Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 17:51:20 (5098)

1996-04-22 17:51:20# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[17:51]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér gefst vonandi tækifæri til þess á eftir að svara þeim spurningum sem hv. þingmenn hafa beint til mín. Ég hef valið þá leið að allir hv. þm. stjórnarandstöðunnar tali ásamt minni hluta í efh.- og viðskn. áður en ég reyni að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Ég vil þó gera athugsemdir við það í ræðu hv. þm. sem fram kom áðan þar sem hv. þm. kvartaði undan því að stjórnarndstaðan væri ekki þátttakandi í undirbúningi að formbreytingu bankanna. Sú leið var valin í góðu samstarfi við bankastjórnir og bankaráð beggja ríkisviðskiptabankanna og í góðu samstarfi við starfsmannafélög beggja bankanna að þessi háttur yrði hafður á, þ.e. að þetta yrði þriggja manna framkvæmdanefnd sem í völdust formaður, skipaður af viðskrh., fulltrúi fjmrh. og fulltrúi Seðlabankans. Hv. þm. veit hverjir fulltrúar þessara aðila eru sem þarna eru að starfi. Það kemur skýrt fram í skipunarbréfi nefndarinnar að nefndin á að hafa gott samráð við starfsmannafélög bankanna, við bankaráð beggja banka og við bankastjóra bankanna um þessa framkvæmd. Það hefur nefndin gert. Bankaráð beggja bankanna riðu á vaðið strax og þessi nefnd hafði verið skipuð og hófu undirbúning að þessu starfi innan bankaráðanna. Nú liggja fyrir tillögur frá bankaráðum beggja banka. Í þeim á stjórnarandstaðan fulltrúa og hefur þar af leiðandi getað haft mjög mikil áhrif á það hverjar tillögur bankaráðanna væru til viðskrh. og nefndarinnar um það hvernig að þessu skyldi staðið. Ég fagna því sérstaklega að um þær tillögur sem komið hafa frá bankaráðunum og kynntar hafa verið fyrir starfsmönnum beggja banka hefur náðst nokkuð víðtæk samstaða. Eftir því sem ég veit best er ágætissamstaða um það sem þar er verið að leggja til. En ég mun hér á eftir skýra frekar frá áformum ríkisstjórnarinnar um það hvað fyrirhugað er að gera í þessum efnum.