Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 14:41:48 (4977)

1996-04-18 14:41:48# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, ISigm
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[14:41]

Ingibjörg Sigmundsdóttir:

Herra forseti. Ég lít svo á að á meðan óljóst er hvort stjfrv. það sem var til umræðu í gær og í fyrradag um fjármagnstekjuskatt verður afgreitt óbreytt, geti ekki verið um neina sátt um þetta frv. að ræða. Í bréfi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga stendur, með leyfi forseta:

,,Þann 4. mars sl. var undirritað samkomulag ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjutilfærslu frá ríki til sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans. Ef frv. um fjármagnstekjuskatt verður lögfest án breytinga bresta þær forsendur sem gengið var út frá við gerð samkomulagsins sem byggist á áætluðum álagningarstofni útsvars án þeirra skerðinga sem gert er ráð fyrir í frv. Í samkomulaginu er m.a. ákvæði um að ríkissjóður greiði sveitarfélögunum næstu fimm árin 265 millj. kr. á ári vegna grunnskólaframkvæmda til að greiða fyrir því að þau geti fullnægt ákvæðum grunnskólalaga um einsetningu skóla. Öll sú fjárhæð er hirt til baka verði frv. um fjármagnstekjuskatt samþykkt.``

Þann stutta tíma sem ég hef setið á Alþingi hafa mér blöskrað sum ummæli þingmanna um sveitarfélögin, ummæli sem mér finnst sýna hve lítt þeir þingmenn hafa kynnt sér fjárhagsstöðu og verkefni sveitarfélaga. Ég skil líka betur hræðslu sveitarstjórnarmanna við að taka við nýjum verkefnum frá ríkinu, manna sem yfirleitt hefur verið talað um sem úrtölumenn en eru kannski þegar öllu er á botninn hvolft raunsæismenn.