Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 21:26:38 (5102)

1996-04-22 21:26:38# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[21:26]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta. Ég var í síma og reiknaði með að hv. þm. mundi tala aðeins lengur. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að hann ræddi hér um Landsbanka Íslands og lánveitingar hans, þar á meðal í hinum dreifðu byggðum landsins, og hann þyrfti að vera sterkur til að rækja það hlutverk. Ekki ætla ég að hafa á móti því en um það snýst ekki málið. Nú er komin þriðja röksemdin inn í það að hafa veitt þetta víkjandi lán. Ég rakti skilmerkilega í ræðu minni áðan að eina röksemdin sem komin væri fram fyrir víkjandi láni væri nauðsyn vegna fyrirhugaðrar ,,háeff-væðingar``. Ég dró sérstaklega fram að Landsbankinn þyrfti ekki á neinni sérstakri fjárhagsaðstoð að halda núna, síður en svo. Ég held að það sé mikilvægt að það sé alveg ljóst við þessa umræðu. Nú kemur hv. þm. og segir að þetta þurfi til að styrkja hinn byggðalega þátt Landsbanka Íslands og ég geri ekki lítið úr því. En um þetta hefur aldrei verið talað og þetta getur ekki verið röksemd fyrir þessu máli. Málið snýst einfaldlega um það sem ég hef rakið hér. Frv. var tæknilegt EES-frv., það blandast inn í það fyrirhuguð ,,háeff-væðing`` og ekki neitt er á borðinu um það hvernig það verður útfært. Landsbankinn þurfti ekki á þessu að halda. Það eina sem gæti komið til væri vegna þess að einhverjar eignir yrðu metnar niður í fyrirhugaðri hlutafjárvæðingu. Það var hvergi á nokkrum tímapunkti talað um að það þyrfti að styrkja Landsbankann til að hann gæti rækt betur hlutverk sitt í atvinnulífinu víðs vegar um landið. Þetta er alveg ný röksemd sem kemur fram hjá hv. þm. og ekki ætla ég að hafa á móti því. En svona var málið ekki lagt upp, hvorki í nefndinni né af hálfu hæstv. viðskrh.