Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:36:57 (4951)

1996-04-18 11:36:57# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:36]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni lýsti ég andstöðu við frv. ríkisstjórnarinnar þegar það var til umfjöllunar í þingflokki Sjálfstfl. Ég geri ráð fyrir því að þetta frv. taki einhverjum breytingum. Það er ljóst að vegna aðdraganda málsins og vegna þess hvað það er flókið var leitað víðtækrar samstöðu um að finna flöt á fjármagnstekjuskatti. Niðurstaða þess var mér ekki að skapi. Nú hefur hins vegar dregið mjög úr líkum þess að þetta mál náist í gegn hvort sem það fær mitt atkvæði eða ekki, það hefur dregið úr líkum þess vegna þess að samstaðan er rofin. En ef þetta frv. sem nú gengur til nefndar verður óbreytt og ekki verða gerðar á því verulegar breytingar þá mun ég ekki greiða því atkvæði. Það er ljóst. Þetta frv. sem við erum að ræða nú, þ.e. ríkisstjórnarfrv., er þó sýnu skárra og mun ekki hafa eins skaðleg áhrif á þjóðfélagið og frv. formannanna þriggja.