Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:10:51 (5113)

1996-04-22 22:10:51# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:10]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki og hefur aldrei verið meiningin að leyna einu eða neinu í þessu máli. Þær upplýsingar sem ég vitna í eru í skýrslu þeirri sem bankaeftirlit Seðlabankans í samvinnu við ráðuneytisstjórann í fjmrn. og viðskrn. hefur tekið saman um framkvæmd þessa samnings. Það hefur verið og var krafa í upphafi að fylgst yrði mjög nákvæmlega með því hvernig bankinn stæði sig og hvernig hann stæði við samninginn sem gerður var. Þess vegna hefur með reglulegu millibili verið farið yfir framkvæmd samningsins. Þær upplýsingar sem hér liggja fyrir og eru skýrðar sýna að meginástæðan fyrir þessari aðstoð á endurfjármögnun sem bankinn þarf á að halda er að hagnaðurinn er 1,5 milljörðum kr. minni en menn áætluðu að hann yrði í upphafi þegar fyrirgreiðslan var veitt. Og mér skilst að um það séum við hv. þm. sammála.