Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 16:44:18 (5089)

1996-04-22 16:44:18# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[16:44]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson spurði mig hvort það ætti að flytja sérstakt frv. ef ástæður breyttust varðandi þetta mál sem ég nefndi, þ.e. þetta víkjandi lán. Þannig skildi ég hann. Það sem ég er að segja og er mjög skýrt og kom mjög vel fram í máli mínu, var að þegar frv. er lagt fram var ekki getið um áhrif þessara breytinga. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það má segja að það er eiginlega fyrst þegar umsagnir berast varðandi frv. að nefndarmenn átta sig á mikilvægi þessa ákvæðis í 2. gr. frv. sem snertir víkjandi lán, og menn fóru að skoða þann þátt betur. Alveg eins og ég lýsti áðan kaus nefndin í fyrsta umgangi að láta þetta ákvæði falla niður en síðan varð atburðarásin eins og ég lýsti.

Það sem ég færði hins vegar alveg fullkomin rök fyrir, herra forseti, var að þessi efnisatriði um víkjandi lán í Landsbankanum til endurfjármögnunar er allt annað mál en tæknileg breyting, EES-breyting eða smávægileg breyting. Það kalla ég ástæðu, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, fullkomlega eðlilega ástæðu að taka það mál sérstaklega til skoðunar, annaðhvort að flytja það sérstaklega eða sem hefði verið enn betra og var rætt í nefndinni, að fella það inn í það frv. sem stóð til að flytja um breytingu Landsbanka Íslands í hlutafélag. Það var hin fullkomlega rétta og eðlilega og formlega afstaða sem menn áttu að taka í þessari nefnd. Þetta er ekkert smámál sem hér er á ferðinni. Einhverjir sögðu að hér væri verið að lauma í gegn ýmsum hlutum. Ég ætla ekkert að viðhafa þau orð í sambandi við þetta mál en ég bendi á að þessi afgreiðsla meiri hluta nefndarinnar var fullkomlega óeðlileg eins og málið var vaxið.