Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 23:06:11 (5131)

1996-04-22 23:06:11# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. meiri hluta VE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[23:06]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef á tilfinningunni að það sem sé að gerast hér sé að hv. þm. stjórnarandstöðunnar langi óskaplega til að styðja málið en séu að leita sér að ástæðu til þess að gera það ekki. Þegar málið byrjaði upphaflega í dag flutti talsmaður stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Ágúst Einarsson, ræðu þar sem hann var fyrst og fremst á móti því að fjalla um þetta mál, það ætti ekki að flytja hér og afgreiða mál vegna þess að það væru þrjár ástæður fyrir því að breyta lögum með þessu frv. og það þyrfti að flytja sérstakt frv. um hverja ástæðu. Síðan koma frekari upplýsingar fram í umræðuna, þær eru allar til þess fallnar að styrkja þá afgreiðslu sem verið er að leggja til, að Landsbankinn fái standandi heimild til þess að endurfjármagna þau víkjandi lán sem hann hefur tekið upp að því marki sem kveðið er á um í þessu ákvæði til bráðabirgða. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég er tilbúinn til þess að halda fund milli 2. og 3. umr. þar sem farið yrði nákvæmlega yfir þetta mál. Það getur þá tekið ákveðnum breytingum við 3. umr. ef mönnum sýnist svo en ég er alveg viss um það að þegar umfjöllunin í nefndinni hefur farið fram milli umræðna munu hv. þm. vera tilbúnir til þess að styðja málið endanlega. Ég er að hugsa um hvort hv. þm. muni líða eitthvað betur ef ég lýsti því yfir að tillagan yrði afturkölluð á meðan þeir væru að hugsa sig um. Ég veit ekki hvort það hefði eitthvað upp á sig eins og hv. þm. var að nefna áðan ef þá langar svo mikið til að styðja málið. En ég get líka lofað þeim að ég hyggst þá flytja þessa sömu tillögu við 3. umr. og mundi bara fagna því ef fleiri hv. þm. styddu tillöguna með okkur hv. stjórnarliðum vegna þess að hún er skynsamleg og hefur alltaf verið skynsamleg og ekki versnar tillagan ef hún fær fleiri stuðningsmenn.