Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 15:21:35 (4986)

1996-04-18 15:21:35# 120. lþ. 122.9 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, StB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[15:21]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þær breytingar sem hér eru til umfjöllunar tengjast eins og hv. þingmenn vita yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna, þ.e. yfirtöku sveitarfélaganna á þeim kostnaði sem varðar laun kennara. Um þetta mál hefur verið mikil umræða og fagna ég því að niðurstaða hefur náðst, sem m.a. birtist í þessu frv.

Það er mitt mat að með yfirfærslunni og með því frv. sem hér er til umfjöllunar sé gengið mjög vel og langt til móts við sveitarfélögin í landinu og hagsmunir þeirra eigi að vera mjög vel tryggðir með þeim breytingum á tekjustofnum sveitarfélaganna sem hér eru til umræðu. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að svo sé. Þarna er um að ræða geysilega mikilvægan þátt í okkar menntakerfi þar sem er grunnskólinn og þess vegna afar brýnt að sveitarfélögunum séu tryggðar vel tekjur til þess að standa undir þeim kostnaði sem því fylgir að taka yfir launakostnað kennara.

Það er eitt atriði, hæstv. forseti, sem ég vildi aðeins gera að umtalsefni í þessari umræðu. Það er það sem kemur fram í ákvæði III til bráðabirgða, en þar segir í frv., með leyfi hæstv. forseta:

,,Til að tryggja einsetningu grunnskólans skal ríkissjóður verja allt að 265 millj. kr. á ári af tekjuskatti áranna 1997--2001 til að styrkja framkvæmdir við grunnskólabyggingar. Féð skal renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Til viðbótar framlagi ríkisins til stofnframkvæmda í grunnskólum renni árlegt lögbundið framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga á árinu 1997--2002, 135 millj kr. á ári.``

Síðan segir síðar í þessu bráðabirgðaákvæði: ,,Framlag ríkisins samkvæmt þessu ákvæði skal að hámarki vera 1 milljarður 325 millj. kr. á tímabilinu.``

Ég vil, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli á þessu. Þarna er auðvitað einnig komið mjög til móts við sveitarfélögin með því að ríkissjóður gengur að því að greiða hluta af stofnkostnaði við skólabyggingar sem fallið var frá með verkaskiptalögunum sem tóku gildi í ársbyrjun 1990, en þá hætti ríkissjóður þátttöku í skólabyggingum nema í gegnum Jöfnunarsjóð fyrir hin smæstu sveitarfélög. Með þessu ákvæði kemur ríkissjóður þannig inn aftur. Nú hefur orðið um þetta samkomulag og hef ég fallist á það og mun að sjálfsögðu styðja þetta. En ég vil vekja athygli á þessu atriði og benda hæstv. félmrh. sérstaklega á það, þótt ég viti að hann geri sér fyllilega grein fyrir því. Það liggur fyrir að frá árinu 1990, þegar verkaskiptalögin tóku gildi, hafa sveitarfélög verið að byggja skóla. Þau hafa náttúrlega búið við gildandi lög og þau eru væntanlega ekki afturvirk. Það er því alveg ljóst að frá og með gildistöku þessara laga mæta sveitarfélögin annars konar meðferð en verið hefur. Það er nauðsynlegt að taka þetta fram og vekja athygli á því. Ég er sannfærður um að þetta er ekki síst mikilvægt fyrir sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem mjög langt er í land við uppbyggingu einsetins skóla og kemur mjög til móts við efnahag þeirra stóru sveitarfélaga sem þar um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég endurtek að þetta er atriði sem við gerðum okkur ljósa grein fyrir en það er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu við umræðu um frv.

Þrátt fyrir þetta vil ég lýsa yfir stuðningi við frv. Ég vænti þess og er reyndar sannfærður um það að í höndum sveitarfélaganna verður rekstur grunnskólanna mjög vel tryggður í framtíðinni.