Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 21:42:46 (4930)

1996-04-17 21:42:46# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., GMS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[21:42]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Því er oft haldið fram að stjórnmálamönnum sé gjarnt að yfirbjóða hver annan með loforðum við kjósendur. Telst slíkt vart til tíðinda. Það hlýtur þó að teljast til tíðinda þegar yfirboðið felst í að auka álögur eins og hér er lagt til með tillögu að stóraukinni skattheimtu á sparifé alls þorra landsmanna. Flutningsmenn þessarar tillögu um skattlagningu á sparifé landsmanna, þar með talið eldra fólks og ellilífeyrisþega, eru hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir.

Í sjálfu sér kemur skattheimtugleði síðasttalinna tveggja hv. þm. ekki á óvart, en það veldur hins vegar vonbrigðum að jafnmikilhæfur og víðlesinn stjórnmálaforingi og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson skuli láta lokka sig til þátttöku í að ráðast með þessum hætti að þeim sem sýnt hafa ráðdeild og fyrirhyggju og lagt fyrir fé af launum sínum.

Spyrja má hvort skattheimtufrv. það sem hér er til umræðu gefi forsmekkinn að því sem að sé stefnt með hugsanlegu samstarfi A-flokkanna og Þjóðvaka. Sú stefna sem frv. boðar í skattheimtu á sparifé almennings í landinu er svo á skjön við þá þróun og umræðu sem á sér stað í nálægum löndum að um þetta samstarf þessara þriggja hv. þm. í þessu máli detta mér helst í hug ljóðlínur úr þjóðkvæðinu um Ólaf liljurós, þegar álfkonur fóru að seiða til sín Ólaf og sögðu:

  • Velkominn, Ólafur liljurós
  • gakk í björg og bú með oss.
  • Ólafur liljurós hafði að vísu vit á að ganga ekki í björg.

    Sú var tíðin að einn flm. skattafrv. þessa boðaði trúna á fjórfrelsið og þar með frjálsa fjármagnsflutninga milli landa. Getur það verið að sú trú sé öll gleymd og sá boðskapur sem þá var fluttur þjóðinni af miklum sannfæringarkrafti sé ekki lengur gjaldgengur? Þeim sem nú boða stórauknar skattálögur á almenning þarf að gera ljóst að Ísland er ekki lengur eyland í skattalegum eða efnahagslegum skilningi. Ég efa ekki að hv. flm. man enn að í hinu margfræga fjórfrelsi felast m.a. möguleikar fyrir einstaklinginn til að koma fjármunum sínum í vörslu í öðrum löndum sé honum íþyngt með óhóflegum skattakröfum. Fjármagnstekjuskattur upp á allt að 28% eins og hér er boðaður hlyti að leiða bæði til fjárflótta og þess að vaxtastig í landinu stórhækkaði. Það segir sig sjálft að ekki sitja þó allir við sama borð hvað það varðar að hafa aðstöðu til að verja sparnað sinn fyrir skattgleði stjórnvalda. Þeir sem búa yfir þekkingu geta alltaf komið fjármunum sínum fyrir þar sem skattaaðstæður eru hagstæðar. Þess vegna er skattheimtufrv. það sem hér er til umræðu fyrst og fremst frv. um gripdeild á sparnaði alþýðu landsins.

    [21:45]

    Almennt er viðurkennt að skattlagning á sparnað sé hæpin aðgerð frá þjóðhagslegu sjónarmiði og geti ef óvarlega er að staðið leitt til fjárflótta með þeim afleiðingum að verulega dragi úr fjárfestingu og vextir hækki. Flutningsmönnum virðist vera þetta ljóst því að í greinargerð með frv. er að finna eftirfarandi setningar. Þar segir:

    ,,Ekki er ólíklegt að skattlagning vaxtatekna jafnt sem annarra tekna muni leiða til þess að reynt verði að sniðganga skattlagninguna í einhverjum mæli ... Því hærri skattur þeim mun meiri hætta á undankomu og undanskoti.``

    Flutningsmenn telja hins vegar 28% skatt á vexti lágan skatt og ekki tiltökumál hvort tekin sé sú áhætta að sparnaður landsmanna flytjist frá Íslandi til Lúxemborgar og Sviss.

    En það er fleira sem vekur furðu þess sem kynnir sér frv. Innlánsstofnunum er ætlað að standa ríkissjóði skil á vaxtaskattinum og sérstaklega er tekið fram í því sambandi svo að ég vitni aftur í greinargerð með frv.: ,,Staðgreiðsluskil verði ekki sundurliðuð á einstaklinga og engin kvöð verði um sjálfvirka upplýsingagjöf fjármálastofnana um greidda vexti.``

    Bankarnir gefa þannig ekki upp hver greiðir hvað í fjármagnstekjuskatt heldur afhenda skattinn í einni summu rétt eins og verið væri að afhenda söfnunarbauk eftir guðsþjónustu. Samhliða þessu er ætlunin að hver einstaklingur hafi 40 þús. kr. frítekjumark. Mér er spurn hvernig flutningsmenn hyggjast haga eftirliti með því að frítekjumarkið verði ekki notað ótæpilega eins og stundum vill brenna við þegar aðgangur í tiltekin gæði er nánast frjáls. Frítekjumark samhliða nafnleynd frá bönkum mun leiða til endalauss skrípaleiks þeirra sem hafa aðstöðu og vilja til að standa í undanskoti og þeir eru víst ekki fáir því að það er sagt að einungis um þriðjungur af vaxtatekjum landsmanna skili sér inn á framtalseyðublöð. Með því kerfi frítekjumarks sem hér er lagt upp með geta t.d. hjón með þrjú börn skipt peningalegum innstæðum sínum niður á fimm nöfn og þannig tryggt sér ekki 40 þús. kr., ekki 80 heldur 200 þús. kr. í frítekjumark í stað þess 40 þús. kr. frítekjumarks sem einstaklingi stendur til boða. Í þessu felst óeðlileg mismunun eftir aðstöðu fólks.

    Ekkert er því til fyrirstöðu að sparifjáreigendur dreifi sparifé sínu á marga banka og sparisjóði og verði sér úti um 40 þús. kr. frítekjumark á hverjum stað. Hjónin með börnin þrjú geta þannig opnað reikning í 20 innlánsstofnunum, ég held að það séu reyndar 29 á landinu, 20 innlánsstofnunum, haft 5 reikninga í hverri stofnun og þannig tryggt sér með þokkalegu öryggi að losna við skattgreiðslur af vaxtatekjum upp á 4 millj. kr. (Gripið fram í: Miðað við þrjú börn.) miðað við þrjú börn, meðan aðrir þurfa að borga 1.200 þús. kr. í skatt af sömu vaxtatekjum. Undanskotið væri að sjálfsögðu lögbrot en svo er einnig um margar þær smugur sem menn nota engu að síður.

    Það er fleira sem stingur í stúf þegar frv. og greinargerð þess eru skoðuð. Skatturinn sem getur numið allt að 28% af vaxtatekjum er ætlað að skila skatttekjum upp á 1,7 milljarða þegar hann er kominn að fullu til framkvæmda. Nú er það svo að 1,7 milljarðar eru heilmiklir peningar sem munu án efa hafa áhrif til hækkunar vaxta vegna minna framboðs á lánsfé. Flutningsmenn virðast ekki hafa miklar áhyggjur af þessu því að í greinargerð frv. er sagt og vitna ég í greinargerðina, að auðvelt sé að benda á dæmi sem sýna að jafnhliða minni sparnaði heimilanna komi aukinn sparnaður hins opinbera. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég hélt að sá tími væri liðinn að í Alþfl. fyndust stjórnmálamenn sem teldu þjóðhagslegum sparnaði betur komið í höndum hins opinbera en í vörslu þess launamanns sem vann að því hörðum höndum að gera þennan sama sparnað mögulegan. En það er ljóst, svo skær getur verið hinn rauði logi álfkvennanna sem ég vitnaði til í upphafi, að bestu stjórnmálamenn láti glepjast. Það eru engir smápeningar sem frv. gerir ráð fyrir að sóttir verði til almennings. Helmingur af skattinum er sagður eiga að koma frá þeim sem hafa mesta greiðslugetuna, hinn helmingurinn eða 850 millj. kr. verða því teknar af sparnaði hins almenna launamanns því að frv. undanþiggur hvers konar félög frá greiðslu skattsins og gildir sú undanþága væntanlega jafnt hvort heldur um er að ræða tugmilljóna vaxtatekjur vinnudeilusjóðs Vinnuveitendasambandsins eða hinn víðfræga orgelsjóð Langholtskirkju svo að við tökum dæmi.

    Mér er vel ljóst að sá vilji er nokkuð almennur meðal fólks hér á landi að taka upp einhvers konar skatt á fjármagnstekjur og því hefur ríkisstjórnin lagt fram frv. til laga um fjármagnstekjuskatt. Það frv. er byggt á tillögum nefndar sem fulltrúar allra þingflokka stóðu að ásamt fulltrúum frá ASÍ og VSÍ. Frv. ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir einfaldara og meðfærilegra kerfi en frv. þeirra þremenninga. Í stað 28% jaðarskatts, sem hv. þingmenn leggja til að komið verði á, byggist frv. ríkisstjórnarinnar á því að lagður verði á 10% skattur. Þó ekki sé ástæða til þess að fagna aukinni skattheimtu í sjálfu sér er æðimikill munur á því hvort fólki er gert að greiða 10% eða 28% skatt af vaxtatekjum sínum.

    Ég hygg að flestir sparifjáreigendur muni láta skatt, sem er ekki hærri en 10%, yfir sig ganga án þess að hætta sé á fjárflótta úr landi eða kröfum um verulegar vaxtahækkanir. Hið sama er því miður ekki hægt að segja ef jaðarskattprósentan er 28%.

    Það er ekki hægt að láta hjá líða í þessu sambandi að nefna þá landlægu áráttu að leggja í sífellu á þjóðina nýja skatta og álögur. Oft er skattheimtan réttlætt með því að verið sé að koma á jöfnuði milli þegnanna en fáum virðist detta í hug að einnig sé hægt að ná jöfnuði með því að bæta kjör þeirra sem minna hafa í stað þess að draga alla með skattheimtu niður á sama lága kaupmáttarstigið. Hugmyndir að skattlagningu eru undantekningarlítið sóttar til skattkerfa í Danmörku og Svíþjóð og er engu líkara en margir þingmenn og þá ekki síður embættismenn hafi þá trú að guð almáttugur hafi búið til skattkerfi þessara landa og óþarfi sé að leita víðar fanga.

    Við þurfum að athuga að peningar eru eins og vatn. Hvort tveggja finnur sér glufur og það er ekkert náttúrulögmál að fjármagn streymi frá Íslandi til ávöxtunar erlendis. Ef rétt er á málum haldið og dregið úr skattagleðinni gætum við auðveldlega laðað að erlent fjármagn til vörslu hér á landi og skapað landi og þjóð tekjur og hálaunuð störf af þeirri vörslu. Í ágætri bók um hagfræði er komist svo að orði að hagkerfið þurfi stöðugt að hlaupa hraðar til þess eins að geta staðið í stað. Þá er átt við að stöðugt þurfi að auka við fjárfestinguna til þess að hægt sé að halda uppi fullri atvinnu.

    Skortur á víðsýni ríður oft við einteyming þegar samin eru frumvörp um skatta og álögur. Það er löngu vitað að mismunun í skattlagningu ólíkra sparnaðarleiða hér á landi hefur dregið úr vilja almennings til að leggja fé í atvinnulífið, að ekki sé minnst á fjármagn til nýsköpunar og áhættusamari verkefna. Á þessum málum er ekkert tekið í frv. ef undan er skilið að sagt er í greinargerð að ekki sé lögð til breyting á skattalegri meðferð arðs og söluhagnaðar. Þó ekki væri annað en þetta er það nóg að mínu mati til að hafna frv.

    Að lokum, herra forseti, er við hæfi að minnast orða Benjamíns gamla Franklíns sem sagði fyrir rúmum 200 árum að í þessum heimi sé ekkert öruggt nema dauðinn og skattar. Sem betur fer breytum við ekki þessu með dauðann en ég spyr: Er ekki kominn tími til 200 árum síðar að við afsönnum þetta með skattana. Og því legg ég til að það skattafrv. sem hér er til umræðu verði fellt.