Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:58:33 (4773)

1996-04-16 13:58:33# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:58]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hlutverk tölvunefndar er að sjá til þess að ný tækni raski ekki friðhelgi einkalífsins um of. Það hlutverk er góðra gjalda vert. Hins vegar er það ekki gott mál ef það hlutverk kemur í veg fyrir að það sé hægt að fylgjast með skattsvikum eða það vanti það aðhald sem birting upplýsinga úr skattskrá gefur. Það atriði þarf nánari skoðunar við. Ég tek undir það. Birting upplýsinga úr skattskrá hefur verið til aðhalds og það veitir ekki af því í þessum efnum.

Hins vegar er það allt annað mál sem er ekki til umræðu hér að fjölmiðlar hafa kannski gjarnan birt lista um þá sem greiða hæstu skattana í stað þess hverjir greiða hin svokölluðu vinnukonuútsvör og gera úttekt á því, en það er önnur saga. Hitt er annað mál að það verður að búa svo um hnútana að það sé eðlileg upplýsingagjöf í þessu efni.

Ég er sammála því sem hefur komið fram við þessa umræðu að þetta mál þarf að taka sérstaklega til meðferðar og umræðu í tengslum við upplýsingalög sem eru í meðferð hjá allshn. þingsins. Það er t.d. viðurkennt af blaðamannastéttinni að sú löggjöf sé mikið framfaraspor. Þetta atriði, sem kemur beint inn á þá löggjöf, þarf að taka þar sérstaklega til umræðu. Ég vildi gjarnan leggja lóð mitt á vogarskálarnar til þess því að ég á sæti í þeirri nefnd og þetta mál er einmitt sérstaklega til umfjöllunar þar.