Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:09:21 (5112)

1996-04-22 22:09:21# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:09]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki of mikið úr þessu máli. Ég kann nokkuð á bankana og ég veit að það er alvarlegt að tala um stöðu ríkisviðskiptabanka. Ég veit hins vegar að staða bankans var ágæt um síðustu áramót og ég legg áherslu á það. Það sem ég dreg hins vegar hér fram er að hér er verið að blekkja menn. Mér finnst sjálfum að ég hafi verið blekktur. Ég fékk ekki að vita hvernig málið var vaxið þegar lagt var upp með það. Ég er alveg maður til að taka þátt í því að hjálpa Landsbankanum eða öðrum ríkisviðskiptabanka. Ég tók sjálfur persónulega þátt í því 1993 að hjálpa til við áætlun sem þá var lagt upp með. Það er því ekkert nýtt fyrir mig og ég legg mikið upp úr því að staðið sé almennilega að verki eins og gert var árið 1993 og að þær áætlanir sem lagt er upp með standist. Hér kemur í ljós að svo var ekki. Ástæðan er skýrð að hluta til og hægt að ræða lengi um það. En þá hefðu menn átt að koma hreint fram í þingnefnd og þinginu, ræða málið og hjálpa þá til, hvort sem menn tengdu það annars ,,háeff-væðingu`` eða einhverju slíku. Þetta er miklu alvarlegra mál en svo að menn geti laumast með það undir vegg. Það er það sem mér finnst ámælisvert. Hæstv. ráðherra hefur svarað og gefið fullkomlega upplýsingar um málið en þær hefðu betur mátt liggja fyrir fyrr.