðhalda velferðarkerfi okkar og leggja sitt af mörkum. En þegar gerð er úttekt á skattskránni og þar með framlagi ólíkra aðila til samneyslu, svíður sanngjörnu fólki það sem þar er að sjá.

Sama er að segja um þá staðreynd að einstaklingar með verulegar eignir og veruleg umsvif eru að borga svokallað vinnukonuútsvar á meðan launamaðurinn í næsta húsi greiðir af öllu sínu sína tíund. Í mörgum tilfellum er um að ræða að þeir sem eru í rekstri hafa stofnað eignarhlutafélag. Á fullkomlega löglegan hátt geta t.d. einyrkjar hagað eignarformi, launa- og arðgreiðslum á þann veg að þeir greiða sáralítil gjöld. Og sá þáttur, virðulegi forseti, á enn eftir að versna með því frv. sem rætt verður í dag, með þeim breytingum á skatti á arð sem í því felst. Í stað þess að unnið sé að því að gera skattskrána skýrari og opnari, gegnsærri hvað varðar að yfirlit fáist yfir framlag allra þjóðfélagsþegna til samneyslunnar, þá er gripið til eins konar feluleiks, reglugerð er sett sem lokar á eða skerðir umfjöllun í stórum dráttum.

Ég óska eftir að hæstv. fjmrh. hlýði á lokaorð mín þar sem hann hefur ekki hlýtt á þessi örfáu orð sem ég hef haft fram að færa. Ég skora á hæstv. fjmrh. að setja nú þegar í gang vinnu í fjmrn. sem hafi það að markmiði að skýrara yfirlit fáist yfir álögur allra skattgreiðenda, að það verði haft að leiðarljósi og jafnframt hvernig þær álögur verða til. Það er óþolandi að sett sé reglugerð sem dregur úr þeirri upplýsingaskyldu sem viðgengist hefur hér. Mér finnst undarlegt að fjmrh. setur reglugerð sem hann skýlir sér á bak við tölvunefnd í og ótrúlegt ef hann verður að lúta lögsögu tölvunefndar í þessu máli.