Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 23:13:04 (5133)

1996-04-22 23:13:04# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[23:13]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil í upphafi nefna það sem hv. formaður efh.- og viðskn. ræddi um áðan og virtist bara gera grín að þessu máli. Ég er seinþreyttur til vandræða varðandi þetta mál en það hefur komið alveg skýrt fram að menn telja að þeir hafi verið blekktir í umræðunni. Ég hef stillt mig um að fara um þetta mjög alvarlegum og þungum orðum þó raunverulega sé tilefni til. Og að segja hér úr ræðustól að við séum að biðja um einhverja frestun vegna þess að við viljum endilega vera á tillögum með hv. formanni efh.- og viðskn., mér finnst slíkur málflutningur vera fyrir neðan allar hellur. Þetta mál er miklu alvarlegra en það. Við stjórnarandstæðingar höfum verið að bjóða upp á vegna hversu málið er alvarlegt að tekið verði aðeins hlé í þeirri umræðu að skoða betur og reynt að finna ákveðna samstöðu um það. Þetta mál er ekki til að gera á nokkurn hátt grín að. En með tilliti til málsmeðferðar sem hér er get ég fallist á þá tillögu sem forseti lagði til, þ.e. að 2. umr. ljúki. Sú umdeilda tillaga, sem við erum að tala um, ákvæði til bráðabirgða II verði dregin til baka til 3. umr. Nefndin komi saman milli 2. og 3. umr. og menn geta þá síðan gefið út frhnál. og tekið þá umfjöllun um þá efnisþætti sem hér eru til umræðu. Enda þótt ég hefði kosið að hin málsmeðferðin yrði viðhöfð, sem ég nefndi áðan, þá fellst ég eins og alltaf eða oftast á óskir forseta vors um málsmeðferð og tel eðlilegt að það sé gert. Ég legg áherslu á það að menn eru að tala um alvörumál og stjórnarandstaðan hefur átt málefnalega umræðu um þessa tilteknu efnisþætti og það er lágmarkskrafa til stjórnarliða að þeir taki þá málið af þeirri alvöru sem það á skilið.