Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:02:24 (4943)

1996-04-18 11:02:24# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:02]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. sagði að ég hefði farið í fjórum atriðum með rangt mál í ræðu minni í gærkveldi og ég ætla að fara í gegnum þau. Í fyrsta lagi að það sé rangt þegar ég mótmæli þeirri staðhæfingu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að það sé verið að hygla þeim betur stæðu á kostnað hinna. Það þarf ekki annað en að vitna til ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur í gær og þess að vaxtaskatturinn gefur 1.000 millj. en það sem dregst saman varðandi arðinn eru 200 millj. Munurinn er því 800 millj. og þá sjá menn stærðirnar svart á hvítu. Þetta kemur fyrir í skýrslunni.

Í öðru lagi sagði hv. þm. að Alþfl. hefði ekki stutt 10% vaxtaskatt. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var ásamt öðrum í Alþfl. í ríkisstjórn þegar ríkisstjórnin gaf yfirlýsingu um að stefnt yrði að 10% vaxtaskatti. Þetta liggur fyrir skjalfest og er frá því í maí 1993.

Þá sagði hv. þm. að það væru fyrirvarar í bókuninni. Það kemur alveg skýrt fram hjá einum þeirra sem skrifaði undir bókunina, Kristínu Einarsdóttur, þar sem hún segir: ,,Þrátt fyrir bókunina stóðum við að nefndarálitinu án fyrirvara.`` Það liggur því fyrir. Það breytir hins vegar ekki því að auðvitað geta menn flutt brtt. og það kom fram í bókuninni.

Loks sagði hv. þm. að ég hefði haldið því fram að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson formaður Alþfl. væri umskiptingur. Ég spurði bara. Og nú hefur hv. þm. svarað að svo sé ekki, þetta sé sami Jón. Þótt fæstir trúi að svo sé veit ég að hv. þm. þekkir þennan Jón betur en flestir aðrir hér í þingsalnum þannig að ég verð að sjálfsögðu að fallast á það.

Að allra síðustu vil ég láta það koma fram að það verður auðvitað rætt við sveitarfélögin um þessi mál þegar og ef þetta frv. verður að lögum.