Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:13:34 (4948)

1996-04-18 11:13:34# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:13]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eða þessara þriggja stjórnarandstöðuflokka geta auðvitað haldið áfram að verja það að þeir hafa dregið stuðning sinn við frv. til baka. Það er ekkert við því að segja. Ég hafði hins vegar ekki tíma í fyrra andsvari mínu til að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þetta hrós sem ég fékk fyrir ræðu mína hér í gærkvöldi. Þar fór hann rétt með í öllum efnisatriðum nema hvað hann sleppti því efnisatriði ræðu minnar þar sem ég sagði að frv. ríkisstjórnarinnar reyndi að mæta þeim göllum sem eru á upptöku vaxtatekjuskatts. En það gerir frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna ekki. Frv. ríkisstjórnarinnar eða frv. nefndarinnar reynir að mæta þessu með því að hafa skattprósentuna lága og með því að örva annan sparnað í landinu en hinn peningalega sparnað, þ.e. sparnað í verðbréfum eða hlutabréfum, og styrkja þannig atvinnulífið. Ef hv. Alþingi ætlar sér á annað borð að samþykkja upptöku vaxtatekjuskatts er frv. nefndarinnar, frv. það sem lagt er fram af ríkisstjórninni, miklu skárri kostur en frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Það mun óumdeilanlega leiða til meiri hækkunar á vöxtum fyrir hinn almenna borgara, heimilin og hin smærri fyrirtæki.