Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:48:20 (5086)

1996-04-22 15:48:20# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:48]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum frá meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breytingu á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.

Það er nokkuð síðan nefndin afgreiddi þetta mál. Frv. er býsna viðamikið og nefndin fjallaði talsvert um málið og gerir á því allmargar tillögur til breytinga.

Það sem nefndin leggur fyrst til er að gerðar verði breytingar á 1. gr. frv. Þar er lagt til að að bætt verði við að með umsókn um starfsleyfi skuli fylgja upplýsingar um náin tengsl, en það er skilgreintí breytingartillögunni hvað er átt við með því hugtaki. Hér er fyrst og fremst um að ræða áhrif frá svokallaðri Post-BCCI-tilskipun en hún hefur haft miklar afleiðingar í för með sér á þetta svið innan Evrópusambandsins og innan hins Evrópska efnahagssvæðis.

Í öðru lagi er lagt til að við frumvarpið verði bætt tveimur nýjum greinum til breytinga á 5. og 6. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að skýrt komi fram í lögunum að skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis viðskiptabanka og sparisjóða sé að þeir séu með höfuðstöðvar hér á landi. Hins vegar er lagt til að brott falli úr lögunum ákvæði um að allt hlutafé sé greitt áður en banki er skráður í hlutafélagaskrá. Það er skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis að allt hlutafé sé að fullu greitt, það sem þarf til til þess að hægt sé að hefja starfsemi banka en það er ekki endilega nauðsynlegt að það sé ekki hægt að skrá hlutafélag sem gefur sig út fyrir að vera banki án þess að slíkt sé til staðar.

Í þriðja lagi er lagt til að 2. gr. frv. falli brott en samkvæmt henni var í frv. gert ráð fyrir því að ríkisviðskiptabankar hefðu frjálsar hendur frá Alþingi um töku víkjandi lána til þess að efla eiginfjárstöðu sína. Í lögunum eins og þau standa nú er gert ráð fyrir því að ríkisbanki þurfi að leita heimildar Alþingis til þess að gera eiginfjárráðstafanir. Meiri hluti nefndarinnar telur að það sé eðlilegt að Alþingi hafi um það að segja þegar ríkisbankar gera eiginfjárráðstafanir og því er lagt til að þessi grein frv. falli brott.

Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði að synja umsókn um starfsleyfi ef náin tengsl viðskiptabanka eða sparisjóðs við einstaklinga eða lögaðila geti að mati bankaeftirlits hindrað eðlilegt eftirlit með þessum stofnunum.

Í fimmta lagi eru gerðar breytingartillögur við 8. gr. frv. Þar er um það að ræða að setja á einn stað og gera skýrari þau ákvæði sem falla um eiginfjármörk og eins er gert ráð fyrir sérstakri tilkynningarskyldu til bankaeftirlitsins ef eiginfjárhlutfall fer niður fyrir 10% með endurgreiðslu á víkjandi lánum.

Í sjötta lagi er brtt. við 10. gr. frv. og þar er fyrst og fremst um að ræða tæknileg atriði vegna samræmingar á ársreikningum.

Í sjöunda lagi er gerð brtt. við 11. gr. sem felur fyrst og fremst í sér kröfu um samráð við reikningsskilaráð við setningu reglna um uppsetningu ársreiknings.

Í áttunda lagi er brtt. við 13. gr. Þar er fyrst og fremst um að ræða auknar kröfur til endurskoðenda og þær auknu kröfur snúa fyrst og fremst að því að endurskoðendum verður gert skylt að upplýsa bankaeftirlit ef þeir fá ákveðna vitneskju um eitthvað sem er ekki í lagi hjá þeim aðilum sem þeir eru að endurskoða.

Í níunda lagi er lagt til að 15. gr. frv. verði breytt þannig að heimild laganna samkvæmt 67. gr. til að stytta frest sem hann hefur veitt viðskiptabanka eða sparisjóði til að auka eigið fé verði felld brott. Þarna er um að ræða samræmingu við frv. til laga um verðbréfaviðskipti sem þegar er orðið að lögum.

Í tíunda lagi eru breytingar á 16. gr. frv. Þar er um að ræða allviðamiklar tillögur til breytinga sem felast fyrst og fremst í því hvernig farið er með Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða. Í frv. var meiningin að steypa tryggingarsjóðunum saman í einn sjóð undir einni stjórn. Meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um að Tryggingarsjóður viðskiptabanka verði aðskilinn áfram frá Tryggingarsjóði sparisjóða. Jafnframt verður Tryggingarsjóði viðskiptabanka breytt, það er reyndar miðað við að það komi til í bráðabirgðaákvæði, í þá veru að allar núverandi eignir og skuldir sjóðsins sem eru í svokallaðri lánadeild hans eiga að falla undir ríkissjóð. Innstæðudeildin starfar áfram en síðan verður heimilt að stofna upp úr núverandi innstæðudeild nýja lánadeild með ákveðnu hlutverki og eigið fé þessarar nýju lánadeildar verður þá það fé sem er til í innstæðudeildinni umfram þær lágmarkskröfur sem gerðar eru samkvæmt lögunum. Þetta er helsta breytingin sem lögð er til í þessum 10. lið brtt. um Tryggingarsjóð viðskiptabanka eða innlánsstofnana eins og það heitir í frv.

Í ellefta lagi er gerð tillaga um breytingu á 20. gr. varðandi afturköllun starfsleyfis.

Í tólfta lagi eru brtt. við 24. gr. um gildistökuákvæði.

Síðast en ekki síst eru lögð til tvö ákvæði til bráðabirgða, annað það sem ég gat um áðan varðandi yfirtöku eigna og skulda lánadeildar Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, en síðan er gert ráð fyrir því að ríkisviðskiptabanka sé fram til 31. des. 1997 heimilt að taka víkjandi lán til endurfjármögnunar á víkjandi lánum sem bankinn hefur tekið. Hámarksheimild samkvæmt þessu ákvæði miðast við þá fjárhæð sem slík lán námu 1. jan. 1994. Þetta þýðir í rauninni að Alþingi mundi ef að lögum verður veita ríkisbönkum heimild til þess að taka víkjandi lán eingöngu til endurfjármögnunar að hluta til vegna þeirra víkjandi lána sem á viðkomandi viðskiptabanka hvílir, en ég gat um það áður að samkvæmt frv. væri gert ráð fyrir því að ríkisbankar hefðu algjörlega frjálsar hendur hvað snertir Alþingi til þess að taka slík víkjandi lán. Samkvæmt lögunum mundi breytingin samkvæmt frv. hafa þýtt að viðskiptabanki hefði getað tekið víkjandi lán sem næmi um 50% af eigin fé öðru. Þetta hefði t.d. þýtt að ríkisviðskiptabanki hefði getað aukið sitt eigið fé um segjum milljarð með víkjandi láni og þar með aukið efnahagsreikninginn um 12,5 milljarða í framhaldi af því.

Með þeirri breytingu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til er í rauninni ekki verið að taka neina nýja ákvörðun um eiginfjárráðstafanir í ríkisbönkum heldur er Alþingi fyrst og fremst að staðfesta þær ákvarðanir sem hafa áður verið teknar, en þó ekki að gefa viðkomandi ríkisviðskiptabanka heimild til þess að taka víkjandi lán eins og þau hafa hæst verið.

[16:00]

Ég tel að með því bráðabirgðaákvæði sem meiri hluti nefndarinnar leggur til sé verið að skapa ríkisviðskiptabönkunum eðlilegt starfsumhverfi á þeim tíma sem þeir verða enn þá undir því fyrirkomulagi. Eins og hv. þm. vita er stefna ríkisstjórnarinnar að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum og í því formi munu ríkisviðskiptabankarnir falla almennt undir lögin og hafa þá heimildir til þess að taka þá víkjandi lán eins og kaupin gerast á eyrinni.

Ástæða þess að Alþingi er yfirleitt að takmarka möguleika ríkisviðskiptabankanna til þess að taka víkjandi lán er að sjálfsögðu sú að ríkið ber ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna. Þess vegna er ekki óeðlilegt að möguleikar þeirra til þess að blása út efnahagsreikning sinn og afgreiða sjálfa sig með ríkisábyrgð sé takmörkuð. Slík takmörkun má þó af hálfu Alþingis ekki vera svo mikil að hún hefti þá í starfsemi sinni og Alþingi verður líka að sjálfsögðu að búa svo um hnútana í sambandi við þetta mál að ekki sé verið að rýra þá eign sem er í þessum bönkum. Slíkar takmarkanir mundu ekki þjóna neinum hagsmunum, ekki hagsmunum ríkisins sem eiganda bankans og alls ekki hagsmunum viðskiptavina bankanna, ríkisviðskiptabankanna, sem eiga mikið undir því að starfsemi þeirra verði sem eðlilegust meðan núverandi fyrirkomulag ríkir.

Undir álit meiri hlutans skrifa allir hv. meirihlutaþingmenn nema Pétur H. Blöndal sem hefur fyrirvara og mun hann gera grein fyrir honum.