Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:33:08 (4935)

1996-04-17 22:33:08# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:33]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ágætu áheyrendur. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir andstöðu við þau frv. sem hér eru til umræðu. Andstaða mín við frv. byggist á andstöðu minni við það að hér á landi verður lagður á nýr skattur, vaxtatekjuskattur. Ekki vegna þess að ég telji vaxtatekjur heilagri en aðrar tekjur heldur vegna þess að ég tel að það sé óskynsamlegt miðað við aðstæður á fjármagnsmarkaðnum og í efnahags- og peningakerfi þjóðarinnar að leggja slíkan skatt á. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

Sparnaður þjóðarinnar er of lítill og mun minni en gerist meðal nágrannaþjóða okkar. Þessi sparnaður er að mestu kerfisbundinn sparnaður í lífeyrissjóðakerfinu og hinn eiginlegi peningalegi sparnaður í viðskiptabönkum og sparisjóðum þar af leiðandi enn minni. Nýr vaxtaskattur mun að öllum líkindum draga úr þessum sparnaði og þá sérstaklega peningalegum sparnaði í bönkum og sparisjóðum. Framboð á lánsfjármagni til hins almenna borgara mun því minnka af þessum sökum og eyðsla og þensla hugsanlega aukast. Þetta mun bitna á hinum almenna borgara, heimilunum og smærri fyrirtækjum vegna þess að þessir aðilar sækja ekki um skammtímalán eða slá víxla hjá lífeyrissjóðum eða verðbréfafyrirtækjum heldur í viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Nú búum við Íslendingar við opið fjármagnskerfi. Því eru sparifjáreigendum opnar leiðir til þess að flytja sparifé sitt til þeirra landa sem ekki hafa lagt á vaxtatekjuskatt. Þetta á sérstaklega við um þá sem eiga verulegar upphæðir þannig að fyrirhöfnin borgi sig. Það er því mjög líklegt að umtalsvert fjármagn flytjist úr landi og framboð á lánsfé til almennra borgara og heimila minnki. Þetta mun líka hafa áhrif á lánsfjármagn til rekstrar fyrirtækja, sérstaklega þeirra minni og það getur haft áhrif á atvinnustigið. Hér á landi þurfum við frekar að auka sparnað og fjárfestingar en að minnka þær.

Vegna þessa minnkaða framboðs á lánsfjármagni er mjög líklegt að vextir muni hækka og hinn almenni borgari og heimilin greiða þá vexti ásamt fyrirtækjunum, sérstaklega minni fyrirtækjum. Það er einnig líklegt að kostnaðurinn af skattinum muni skiptast í einhverjum hlutföllum sem við þekkjum ekki enn þá, á milli lánþega og sparifjáreigenda. Það mun einnig augljóslega leiða til vaxtahækkunar á lánum til almennra borgara og auka vaxtabyrði heimilanna og smærri fyrirtækja.

Herra forseti. Í þessum umræðum hefur verið minnst á frumvörp ríkisstjórnarinnar um álagningu vaxtatekjuskatts og samræmingu skatta á fjármagnstekjur. Þessi frv. eru samin af nefnd allra flokka sem skilaði af sér mikilli skýrslu um þetta efni. Ég hef áður lýst því yfir að ég styðji ekki álagningu vaxtatekjuskatts samkvæmt frumvörpum þessarar nefndar. Það verður hins vegar að viðurkennast að þessi nefnd allra flokka gerir sér grein fyrir þeim vandamálum sem ég hef hér gert grein fyrir og fylgja því að leggja á vaxtatekjuskatt. Sést það bæði í skýrslunni og á frumvörpunum. Á bls. 4 í skýrslunni stendur, með leyfi forseta: ,,... ýmis rök hníga að því að skattlagning vaxta ein og sér kunni að gera hvort tveggja í senn, draga úr sparnaði og auka neyslu.`` Á bls. 6, herra forseti, stendur: ,,Álagning vaxtaskatts mun ein og sér væntanlega fremur stuðla að hærri vöxtum en lægri.`` Og enn fremur segir ,,að skattlagning vaxta kunni að leiða til þess að fjármagn leiti fremur úr landi en inn.``

Frumvörp nefndarinnar reyna að draga eins og kostur er úr vandanum, bæði með því að hafa flata, tiltölulega lága skattprósentu til þess að forðast fjármagnsflóttann og stilla heildarskattlagningunni í hóf, um um það bil 900 millj. kr. á ári. Frumvörp formannanna þriggja fela hins vegar í sér mun hærri skattprósentu og nær tvöfalt hærri heildarskattlagningu, þ.e. 1.700 millj. kr. á ári. Nefndin sem allir flokkar áttu sæti í reyndi líka að draga úr þeim áhrifum til minni heildarsparnaðar sem álagning vaxtatekjuskattsins hefur í för með sér og örva þess í stað annars konar sparnað í þjóðfélaginu með því að lækka skattlagningu annarra fjármagnstekna til samræmis við tillögur sínar um vaxtatekjuskatt og örva þannig tekjumyndun fyrirtækja og þannig stækka skattstofninn. Formennirnir þrír bera þetta ekki við og fara því fram af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart öllum sparnaði, vaxtastigi og vaxtabyrði heimilanna. Auk þess ýtir þeirra leið beinlínis undir undanskot frá skatti.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna gera lítið úr fulltrúum sinna flokka sem sátu í nefndinni. Þeir vanvirða vinnu þeirra jafnframt því að þvinga þá til þess að ganga á bak orða sinna hvað varðar stuðning við frv. Sérstaklega kemur framganga hv. formanns Alþfl. á óvart í þessu máli. Reyndar virðist eins og Alþfl. færist nær Alþb. með hverjum deginum sem líður. Það er því ljóst að af tvennu illu er aðferð nefndarinnar við álagningu vaxtatekjuskatts mun skynsamlegri en ábyrgðarlaus frumvörp formanna stjórnarandstöðuflokkanna þriggja.

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram að það sé réttlætismál að leggja vaxtatekjuskatt á sparifjáreigendur. Er þá eitthvert réttlæti í því að viðhalda hæsta eignarskatti í Evrópu? Og ég spyr: Hvar var réttlætið þegar spariféð brann á báli verðbólgunnar. Því að staðreyndin er sú að yfir 60% af sparifé í viðskiptabönkum og sparisjóðum er í eigu fólks sem er eldra en 60 ára og yfir 50% er í eigu fólks sem er eldra en 67 ára. Og ég spyr enn fremur: Er eitthvert réttlæti í því að hækka vexti hins almenna borgara og skattbyrði heimilanna og hinna smærri fyrirtækja? Mitt svar er nei. Það er hvorki skynsamlegt né réttlátt. (Gripið fram í: Hvað með hina?)