Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:37:20 (5123)

1996-04-22 22:37:20# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:37]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni fyrir þær skýringar sem komu fram í máli hans áðan. Þær voru eitthvað á þá leið að þrátt fyrir Sverri Hermannsson væri bankinn allvel mannaður að öðru leyti. Ég vil taka fram að ég heyrði þessi ummæli hv. þm. af því að ég var hér í salnum á þeim tíma eins og fram kemur á myndbandi sem var sýnt á sjónvarpsstöð í kvöld. Ég gekk hér um sal tvisvar sinnum á meðan hv. þm. viðhafði þau ummæli um bankastjóra Landsbankans sem hér hafa orðið aðalumræðuefnið í kvöld. Ég hlýddi því á þetta og ég segi alveg eins og er að ég met hv. þm. mikils fyrir að reyna að setja hlutina svona upp. Samt sem áður finnst mér að staðan hafi ekki batnað. Hann undirstrikaði í seinni ræðu sinni að þessi bankastjóri Landsbankans er að hans mati alveg sérstakt vandamál og ekki í jafnvægi, en þrátt fyrir það mætti svo sem sletta í Landsbankann einhverjum stuðningi.

Það er meginniðurstaðan af þessu máli þannig að ég ætla ekki að fara frekar yfir það. Ég þekki dálítið til mála af þessu tagi, bæði frá fyrri árum mínum í efh.- og viðskn. og eins í viðskrn. Auðvitað er það alveg rétt hjá hæstv. viðskrh. að þessi mál eru vandmeðfarin, m.a. í orði í þessari virðulegu stofnun og úr þessum stól. Ég tel að þar þurfi ýmsir á siðapredikunum að halda. Til dæmis hv. þm. sem var næstur á undan mér ekki síður en sá sem hér stendur, án þess að ég sé að frábiðja mér vinsamlegar leiðbeiningar um orð mitt og æði að hverju sem það kann að lúta.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt hæstv. forseti, að vekja athygli á því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon viðhafði þau orð að í þessu máli hefði verið uppi sérkennilegur feluleikur og að efh.- og viðskn. hafi verið leynd mikilvægum upplýsingum. Ég tók eftir því að hv. þm. Ágúst Einarsson komst að orði með mjög svipuðum hætti. Út af fyrir sig getur formaður efh.- og viðskn. komið og sagt: Ja, þetta er ekki rétt, nefndin var ekki leynd neinu. Veruleikinn er eftir sem áður sá að tveir talsmenn stjórnarandstöðuflokka sem hafa unnið að málinu í nefnd lýsa því yfir að þeir telji að þeir hafi verið leyndir mikilsverðum upplýsingum. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. formann efh.- og viðskn., ef hann vill að þetta mál treysti stöðu Landsbankans, að hlusta á þær óskir sem liggja fyrir um að þessi tiltekna brtt., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi hér áðan, fái meðferð á milli umræðna þannig að málið verði eins traust undirstaða fyrir Landsbankann í framtíðinni og mögulegt er. Miðað við þau óvarlegu orð sem hafa m.a. verið látin falla um þann banka af hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni er nauðsynlegt að hv. formaður efh.- og viðskn. vandi efnismeðferð málsins í nefndinni meira en hann hefur gert.

Það er bersýnilegt að þeir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem hér hafa talað í kvöld telja að þeir hafi verið leyndir upplýsingum. Það er talað um sérkennilegan feluleik og það er talað um, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði það, að það sé engan veginn forsvaranlegt hvernig málið hefur verið lagt fyrir nefndina. Þess vegna vil ég taka undir þá ósk hv. þm. að málið fái betri skoðun í nefndinni, brtt. verði kölluð aftur til 3. umr. og málið vandað svo sem best má vera. Það er alveg augljóst að eftir þær umræður sem farið hafa fram, og þá m.a. yfirlýsingar hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar um bankastjóra Landsbankans, er nauðsynlegt að vanda sérstaklega lendinguna í þessu máli af hálfu þessarar virðulegu stofnunar.