Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:29:45 (5119)

1996-04-22 22:29:45# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:29]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það hafi ekki farið fram neinn blekkingarleikur í sambandi við umfjöllun efh.- og viðskn. um þetta mál og ekki heldur að málið hafi verið þannig lagt upp af hálfu ráðuneytisins. Ég tel að það hafi verið fjallað mjög eðlilega um þetta og tekin málefnaleg afstaða til málsins í umfjöllun nefndarinnar og tillögugerð hennar. Það liggur fyrir í þessu máli að það eigi í sjálfu sér ekki að taka nýja ákvörðun varðandi eiginfjármögnun Landsbankans. Landsbankinn hafði möguleika til að taka víkjandi lán sem var samþykkt á þingi 1993. Síðan erum við að fjalla núna um endurfjármögnun þessara víkjandi lána af ýmsum ástæðum sem komið hafa fram. Ég tel að það séu fyllilega forsendur til þess að klára málið á þeim nótum sem rætt hefur verið um. Ég sé ekki neina ástæða til að draga brtt. til baka eða fjalla frekar um málið. Ég sé ekki að það mundi breyta neinu um niðurstöðuna. Við í hv. efh.- og viðskn. kæmumst að nákvæmlega sömu niðurstöðu um þá þörf sem þarna er til staðar. Ég held að það væri langbest fyrir allt og alla að ljúka málinu sem fyrst, bæði fyrir Landsbankann og eigendur, skattgreiðendur í landinu, og ekki síst fyrir viðskiptavini bankans.